Ár Samfylkingarinnar

blog

Fyrir rúmum áratug fór ný kynslóð að knýja á um sameiningu jafnaðarmanna. Margir höfðu reynt það á undan henni og alla síðustu öld beið draumurinn á rauðu ljósi en brast hvað eftir annað. Birtar voru auglýsingar í blöðunum undir yfirskriftinni „Ungt fólk krefst árangurs“. Í borginni var fyrirstaðan lítil. Eftir áratuga áhrifaleysi var vilji almennings ljós og knúði loks fram stofnun Reykjavíkurlistans. Um aldamótin var Samfylkingin svo stofnuð úr fjórum flokkum, ekki síst á þeirri röksemd að sundrung jafnaðarmanna hefði leitt til viðvarandi áhrifaleysis þeirra.

Nú, sjö árum síðar, er flokkurinn kominn í ríkisstjórn, leiðir höfuðborgina, hefur hreinan meirihluta í Hafnarfirði, á aðild að meirihluta á Akureyri, o.s.frv. Samfylkingin er ekki aðeins orðin burðarflokkur í ríkisstjórn, eins og formaðurinn hét, heldur í íslenskum stjórnmálum. Það var einmitt á þessu ári sem Samfylkingin naut ávaxtanna af starfi undanfarinna ára með myndun ríkisstjórnar og yfirtöku borgarinnar. Eftir að hafa átt á brattan að sækja snéri flokkurinn vörn í sókn með nýrri umhverfisstefnu, fagra Íslandi. Í kjölfarið fylgdi þung áhersla á jöfnuð, málefni barna og lífeyrishafa og jafnrétti kynjanna, sem saman gerðu Samfylkinguna að trúverðugri breiðfylkingu jafnaðarmanna. Þó að á móti blési stóðu flokksmenn og forysta saman og gengu jafnvel hús úr húsi til að sannfæra kjósendur um erindi sitt.

Nýr Sjálfstæðisflokkur

Með myndun Þingvallastjórnarinnar á vordögum sýndi nýr formaður Sjálfstæðisflokksins sterka forystu og pólitískan kjark. Hinn frjálslyndi armur flokksins réði nú ferð en ekki afturhaldsöflin. Sú stjórn sem var mynduð er fyrst og fremst miðjustjórn um hagsmuni venjulegs fólks og fyrirtækja. Ósætti gömlu afturhaldsaflanna við þróunina braust svo út með sérkennilegum hætti í innri uppreisn þeirra í eigin borgarstjórnarflokki og bræðravígum í beinni útsendingu. En tilveran er gædd ríkri kímnigáfu og þeir uppskáru ekki annað en að leiða Samfylkinguna til forystu í borginni.

Hin nýja miðjustjórn nýtur víðtæks stuðnings og hefur gríðarstóran meirihluta á þingi. Áhyggjuefni er hve stjórnarandstaðan er veikburða, bæði sögulega og þá sérstaklega nú. Þrátt fyrir að vera fáliðaðri en nokkru sinni fyrr, finnur hún sér ekkert betra að gera en berjast innbyrðis. Þannig skamma framsóknarmenn Frjálsynda flokkinn, Frjálslyndir skamma VG sem svo aftur skamma Framsókn þegar þeir eru ekki að skamma Frjálslynda flokkinn. Á meðan skortir ríkisstjórnina eðlilegt aðhald.

Nóg að gera

En þó allt gangi ljómandi vel eru verkefnin næg. Mikilvægar kjara- og mannréttindabætur hafa náðst fyrir lífeyrishafa en mikilvægt er að fleiri skref verði stigin í átt til aukins jöfnuðar. Og þá ekki síst fyrir lág- og meðaltekjufólk og barnafjölskyldur. Það geysar 6% verðbólga í landinu, auk hæstu raunvaxta í heimi, og því er mikilvægt að ríkisstjórnin sé enn betur á verði, m.a. í komandi kjarasamningum. Óvissuástand á mörkuðum kallar á að allir sýni aðhald og vekur áhyggjur um stöðu ungs fólks sem ráðist hefur í íbúðakaup á yfirspenntum markaði, í háum vöxtum og verðbólgu. Mest væri auðvitað um vert ef framsækin öfl í stjórnarflokkunum gætu stigið einhver skref í átt til Evrópu og þá einkanlega evrunnar. Í viðsjám á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er erfitt að finna trúverðugleika þess að ætla að halda áfram úti minnstu flotmynt í heimi, sem hoppar og skoppar sem kunnugt er. Almenningur og fyrirtæki þurfa stöðugra umhverfi og vaxtastig líkt og í samkeppnislöndunum. Við þurfum að lækka vöruverð, auka framboð og samkeppni innanlands og efla útflutning. Upptaka evrunnar myndi auðvelda það, þó að hún leysi ekki skammtíma vanda okkar. Og þó nýtt ár verði ekki ár evrunnar er óskandi að við hefjum raunverulega umræðu um þá brýnu almannahagsmuni sem í þeim leiðangri felast.

Pistillinn birtist í 24 stundum 29.12.2007