Örlítið meira lýðræði, takk

blog

Stjórnarkreppan í Reykjavíkurborg er engan endi að taka. Hægri
glundroðinn er svo gagnger að í kjölfar klofnings F-listans gefa
borgarfulltúar Sjálfstæðisflokksins út skýrslu með minnihlutanum um
framgöngu eigin oddvita og um að borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins í
Reykjavík hafi skort pólitískt, siðferðilegt og lagalegt umboð til
stórra og óvenjulegra ákvarðanna!

Sú veika borgarstjórn sem þetta afhjúpar er afleiðing af umboðsskorti
og skorti á lýðræði. Frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hætti sem
borgarstjóri í Reykjavík hefur enginn borgarstjóri haft atkvæði
meirihluta borgarbúa og með svo takmarkað umboð hafa þeir komið og
farið hver á fætur öðrum. Því forsendan fyrir sterkum borgarstjóra í
Reykjavík er beint umboð frá borgarbúum. Við þetta bætist að meirihluti
Framsóknar og Sjálfstæðisflokks var byggður á minnihluta atkvæða
borgarbúa og völd Framsóknar í því samstarfi langt umfram það sem
þeirra lýðræðislega umboð fól í sér.

Nú er svo kominn borgarstjóri sem enginn myndi kjósa og meirihluti sem
lítill hluti borgarbúa styður. Og þessi meirihluti er myndaður um tvö
mál sem kjósendur höfðu ekki hugmynd um að stærsti stjórnmálaflokkurinn
í Reykjavík myndi setja á oddinn eftir kosningar, þ.e. friðun Laugavegar 4 og 6 og votlendisins í Vatnsmýri.

Þó Reykjavíkurlistinn hafi gengið sér til húðar var það rétt sem lagt
var upp með. Nauðsyn þess að Reykvíkingar hefðu skýra valkosti og kysu
meirihluta og borgarstjóra beint í kosningum en þyrftu ekki að sitja
uppi með niðurstöður úr vafasömu baktjaldamakki eftir kosningar. Á
þarsíðasta kjörtímabili settum við líka ákvæði um að íbúar gætu krafist
atkvæðagreiðslu um stórframkvæmdir og gerðum ýmsar tilraunir með beint
lýðræði. Þeirri þróun er mikilvægt að halda áfram og augljóslega
nauðsynlegt að borgarbúar geti knúið fram kosningar ef meirihlutinn
bregst algjörlega trausti.

Íhaldssamari en Norðmenn

Sumir segja að lýðræði okkar sé enn að slíta barnsskónum, enda Ísland
ungt lýðveldi og við til þessa ekki véfengt umboð sterka borgarstjórans
fremur en kóngsins áður, heldur bara hlýtt hans ráðstöfunum. Það er
ekki bundið við borgarmálin heldur á það ekki síður við í landsmálum.
Það er ótrúlegt að í sextíu ára sögu lýðveldisins hafi þjóðin aldrei
nokkru sinni knúið fram eða fengið að taka sjálf ákvörðun um eitt
einasta atriði er máli skipti. Aldrei. Og hvaða rugl er það? Hefur á
heilum mannsaldri ekkert það álitamál verið uppi á Íslandi að
almenningur ætti að taka afstöðu til þess fremur en ríkisstjórnin?

Í vikunni fengum við sem fyrr fréttir af því að árið 2006 hefði
matvöruverð enn verið tveimur þriðjuhlutum hærra á Íslandi en að
meðaltali í Evrópu. Við vitum að svipað á við um marga aðra vöru s.s.
lyf, barnavörur og ýmsar nauðsynjar fyrir alþýðu manna. Þetta er
auðvitað sérstaklega íþyngjandi fyrir venjulegt fólk með lágar og
meðaltekjur og þá ekki síst barnafjölskyldur. Miklu alvarlegri eru þó
þau erfiðu skilyrði sem hið séríslenska vaxtaokur skapar almenningi og
venjulegum fyrirtækjum. En stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 10% hærri
en evrópska bankans.

Af þessum ástæðum og ýmsum öðrum, ekki síst menningarlegum, hafa æ
fleiri hallast að því að við eigum að bindast bandalagi við aðrar
evrópskar þjóðir og sækjast eftir þeim vöru- og vaxtakjörum sem þar
tíðkast og efla evrópsk menningaráhrif á Íslandi um leið.

Aldrei hefur þjóðin staðið frammi fyrir stærri ákvörðun en þessari.
Alþingi hefur enga burði til að taka á málinu. Umræðan sem þarf að fara
fram verður ekki fyrr en við tökum afstöðu til aðildar. En ennþá árið
2008 bíðum við og frestum ákvörðunum og ólíkt nær öllum þjóðum í Evrópu
höfum við ekki tekið afstöðu til Evrópusamvinnunar. Jafnvel Norðmenn
hafa ekki sjaldnar en tvívegis gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um
stefnu sína í málinu. Við aldrei. Ekki fyrr en við neyðumst til þess og
höfum glatað allri samningsstöðu. Svolítið eins og sveitamaðurinn sem
aldrei skal flytja á mölina nema nauðbeygður.

Pistillinn birtist í 24 Stundum 9. febrúar