Aðgerða er þörf

blog

Í dag á baráttudegi verkalýðsins er ánægjulegt að minnast þess að nýfrjálshyggjunni hefur í vetur verið útrýmt úr íslensku samfélagi. Það þurfti ekki annað til en örlítið gæfi á bátinn í efnahagsmálum til að allt frjálshyggjukvakið viki fyrir áköllum um að ríkið komi strax öllu til bjargar. Kaffihúsaspekingar sem fyrir nokkrum misserum töldu stjórnmálamenn óþarfa eiga nú ekki orð yfir því að pólitíkusarnir beiti ekki valdi sínu af meiri hörku. Svona er nú skoðanahringekjan skemmtileg og frítt um borð fyrir alla. Afhjúpar auðvitað að þessi viðhorf byggðust á lífsreynsluskorti fyrst og fremst og hverfa því einsog dögg fyrir sólu þegar alvara lífsins blasir við.

Þegar á bjátar verður nefnilega svo augljóst, ekki síst í litlu samfélagi einsog okkar, að við erum öll á sama báti. Við köllum það meira að segja „Þjóðarskútuna“ því hvað sem öllu hjali líður erum við á hvers annars ábyrgð og þörfnumst samfélagslegra aðgerða til að halda sjó. Og nú mæna menn á forsætisráðherrann og bíða þeirra aðgerða sem boðaðar hafa verið.

Mikilvægast er auðvitað efling gjaldeyrisvarasjóðs sem legið hefur fyrir í nokkra mánuði að verður efldur. Það er skiljanlegt að ýmsa lengi eftir því en um leið einnig það sjónarmið að rétt sé að bíða betri kjara á lánum en buðust í vetur. Áhættuálag á bankana hefur farið hratt lækkandi sem skapar betri skilyrði fyrir lántökur. Efling verðlagseftirlits og virkt samráð við verkalýðshreyfingu og vinnuveitendur er líka mikilvægt þegar verðbólga geysar til að ná megi henni hratt niður. Mótvægisaðgerðir til að auka framkvæmdir hins opinbera á samdráttartímum eru líka mikilvægar, sem og aðgerðir í húsnæðismálum. Ábyrgðarlaus árás Seðlabankans á fasteignamarkaðinn vekur áhyggjur um óhóflegan samdrátt sem mæta þurfi. Vaxtalækkun Íbúðalánasjóðs nýlega var góðs viti og afnám stimpilgjalda og fleiri úrræði eru ríkinu nærtæk.

En um leið og aðgerða er þörf er yfirvegun nauðsynleg og mikilvægt að muna að þótt tímabundið hægi á eru undirstöður lífskjara í landinu traustar.

Birtist í 24 stundum 1. maí sl.