mars, 2015

Eru erlend epli eitruð?

blog

Það á að vera okkur öllum verulegt umhugsunarefni að leiðandi alþjóðafyrirtæki á borð við Apple telji Ísland ekki meðal helstu valkosta til byggingar og reksturs gagnavers. Á síðasta kjörtímabili rákumst við á miklar hindranir við uppbyggingu gagnavera sem selja þjónustu sína öðrum fyrirtækjum, sem fyrst og fremst má rekja til þess að Ísland er ekki í Evrópusambandinu. Sú staða landsins gerir það að verkum að fyrirtæki innan Evrópusambandsins  geta ekki dregið virðisaukaskatt frá skattgreiðslum sínum vegna þjónustukaupa hér á landi, enda erum við utan hins sameiginlega virðisaukaskattkerfis ESB. Til að reyna að gera fyrirtækjum engu að síður kleift að stunda þessa starfsemi við svipuð skilyrði og í Evrópusambandinu voru sett íslensk sérlög sem ESA úrskurðaði síðar ógild þar sem í þeim fælist ólögmæt ríkisaðstoð. Enn hefur því ekki tekist að skapa gagnaverum sem selja þriðja aðila þjónustu sambærilega stöðu og samkeppnisfyrirtækjum sem vaxið hafa hratt á undanförnum árum, t.d. í Svíþjóð og Finnlandi. Í tilfelli Apple er hins vegar um eigin rekstur að ræða og því hefði staða okkar utan Evrópusambandsins ekki átt að hindra að við værum samkeppnishæf um verkefnið.

Til þessa hafa þrír þættir þótt skipta miklu um staðarval slíkra verkefna. Í fyrsta lagi ívilnanir og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi, í öðru lagi aðgangur að hagkvæmri grænni orku og í þriðja lagi náttúruleg kæling. Danmörk er sem kunnugt er fátæk af þeim fjöllum sem helst skapa auðlindir í fallvötnum og jarðhita, þar er engum ívilnunum til að dreifa fyrir fjárfestingar af þessu tagi og ekki er náttúruleg kæling meiri þar en hér. Það hljóta því að vakna áleitnar spurningar sem lúta að stöðu Íslands að öðru leyti; svo sem smæð efnahagskerfisins, staða gjaldmiðilsins og stjórnmálaástandið. Þegar litið er til þess hve illa hefur gengið að fá erlenda fjárfestingu inn í landið og hina erfiðu stöðu sem gjaldeyrishöftin skapa skyldi maður ætla að stjórnvöld væru tilbúin til þess að greiða sem mest fyrir verkefnum af þessu tagi. Það gera forystumenn stærri þjóða með sterkari samkeppnisstöðu en við með markvissum hætti. Þess vegna sætir það furðu að forsætisráðherra skuli ekki hafa verið tilbúinn að leggja nokkuð á sig til að skýra og undirstrika jákvæða afstöðu Íslendinga og íslenskra stjórnvalda til svona stórs og mikilvægs verkefnis eins og gagnavers á vegum Apple, eða annarra sambærilegra. Eins og við vitum snýst ákvörðun ekki bara um viðkomandi fyrirtæki því ljóst er ef markaðsráðandi aðili velur ákveðna staðsetningu munu fjölmörg önnur fyrirtæki fylgja í kjölfar þess.

En kannski er það viðhorfið til erlendrar fjárfestingar sem er vandamálið en sem kunnugt er hefur forsætisráðherra líkt erlendri fjárfestingu við skuldsetningu og sagt að best sé að innlend fjárfesting fjármagni nýsköpunarverkefni. Það eru liðin sjö ár frá hruni og eina raunhæfa leiðin til að stuðla að pólitískum og efnahagslegum stöðugleika og tryggara rekstrarumhverfi er aðildarumsóknin að ESB. Með því að draga umsóknina til baka býður ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks því miður aðeins upp á hinn kostinn; atvinnustefnu og framtíðarsýn sem snýst fyrst og fremst um fisk, hráefnavinnslu í stóriðjuverum og áburðarverksmiðjur, er með öðrum orðum föst í 20. öldinni en horfir lítt til tækifæra ungra Íslendinga á hinni tuttugustu og fyrstu. Þess vegna þarf nýja forystu fyrir landið.