Vissu ekki um greinargerðina

blog

GREINARGERÐ Gríms Björnssonar, jarðeðlisfræðings, um Kárahnjúkavirkjun hefur vakið töluverða athygli að undanförnu, sérstaklega þar sem komið hefur í ljós að hún var merkt sem trúnaðarskjal þegar fjallað var um virkjunina á Alþingi – og var ekki tekin fyrir í umræðunni. Grímur sendi orkumálastjóra skýrslu sína í febrúar árið 2002 en hún var ekki gerð opinber fyrr en í janúar 2003 þegar Orkustofnun sendi náttúruverndarsamtökum og fjölmiðlum upplýsingarnar.

 

Eins og fram hefur komið hafði stjórn Landsvirkjunar ekki upplýsingar um greinargerðina þegar málið var til umfjöllunar á Alþingi og segir Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sem sat í stjórn Landsvirkjunar á þeim tíma, að stjórnarmeðlimum hafi ekki verið kunnugt um greinargerðina fyrr en í nóvember árið 2002.

 

Þá hafði Helgi spurnir af því að fundað hafði verið um greinargerðina hjá Landsvirkjun með fulltrúum Orkustofnunar. Í kjölfarið óskaði hann eftir upplýsingum um fundinn og þau gögn sem honum tengdust. „Ég fékk þau gögn í lok nóvember en engin fundargerð hafði verið færð á fundinum. Ég gerði grein fyrir því á næsta stjórnarfundi Landsvirkjunar í desember að ég hefði spurst fyrir um fundinn og gerði athugasemdir við að ekki hefði verið gerð fundargerð,“ segir Helgi en nokkrum vikum síðar var greinargerðin send fjölmiðlum og varð hún hluti af opinberri umfjöllun.

 

Helgi sem sat í stjórn Landsvirkjunar sem fulltrúi Reykjavíkurlistans, segir að til hans kasta hafi komið að taka afstöðu til raforkusamningsins við Alcoa en þar hafi hann greitt atkvæði gegn samningnum, m.a. vegna þess að um hafi verið að ræða of litla arðsemi miðað við áhættuna sem í verkinu er fólgin.

 

Gerði forystumönnum R-lista grein fyrir niðurstöðu sinni

 

Spurður um hvort hann hafi látið forystumenn R-listans skýrsluna í té segir Helgi svo ekki vera. „En ég gerði auðvitað grein fyrir því að það væri mín niðurstaða, eftir að hafa kynnt mér öll gögn málsins, bæði um arðsemi og um framkvæmdina sjálfa, að ekki væri rétt að ráðast í þessa framkvæmd. Sem fulltrúi borgarinnar í stjórn Landsvirkjunar greiddi ég því atkvæði gegn framkvæmdinni og þegar þar var komið voru upplýsingarnar þegar orðnar opinberar,“ segir Helgi Hjörvar.