Að njósna um heiðarlegt fólk

blog

„Það er grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi, að heiðarlegt fólk þurfi ekki að sæta símhlerunum vegna stjórnmálaskoðana sinna“. Með þessum orðum hóf ég utandagskrárumræðu við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á Alþingi í síðustu viku. Tilefnið var, að þá hafði verið birtur ýtarlegur listi yfir þau 32 heimili sem staðfest er að hleruð hafi verið af stjórnmálaástæðum á árunum fram til 1968. Eftirtektarvert var að fylgjast með umræðunni á þinginu og í fjölmiðlum undanfarna daga.

Sex sinnum er staðfest að hlerað hafi verið hjá hópi fólks í hvert sinn. Aðeins einu sinni er vísað til beiðni lögreglu og ekki nema tvisvar til lagaákvæða. Enginn rökstuddur grunur er færður fram um saknæmt athæfi og engar ákærur hafa nokkru sinni verið gefnar út vegna einhvers sem fram kom við hleranirnar. Engin skjöl eru til um hleranirnar sjálfar, en þau að líkindum verið brennd í bensíntunnu 1976, eða látin hverfa við stofnun embættis ríkislögreglustjóra.

Stjórnarskráin, æðsta löggjöf okkar, kveður á um helg mannréttindi, m.a. friðhelgi einkalífsins. Ljóst er að freklega var brotið á þeim hleruðu, en nú of langt um liðið til að leita megi uppi einstaka sökudólga. Það þurfti líka marga til og hið alvarlega og varanlega er að íslenska ríkið braut á mannréttindum þegna sinna. Eðlilega hefur verið kallað eftir afsökunarbeiðni, eins og dæmi eru um, t.d. í Noregi eftir Lund skýrsluna.

Uppvakningar

Nú þykir langflestum auðvitað miður að ríkisvaldinu skuli hafa verið misbeitt og skilja að hinum hleruðu sé misboðið. Þó eru stöku uppvakningar frá dögum kalda stríðsins sem gripnir eru gamalkunnu ofstæki við að verja það sem óverjandi er. Þetta var þjóðhættulegt fólk og sagan hefur fellt sinn dóm, segja þeir. Þetta speglar hættulega hugsun, þá að heimilt sé að brjóta mannréttindi á fólki hafi það rangar skoðanir að mati yfirvalda. Réttarríkið var beinlínis grundvallað til að verja fólk gegn slíkum yfirvöldum.

Fyrir nú utan það, að það fólk sem barðist fyrir þjóðfrelsi og félagslegum réttindum hafði ekki rangt fyrir sér, en hinir rétt. Það er einmitt svo dæmigerð afstaða fyrir ofstæki og hroka kalda stríðsins sem á svo illa við öllu málefnalegri umræðu samtímans. Svo er þetta lítill bær og við vitum að þessi listi er yfir heiðarlegt fólk, margir friðar- og þjóðfrelsissinnar, sumir ákveðnir andkommúnistar og margir trúlega hleraðir fyrir að leggja lið sitt baráttunni gegn herforingjastjórninni í Grikklandi. Það er þess vegna hjákátlegt að reyna að snúa þessu upp í baráttu lýðræðis og einræðis, enda snýst málið um friðhelgi einkalífsins og ósköp venjubundna misbeitingu valds.

Framtíðin

Þótt sumir kjósi sér hlutskipti eftirlegurottunnar á ruslahaug sögunnar skulum við taka þessi mál með okkur inn í framtíðina. Við þurfum að ljúka þessari söguskoðun, kanna hvað gert var eftir 1991, hvort létta eigi þagnarskyldu af þeim sem störfuðu að þessu o.s.frv. Ekki til að vekja upp kalda stríðið, heldur til að læra af reynslunni. Þannig ákváðu Norðmenn í kjölfar sinnar skoðunar að stofna sérstaka þingnefnd til eftirlits með svona starfsemi. Sum nágrannalönd okkar hafa skipað réttargæslumenn fyrir þá sem hlera á hjá, lögum samkvæmt. Álíka aðgerða mætti e.t.v. grípa til hér til að tryggja sjálfsögðustu mannréttindi.

Því miður eru nýleg dæmi um að dómsmálayfirvöld fari offari í heitum pólitískum málum. Falun Gong var eitt skýrasta dæmið um það en samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis var þar farið út fyrir valdmörk við að verja kínverskan ráðamann fyrir lýðræðislegum mótmælum. Hleranir fyrri ára eiga þannig m.a. að verða okkur tilefni til að skýra og skerpa framkvæmd löggæslu og eftirlit með henni og senda skýr skilaboð til stjórnvalda morgundagsins um að aldrei megi stunda pólitískar njósnir.

Pistillinn birtist í 24 stundum 7. júní sl.