Um málþóf

blog

Nokkrar umræður urðu á þingi í gær um málþóf sjálfstæðismanna. Ég birti hér ræðu mína sem ég flutti í umræðum um störf þingsins:

Virðulegur forseti. Það fer best á því í ræðustóli Alþingis að tala um hlutina eins og þeir eru. Auðvitað var þetta málþóf í gærkvöldi og það vita allir. Og auðvitað hafa þingmenn ákveðinn rétt til málþófs. En ég held þó að við alþingismenn þurfum að hugsa um þá sérstöku tíma sem við lifum á, um þær sérstöku skyldur sem á okkar herðum eru. Hér liggur fyrir mikill fjöldi brýnna mála sem á okkur hvílir sú skylda að tryggja greiðan og góðan framgang.

Það er sjálfsögð og rétt ábending hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að mikilvægt er að ræða efnahagsmálin, enda var það gert í gær. Mörg góð efnahagsmál hafa komið fram hjá ríkisstjórninni og sem betur fer eru nú farnar að berast jákvæðar fréttir af íslenskum efnahagsmálum út í hinn stóra heim, m.a. vegna breytinga í Seðlabankanum, þótt við verðum enn fyrir áföllum eins og hruns Straums–Burðaráss.
Það er hins vegar sérkennileg afneitun Sjálfstæðisflokksins að hér megi ekki ræða stjórnskipunarmál eða stjórnlagaþing. Það er afneitun flokksins á því að hrunið í haust var ekki bara fjármálahrun. Það var hrun stjórnkerfisins. Það var hrun þess stjórnkerfis sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði byggt hér upp síðastliðin 17 ár og er þess vegna ekki nema von að þeir afneiti þeirri staðreynd að það er jafnmikilvægt að gera breytingar í stjórnkerfismálum og í efnahagsmálum og ekki síst að tryggja í stjórnarskrá eign þjóðarinnar á auðlindum. Nú er staða okkar sú að við erum skuldsett gríðarlega erlendis og erlendir aðilar eru farnir að líta til þeirra auðlinda sem við eigum, til auðlinda í orku og auðlinda í fiski. Það er því ekki síður brýnt að tryggja til allrar framtíðar að íslensk þjóð eigi þær auðlindir sem í landinu eru og í kringum landið finnast, að þær hverfi ekki í skuldahítina okkar í útlöndum.