Frumvarpsdrög um stjórnlagaþing

blog

Lifandi og skemmtileg umræða hefur verið í kjölfar bankahrunsins um lýðræði og stjórnskipan. Þar hafa fjölmargir tekið þátt, má m.a. nefna Njörð P. Njarðvík o.fl. Hugmyndir um grundvallarbreytingar í stjórnskipaninni, einkum aðskilnað valdþátta og eflingu löggjafarvalds gagnvart framkvæmdavaldi eru ekki nýjar af nálinni en Vilmundur Gylfason heitinn fjallaði m.a. um nauðsyn þeirra svo eftir var tekið. Ég lét vinna frumvarpsdrög um stjórnlagaþing sem byggði á þeim þingmálum jafnaðarmanna sem áður hafa verið flutt undir forystu fyrst Stefáns Benediktssonar og síðar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Framsóknarflokkurinn hefur með eftirtektarverðum hætti gert stjórnlagaþing að stefnumáli sínu. Heiðursmaðurinn Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra, mun hafa leitt starfshóp um málið sem lagði tillögu fyrir flokksþing þeirra á dögunum og í framhaldi af því kynnti flokkurinn frumvarp um efnið nýlega. Þó margir séu sammála um stjórnlagaþing hefur umræða um útfærslu þess verið takmörkuð og ég birti því hér til gamans frumvarpsdrögin sem ég lét vinna. Þau verða ekki lögð fram úr þessu enda höfðu framsóknarmenn þau áhrif að slíkt frumvarp verður eitt af helstu áherslumálum þingsins fram að kosningum. Gaman væri að fá pósta með hugleiðingum um efnið því það er ekkert eitt rétt um útfærsluna. Þingið getur verið fámennt eða fjölmennt, staðið lengi eða stutt o.s.frv. Ég tel m.a. sterklega koma til greina að það sé skipað að jöfnu konum og körlum því þó kynjakvótar eigi ekki að vera í alþingiskosningum held ég að öðru gegni á stjórnlagaþingi sem setja á grundvallarreglurnar í samfélaginu.

Þröstur Freyr Gylfason var mér til halds og trausts við gerð frumvarpsdraganna en Þorkell Helgason, starfsmaður Alþingis, á heiðurinn að útfærslu kosningarinnar sem er vægiskosning í anda hugmynda sem átt hafa vaxandi fylgi að fagna í lýðræðisfræðum, en sumum kann að þykja óþarflega flókin.

Við þurfum klárlega nýja stjórnarskrá, eflingu þingsins og þó ekki síst beins lýðræðis. Ég er þó ekki viss um að við eigum að kalla það nýtt lýðveldi, því lengst af lýðveldistímanum áttum við þeirrar gæfu að fagna að búa á fjölmörgum sviðum í sterku og góðu samfélagi.

Þegar drögin voru samin hafði enn ekki verið tekin ákvörðun um að ganga til kosninga og því er í drögunum gert ráð fyrir að Alþingi þurfi að fjalla um niðurstöðu stjórnlagaþingsins. Nú þegar ljóst er að kosningar verða er miklu eðlilegara að breyta stjórnarskrá þannig að stjórnlagaþingið geti lagt niðurstöðu sína beint í þjóðaratkvæðagreiðslu.