Sex ár liðin frá innrásinni í Írak

blog

Í dag, 20. mars, eru liðin sex ár frá innrásinni í Írak. Stuðningur Íslands við innrásina, sem var ákvörðun tveggja manna, var veittur í algjörri óþökk yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Slíkt má aldrei henda aftur og því miður er ekki enn að finna ákvæði í stjórnarskránni sem hindrar slíkan gjörning. Ég lagði fram frumvarp þess efnis á síðasta kjörtímabili ásamt samflokksmönnum mínum í Samfylkingunni.

Þetta ákvæði mun ekki ná inn í þær stjórnarskrárbreytingar sem nú eru til umræðu í þinginu en mikilvægt er að það verði hluti endurskoðaðar stjórnarskrár. Höfundar stjórnarskrárinnar hafa ekki haft hugmyndaflug til að setja sérstök ákvæði um hvernig taka ætti ákvörðun um aðild Íslands að stríði. Ákvörðun tveggja manna fyrir sex árum, fyrir hönd heillar þjóðar, staðfestir því miður þörfina á slíku ákvæði. Aldrei aftur Írak.