Samfylkingin á að vera 40% flokkur

blog

Nú í vikunni kom regluleg skoðanakönnun Gallup sem sýnir Samfylkinguna með fylgi fjórðungs þjóðarinnar, 25%, og sem fyrr næststærsti stjórnmálaflokkur landsins. Það er glæsilegur árangur sem jafnaðarmenn hafa náð á örfáum árum, að sameinast í einni fylkingu og skapa raunverulegan valkost við Sjálfstæðisflokkinn. En það er ekki nóg.
Á þessum vetri þarf Samfylkingin að gera tilkall til forystu fyrir landinu og gera hverjum manni ljóst að kosningarnar í vor munu aðeins snúast um það hvort sérhagsmunagæsla Sjálfstæðisflokksins eða almannahagsmunir Samfylkingarinnar munu móta samfélag okkar næstu fjögur ár. Verkefni okkar er býsna einfalt. Við þurfum að verða stærri en Sjálfstæðisflokkurinn.

Aftur til framtíðar

Við þurfum að taka forystu því stjórnarflokkarnir hafa gefist upp við efnahagsstjórnina. Verðbólga og ofurvextir eru veruleiki venjulegs fólks sem þeir hafa gefist upp fyrir. Það bitnar hart á ungu fólki og skuldsettu meðan sérhagsmunirnir hagnast á tá og fingri í stöðutökum. Í því ástandi þarf þjóðin forystu sem þorir að kveðja íslensku krónuna og skapa hér aðstæður fyrir fólk og fyrirtæki einsog þekkjast í löndunum í kringum okkur.
Við þurfum forystu sem getur skorið upp stagbætt bóta og skattkerfi landsins sem er orðið svo flókið og óskilvirkt að þeir sem minnstar tekjur hafa borga hæstu skattaana, en þeir mest sem hafa minnst. Nú þegar vinnuafslskortur er allsráðandi refsum við lífeyrisþegum fyrir sjálfsbjargarviðleitni með því að taka af þeim yfir helming tekna sinna í skatta og tekjutengingar meðan aðrir geta frestað söluhagnaði eða greitt miklu lægra hlutfall. Við þurfum fólk sem getur komið á einföldu skatta og bótakerfi fyrir almannahagsmuni í stað skrifræðisbákns sérhagsmunaflokkana sem bara þjóna sínum.
Við þurfum forystu fyrir konur. Í vor verður kosið um hvort kona verði forsætisráðherra, eða hvort við ætlum að bíða í aðra öld. Á hverjum degi eru framin mannréttindabrot á venjulegum konum í launamisrétti sem jafnvel nær til lífeyriskerfisins. Þar er þeim refsað með tekjum maka og ekki taldar sjálfstæðir einstaklingar. Í vinnunni er launamsiréttið það sama og þegar ríkisstjórnin tók við fyrir tólf árum. En hún hefur óspart hækkað skatta á lágar og meðaltekjur og því standa konur heldur ver en áður. Helmingur þjóðarinnar þarf nýja ríkisstjórn.

Gæfa og getuleysi

Það er gæfa okkar að vera rík af mannauði og auðlindum. Við eigum öflugt atvinnulíf sem skilar okkur sívaxandi tekjum. Það er þeim mun óskiljanlegra að við skulum sætta okkur við það getuleysi sem blasir við í stjórnmálunum.Það ógnar árangri okkar að ná ekki tökum á verðbólgunni, vera ekki í trúverðugu myntssamfélagi og auka svo á misskiptinguna að það skapar sundrungu í samfélaginu.
Við þurfum forystu sem ekki heldur að það sé verkefni stjórnmálamanna á 21. öldinni að koma með verksmiðjur handa fólkinu. Forystu sem veit að hlutverk hennar er að búa venjulegu fólki góð skilyrði, efla menntun og skapa þannig atvinnulífinu almennar aðstæður til að blómstra. Það er kjarninn í Fagra Ísland og eftir honum kallar stærstur hluti venjulegs fólks. Þessvegna á Samfylkingin að vera 40% flokkur.

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.