Júní, júlí ágúst og september

blog

stundum er sagt að það séu fjórar góðar ástæður fyrir því að gerast
þingmaður –  júní, júlí, ágúst og september. sem kunnugt er kemur þing
ekki saman fyrr en 1. október ár hvert en þingsetningardagurinn var
einmitt í upphafi vikunnar. það var ánægjulegt að heyra nýjan forseta
alþingis leggja áherslu á að breyta úreltum starfsháttum þingsins og
nauðsyn þess að auka virðingu þess.

það er löngu orðið tímabært að lengja starfstíma þingsins, hætta
næturfundahöldum, meirihlutaofbeldi og málþófsæfingum. hugmyndir
forseta um opna nefndarfundi og fjölskylduvænna vinnuskipulag eru í
takt við tímann en mikilvægast þó að efla sjálfstæði þingsins. segja má
að í valdatíð davíðs oddssonar hafi hægt mjög á þingræðisþróun í
landinu og jafnvel að þá hafi alþingi breyst í afgreiðslustofnun fyrir
ríkisstjórnina.  bráðnauðsynlegt er fyrir lýðræðisþróun í landinu að
snúa af þeirri braut.

umræðan fyrstu daga þingsins undirstrikar þetta enn frekar. þar
situr óvenju stór meirihluti og stjórnarandstaðan því veikburða og
sömuleiðis sundruð. við þær aðstæður verður enn mikilvægara að þingið
sé sem sjálfstæðast og veiti framkvæmdavaldinu eðlilegt aðhald. nýr
forseti þingsins er ekki sá fyrsti sem haft hefur metnað fyrir hönd
þess og spennandi verður að sjá hvort honum auðnast að fylgja honum
eftir.

lítið svigrúm fyrir stóriðju

það nýmæli var við þingsetninguna að strengjasveit lék í þinghúsinu.
einkar hátíðlegt en minnti mig af einhverjum ástæðum á strengjasveitina
í titanic. það var kannski ekki svo fráleitt því eins og lesendur muna
lék strengjasveitin í titanic áfram hvað sem á gekk – sannfærð um að
skipið gæti ekki sokkið. með sterkan stjórnarmeirihluta, veika og
sundraða stjórnarandstöðu og öflugan efnahag er auðvitað hætta á því að
við ofmetnumst af velgengni eins og varð um titanic forðum. það þarf
nefnilega sterk bein til að þola góða daga.

þegar stjórnarandstaðan er vanmáttug í að benda á hætturnar og
verkefnin framundan, verður ríkisstjórnin að vera enn betur vakandi.
við þurfum að taka mjög alvarlega þann mikla fjármagnskostnað sem
skuldsett heimili þurfa að bera í þessu efnahagsástandi. við verðum að
taka alvarlega stöðu ungs fólks sem er eignalaust að koma inn á
yfirspenntan fasteignamarkað  á hávaxtaskeiði og í of mikilli
verðbólgu. okurverð á nauðsynjavörum eins og mat og lyfjum er
óviðunandi og við verðum að geta rætt opinskátt um óstöðugleika
gjaldmiðilsins án þess að virðulegir ráðherrar bresti í grát yfir illu
umtali um íslensku krónuna. við þurfum með hraði að létta tekjutenginum
af lífeyrisþegum til að losa þá úr skipulagðri fátækt en vaxandi
misskipting er jú það sem helst ógnar stöðugleika skipsins.

mikilvægast er þó að skattalækkunum verði á kjörtímabilinu einkum
beitt til að bæta hag lág- og meðaltekjufólks, skuldugra og
barnafjölskyldna s.s. með afnámi stimpilgjalda, hækkun barnabóta og
persónuafsláttar. ekki er síst mikilvægt að það svigrúm sem er til
skattalækkana á kjörtímabilinu verði nýtt þegar slaknar á en ekki hellt
sem olíu á eld þenslu. þær ágætu horfur sem eru í hagstjórninni kalla
fyrst og fremst á aðgát af hálfu stjórnvalda og ekki verður séð að
svigrúm sé til mikilla stóriðjuframkvæmda að óbreyttu. það er
fagnaðarefni því það gefur tíma til vandaðrar stefnumörkunar í
umhverfismálum sem nauðsynleg er áður en lengra er haldið. 

umræðan í vikunni sýndi að auk þess að friða náttúruperlurnar okkar og
vernda hið ómetanlega miðhálendi landsins eigum við alveg eftir alla
vinnu í grænum sköttum, áður en lengra er haldið í stóriðju.  þá var
úthlutað ókeypis heimildum til stóriðju að menga andrúmsloftið með
gróðurhúsalofttegundum skv. lögum fyrri ríkisstjórnar. þó er augljóst
að menn eiga að borga fyrir að menga loftið eins og fyrir að míga á
almannafæri. og ef við beitum grænum sköttum hyggilega getur það enn
aukið svigrúm okkar til að lækka skatta á tekjur  fólks.

(pistill þessi birtist í blaðinu 06.10.07)