Sækist eftir 1. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík

Samfylkingin

Með bréfinu sem hér fer á eftir gerði ég völdum félögum í Samfylkingunni grein fyrir framboði mínu í 1. sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík þann 10. september næstkomandi:

Kæri félagi!

Kjör aldraðra og öryrkja, heilbrigðismálin og húsnæðismál ungu kynslóðarinnar verða kjarnamál í komandi kosningum. Þau eru jafnframt þungamiðjan í stjórnmálaþátttöku minni frá upphafi. Ég hef þess vegna ákveðið að sækjast eftir 1. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar sem fer fram nú fimmtudag til laugardags og leiða þannig annað kjördæmið í Reykjavík.

Ég þakka þann góða stuðning sem ég naut í formannskjöri í vor. Þó öðrum hafi verið falið það vandasama verkefni var mér heiður að hátt í þúsund flokksmenn skyldu vilja treysta mér fyrir því. Nú skiptir miklu að við stöndum öll að baki nýrri forystu því samstaða er lykill að árangri fyrir Samfylkinguna.

Samstaða okkar í stjórnarandstöðunni skapar sterka stöðu og sóknarfæri á nýju kjörtímabili. Hægri stjórnin hefur engum verulegum kerfisbreytingum náð fram og hrökklast nú frá að eigin ósk áður en kjörtímabilinu er lokið. Fjölmörg baráttumál okkar eru líka hugsjónamál annarra í stjórnarandstöðunni og flest sem bendir til að saman getum við náð meirihluta til að gera þau að veruleika.

Ég hef kosið að opna ekki prófkjörsskrifstofu, úthringiver eða annað þess háttar til að gefa nýju fólki svigrúm til að kynna sig og sjónarmið sín, því þó reynsla sé nauðsynleg er nýliðun það líka. Sjálfur bið ég um stuðning þinn til að leiða í fyrsta sinn framboð Samfylkingarinnar í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Ég heiti þér því að gera allt sem í mínu valdi stendur til að hér taki við stjórn landsins ríkisstjórn um jöfnuð og velferð með aðild okkar.

Bréf þetta sendi ég völdum hópi Samfylkingarfólks. Ég minni okkur á að ítrekað höfum við bætt við okkur á annan tug prósentustiga frá könnunum til kosninga. Aðeins tvö ár eru síðan 32% Reykvíkinga settu x við S. Það var fólkið í Samfylkingunni sem náði þeim árangri með samstilltu átaki.

Með baráttukveðju,

Helgi Hjörvar