Vaxandi ójöfnuður

blog

Engum blöðum er um það að fletta að ein helsta ástæða þess að kjósendur höfnuðu áframhaldandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var óánægja með vaxandi ójöfnuð og kjör hinna verst settu. Um það vitnar pólitísk umræða undanfarinna ára og margháttaðar upplýsingar sem staðfest hafa það.

Það var þess vegna mjög mikilvægt fyrir nýja ríkisstjórn að leggja strax í stjórnarsáttmálanum áherslu á bætt kjör lífeyrishafa, sem sannarlega var ekki vanþörf á. Enn betra var að því skyldi fylgt eftir með jafn myndarlegum hætti og raun ber vitni strax í fyrstu fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar. Og það eru ekki aðeins fjármunirnir sem þar skipta máli heldur líka brýn mannréttindamál, eins og afnám tenginga við tekjur maka og aukið frelsi til sjálfsbjargar. Báðir stjórnarflokkarnir lögðu áherslu á kjör lífeyrisþega í kosningabaráttunni og því mikilvægt fyrir trúverðugleika þeirra að láta verkin sýna merkin, þó þetta séu auðvitað bara fyrstu skrefin.

Kjarasamningar

En það er miklu fleira fólk en lífeyrishafar sem býr við kröpp kjör og þarf að rétta sinn hlut. Það kemur auðvitað glöggt fram þessa daga í tengslum við kjarasamninga. Bæði lágtekju- og meðaltekjufólk hefur þurft að horfa uppá vaxandi tekjumun og breytingar á skattkerfi hafa miðað að því að létta sköttum af hátekjufólki og eignamönnum. Skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun sem leitt hefur til þess að fólk með mjög lágar tekjur greiðir talsvert í skatta. Þá dró bæði úr vaxta- og barnabótum á síðustu kjörtímabilum. Á þetta höfum við í Samfylkingunni  lagt áherslu í okkar málflutningi.

Í stjórnarsáttmálanum hafa flokkarnir náð saman um að stefnt skuli að skattalækkunum á kjörtímabilinu, en það mun auðvitað að miklu leyti ráðast af því svigrúmi sem verður í ríkisfjármálum til þess. Sérstaklega er þar vísað m.a. til hækkunar persónuafsláttar og aukinna barnabóta til hinna tekjulægstu, o.fl. Það verður spennandi að sjá hve mikið svigrúm við munum hafa til að fylgja þessum viljayfirlýsingum eftir og hvernig til tekst almennt.

Barnabæturnar eru hér ekki síst mikilvægar því í skýrslu sem ég kallaði eftir frá forsætisráðherra árið 2006, kom fram að um fimm þúsund börn ælust upp á heimilum sem væru undir fátæktarmörkum. Þetta kom okkur mörgum á óvart og ég held að það sé þverpólitísk samstaða um að huga þurfi sérstaklega að þessum hópi. Það athyglisverða í skýrslu forsætisráðherra var að á hinum Norðurlöndunum var ekki mikill munur á stöðu fátækra barnafjölskylda fyrir skatta. En þegar skattar og bætur voru teknar með tókst hinum Norðurlöndunum að draga mun meira úr fátækt barna en okkur, svo munaði allt að helmingi. þannig eigum við augljóslega sóknarfæri í skatta- og bótakerfinu að þessu leyti.

Tillögur ASÍ

Eins og kunnugt er hefur ASÍ sett fram tillögur um skattalækkanir fyrir meðal- og lágtekjufólk. Þær miða að því að mæta einmitt þeim hópum sem við í Samfylkingunni höfum lagt áherslu á og eru allrar athygli verðar. Tillagan er um barnabætur og auka persónuafslátt fyrir lágtekjufólk uppá 20 þúsund á mánuði, sem muna myndi verulega um. Slík tillaga hefur þann kost að vegna þess að hún nær ekki til allra eins og almenni persónuafslátturinn, þá verður hún ekki eins dýr. Gallinn er hins vegar sá að það flækir skattkerfið, sem er umdeilt og því geta fylgt talsverð jaðaráhrif. Þó ekki hafi verið fallist á tillögurnar eins og þær voru fram settar, er það eftir sem áður brýnasta verkefnið næstu vikur að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Því þurfa að nást samningar um kjarabætur hinna lægst launuðu og auðvitað mun ríkisstjórnin vilja greiða fyrir því eins og kostur er.