Jafnaðarstjórn og mannréttindasigrar

blog

Sá trúnaður sem kjósendur sýndu okkur í Samfylkingunni sl. vor var af ýmsum ástæðum og væntingar jafn fjölbreytilegar og stuðningsfólkið var margt. Þar réði þó miklu hjá stórum hópi sú stefnubreyting flokksins í umhverfismálum sem varð við útgáfu hins „Fagra Íslands“ Samfylkingarinnar. Þó var það langsamlega stærsti hópurinn sem lagði höfuðáherslu á mikilvægi þess að fá að landsstjórninni flokk sem legði höfuðáherslu á að auka jöfnuð í samfélaginu. Lykillinn að velgengni okkar í farsælu stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn verður því augljóslega að vel takist að uppfylla væntingar um aukinn jöfnuð.

Stórt skref

Nú ræðst jöfnuður ekki af ríkisstjórninni einni en hún þarf sannarlega ekki að kvarta undan framlagi atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar í þeim kjarasamningum sem nú hafa náðst. Þar á bæ hafa menn líka skynjað þá þungu kröfu frá fólkinu í landinu að eftir launaskrið og kaupréttarsamninga síðustu ára þurfi að rétta hlut venjulegs fólks. Og forysta SA og ASÍ hefur með eftirtektarverðum hætti gert það að aðalatriði samninga, þó auðvitað megi alltaf um það deila hvort nógu langt sé gengið.

Í upphafi viðræðna kynnti verkalýðshreyfingin áherslur sínar í skattamálum. Þær voru ótvírætt hugsaðar með hag lág- og meðaltekjufólks að leiðarljósi en sættu nokkurri gagnrýni á þeim forsendum að þær flæktu skattkerfið og ykju svokölluð jaðaráhrif. Auðvitað olli það ákveðnum vonbrigðum að ríkisstjórnin var ekki tilbúin til viðræðna þá en lýsti sig reiðubúna til að gera það síðar í ferlinu. Allt hefur sinn tíma.

Það samkomulag um skattalækkanir sem náðist í lok kjarasamninganna milli ríkisstjórnar, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar er til fyrirmyndar og áherslurnar mjög ánægjulegar þó auðvitað megi alltaf gera betur. Þar er í fyrsta lagi verið að verja lang mestu fé til að hækka persónuafslátt sérstaklega á næstu þremur árum. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun lengi og því hafa tekjulægstu hóparnir í vaxandi mæli verið að greiða skatta. Þetta á ekki bara við um launafólk heldur líka aldraða og öryrkja. Með því að hækka persónuafsláttinn er verið að tryggja venjulegu fólki sömu krónutölu í skattalækkunum og öðrum, án þess þó að flækja skattkerfið og því ber að fagna.

Þá er ekki síður ánægjulegt að verið er að hækka umtalsvert skerðingarmörk bæði í barnabótakerfinu og í vaxtabótakerfinu, þannig að fleiri njóti þeirra. Í skýrslu sem við kölluðum eftir fyrir tveimur árum kom fram að á Íslandi eru umtalsvert fleiri börn sem alast upp við fátækt en á hinum Norðurlöndunum, þó við stöndum sem betur fer vel gagnvart öðrum þjóðum. Af henni sést að frændur okkar á Norðurlöndunum skiptu tekjum ekki jafnar milli barnafjölskyldna, en skatta- og bótakerfi þeirra hjálpuðu fleiri barnafjölskyldum yfir lágtekjumörkin. Með því að leggja áherslu á barna-, húsaleigu- og vaxtabætur eigum við að geta gert svipaða hluti, þó við samningana nú sé bara stigið lítið skref í þessu. Þá eru fleiri jákvæðir þættir í skattalækkununum, m.a. lækkun til fyrirtækja, afnám stimpilgjalda að hluta og hvatning til ungs fólks um sparnað.

Kjaramál eru mannréttindamál

Fyrr í vetur voru kynnt mikilvæg skref í kjaramálum aldraðra og öryrkja sem Jóhanna Sigurðardóttir, félags og tryggingamálaráðherra, hefur verið að útfæra. Þar er að finna kjarabætur sem eru hrein og klár mannréttindamál eins og afnám tenginga við tekjur maka. Þar með lýkur mannréttindabaráttu um að hver manneskja sé sjálfstæður einstaklingur sem staðið hefur í á annan áratug. Þar eru líka stigin veigamikil skref í að hvetja lífeyrisþega til atvinnuþátttöku og hætta að refsa fólki fyrir að bjarga sér.

Þegar allt þetta er lagt saman held ég að óhætt sé að fullyrða að á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar hafi náðst mikilvægir áfangar í átt til þess að auka jöfnuð. En kjörtímabil er fjögur ár og betur má ef duga skal.