Breytum Alþingi

blog

Þá eru jólin loks liðin og við alþingismenn komnir aftur til byggða. Í þetta sinn á þing að standa í tvo mánuði en eftir það verður hlé á þinghaldi í rúmlega 6 mánuði. Því valda auðvitað kosningarnar að hluta en það vekur líka athygli á fráleitum starfstíma Alþingis. Sagt er að fjórar góðar ástæður séu fyrir því að vera á þingi: júní, júlí, ágúst og september.

           

Þó starfar Alþingi í álíka margar klukkustundir á ári og þingin í nágrannalöndunum og afgreiðir jafn mörg mál.  Hér er það bara gert á miklu færri mánuðum, með handarbökunum í törnum og tímapressu í stað þess að vinna eins og fólk. Enda er ríkisstjórninni umhugað um að losna við þingið heim eins fljótt og hægt er á hverju ári svo hún geti haft sína hentisemi. Þegar ég lenti í fyrstu þingskorpunni fyrir þremur árum í fjárlaganefnd var maður að heiman meira og minna, en til að slá á samviskubitið sagði ég elstu stelpunni okkar að svo yrði jólaleyfi og var spurður hve langt það væri. Þegar ég svaraði að það væri fram í lok janúar spurði grunnskólabarnið hvenær við hættum í vor og þegar ég svaraði fyrri hluta maí gall í henni: Og eru þið þá í páskafríi þarna á milli! Bragð er að þá barnið finnur.

Málþóf og meirihlutaofbeldi

Þetta vitlausa verklag leiðir auðvitað af sér mistök við lagasetningu og skortur á samfellu í störfum þings bitnar á gæðum stefnumörkunar. Það leiðir líka til þess að ofbjóði minnihlutanum meirihlutaofbeldi getur hann með umfjöllun sinni um mál dregið mjög úr skilvirkni þingsins og jafnvel varnað stöku máli framgöngu.

           

Með þróaðri þjóðum eru oft skorður við þessum möguleikum, þannig að ræðutími er takmarkaður. Enda augljóslega tóm vitleysa að tala í fimm tíma um eitt mál. En hjá nágrönnum okkar er þetta líka unnt vegna þess að meirihluti á hverjum tíma reynir í stórum málum að skapa sem víðtækasta samstöðu og er tilbúinn til málamiðlana í þessu skyni. En hér er hefðin fremur sú að naumur meirihluti reynir að keyra sitt fram hvað sem tautar og raular og lætur sig lítt varða um fulltrúa tæplega helmings kjósenda. Slíkt gagnkvæmt ofbeldi getur svo endað í vondum lagafrumvörpum og löngum umræðum á Alþingi sem enginn skilur neitt í.

Úrelt þing

Starfstími Alþingis heyrir til liðinni öld. Það gerir líka virðingarleysi fyrir sjónarmiðum minnihlutans og næturlangar neftóbaksræður. Þessu verður að breyta en til þess að um það geti tekist samstaða þarf ekki bara breytt viðhorf við gerð stjórnarfrumvarpa heldur þarf að sýna þingmönnum þá lágmarksvirðingu að mál þeirra komist til afgreiðslu.

           

Í dag hefur ríkisstjórnin þingið nefnilega í rassvasanum því þingmál þingmanna, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, komast aldrei til atkvæðagreiðslu í þinginu heldur er bara vísað til nefnda og svæfð þar. Þannig kemst ríkisstjórnarmeirihlutinn hjá því að þurfa að taka málefnalega afstöðu til tillagna þingmanna. Þetta fráleita ofbeldi verður til þess að þingmenn vita að tillögur þeirra munu aldrei koma til afgreiðslu og því lítil hvatning fyrir þá að verja tíma í framgang eigin tillagna. Hlutskipti okkar er þess í stað miklu fremur að ræða stjórnarfrumvörpin. Og kannski einhverjum þyki ekkert að því þó stjórnarfrumvörp fái ekki afgreiðslu þegar þeirra eigin frumvörp hafa aldrei komist til atkvæða.

Það er aðkallandi verkefni þeirra sem veljast á Alþingi í vor að breyta þinginu til nútímahorfs í vinnutíma, vinnubrögðum og virðingu meirihluta og minnihluta hvorra fyrir öðrum. Enda verður virðing þingsins aldrei meiri en virðing þingmanna hvers fyrir öðrum.

(Þessi grein birtist í Blaðinu 20.01.2007)