Milljarðar á milljarða ofan

blog

Þessar vikurnar leik ég Mörð Árnason í morgunsjónvarpinu á fimmtudögum í fjarveru hins eina sanna og í gærmorgun ræddum við Pétur Blöndal m.a. um ofurlaun, réttinn til að mótmæla og agaleysið í ríkisfjármálunum. Eins og lesendur þessarar síðu þekkja höfum við ítrekað bent á heimildarlausar framúrkeyrslur ráðuneyta og stofnanna sem brjóta einfaldlega í bága við stjórnarskránna og góða venju í opinberum rekstri, enda þekkist svona háttalag ekki í löndunum í kringum okkur. Þetta agaleysi hefur líka leitt til þess að fjárlagagerðin er óvönduð og stofnanir taka ekki mark á heimildum sínum og fara ýmist framúr, eða nýta ekki heimildir til að ráðast í verkefni sem Alþingi hefur falið þeim.

Við sjáum líka pólitískar áherslur í því hvar er vanáætlað og hvar ofáætlað, því það eru velferðarmálin sem vanáætlað er í en menn hafa ekki undan að eyða heimildunum í verklegum framkvæmdum s.s. vegagerð.

Hvimleiðast er þó að sjá ár eftir ár sömu aðilana í framúrkeyrslum, því það sýnir virðingarleysi gagnvart skattpeningum almennings og að ráðherrarnir eru ekki að taka alvarlega stjórnskipunarlög og heimildir Alþingis. Það er óhjákvæmilegt að fjárlaganefndin grípi hér inní og leiðrétti tillögur ríkisstjórnar til fjárlaga mun meir en verið hefur og geri kröfu um að þeir ráðherrar sem ekki virða lögin axli ábyrgð. Öðruvísi mun þetta ráðslag bara versna og versna. Við fulltrúar Samfylkingar í fjárlaganefnd höfum farið fram á sérstakan aukafund í fjárlaganefnd vegna þessara mála og verður hann haldinn á mánudag. Ég fékk gerða samantekt um frávik frá heimildum sl. fimm ár og það má sjá hér. Þar sést svart á hvítu að þessi stjórn er búin að sitja allt of lengi.

Hljóðbækur á netinu

Sumarið hefur annars ýmist farið í byggingarframkvæmdir vegna ómegðarinnar eða ýmsa stefnumörkunarvinnu sem Ingibjörg Sólrún hefur haft forystu um í sumar. Í tíu daga fórum við svo með stelpurnar í íbúð foreldra minna á Vesterbrogötu í Kaupmannahöfn, en þaðan er jafn stutt að ganga í Dýragarðinn og Tívolí og það leiddist stelpunum okkar ekki. Þegar ég hef lausa stund hef ég mikla unun af því að hlusta á bækur og í sumar fékk ég stafrænt tæki, lítið stærra en greiðslukort sem hægt er að hlaða bókum inná af netinu og hlusta á. Þar fer hljóðbókum ört fjölgandi og t.d. geturðu farið á edda.is og náð í nýjustu bók Steinunnar Sigurðardóttur eða á audible.com og valið úr úrvali erlendra bóka. Ég hvet alla til að prófa hljóðbækur því þó við sem ekki sjáum til lestrar notum þær af nauðsyn þá geta sjáandi haft mikið yndi af að hlusta á góðar bækur í bílnum, baðinu, þvottahúsinu eða í göngutúrnum því þessi aðferð hentar uppteknu nútímafólki mjög vel bæði til þess að njóta bókmennta og eins sem athvarf úr önnum dagsins.

Sáttmáli í málefnum fatlaðra

Í rúman áratug hefur verið unnið ötullega að réttindabaráttu fatlaðra á vettvagni Sameinuðu þjóðanna. 1994 gerðist Bengt Lindkvist, sem ég kynntist í norrænu samstarfi blindra, umboðsmaður fatlaðra hjá SÞ og þá voru samþykktar meginreglur í málefnum fatlaðra sem þjóðir heims eiga að taka mið af. Bengt var þingmaður og ráðherra í Svíþjóð og í forystu sænsku blindrasamtakanna. Í framhaldi af þessari vinnu hefur síðan verið unnið að samningum um sáttmála í málefnum fatlaðra sem hefði þá sambærilegt gildi og aðrir sáttmálar og mun án efa tryggja fötluðum víða um lönd verulegar réttarbætur ef af verður. Mér gefst kostur á því að sækja það sem við vonumst til að verði síðasta samningalotan nú í lok mánaðarins og ætla að reyna að miðla upplýsingum um viðræðurnar hér á síðunni.