Maí, 2007

Stærsta útrásin

blog
Fótgöngulið Samfylkingarinnar hefur farið maður á mann síðustu þrjár vikur í því sem ég hef kallað Rósastríðið. Við höfum heimsótt nær 15 þúsund heimili í borginni og fært þeim rós og boðskap okkar jafnaðarmanna í kosningunum. Til þess að hitta svo marga heima fyrir þurfti að heimsækja um 30 þúsund heimili og er þetta stærsta útrás sem stjórnmálaflokkur hefur gert í Reykjavík og sýnir vel þann baráttuanda sem verið hefur í hópnum. Þar hefur ekki skipt minnstu máli að efstu frambjóðendur hafa verið óþreytandi í rósagöngum og síðustu vikuna hefur staðið meira á blómum en fólki því við höfum aðeins getað fengið um 1500 rósir á dag. Nú er svo komið að rauðu rósirnar klárast síðdegis og við verðum að ljúka herferðinni með því að gefa bleikar og appelsínugular!

Í þessum beinu samskiptum við kjósendur höfum við skynjað sterkt vaxandi stuðning við Samfylkinguna og nú verða allir að leggjast á eitt um að sú sókn okkar nái hámarki á morgun. Öflug Samfylking er einfaldlega forsenda breytinga í kosningunum og breytingar eru löngu tímabærar. Kannanir sýna að það getur oltið á örfáum atkvæðum hvort okkur tekst ætlunarverkið og því þurfa allir Samfylkingarmenn og konur að tala við sitt fólk og hvetja það til að kjósa og taka þátt í leiðangri okkar.

Í gærkvöldi fór ég m.a. um Marargötu og Túngötu með Árna Páli frambjóðanda okkur í Suðvestur en hann býr þar. Svona hafa framboðin á Suðvestur horninu unnið saman enda eru kjördæmamörkin hér löngu orðin óþörf og óskiljanleg – höfuðborgarsvæðið er bara eitt svæði. við Árni fengum góðar undirtektir enda er gamli Vesturbærinn ásamt með Fella- og Hólahverfinu sterkasta vígi okkar í Reykjavík. Árna fannst ég fara furðu fimlega upp og niður tröppur og var fljótur að segja mér að ég þættist nú bara sjá illa svo einhver kysi mig. Við vorum enn að hlæja að þessu þegar við gengum upp stíginn hjá nágranna Árna en það var verið að múra hann og ég steig auðvitað þéttingsfast á stóru leðurklossunum mínum, beint á kaf í blauta steypuna. Kannski ekki besta leiðin til að vinna hylli kjósenda en þessu var þó tekið af yfirvegun og sagt lítið mál að múra í fótsporið.

Það hefur verið ótrúlega gott og hollt fyrir okkur frambjóðendur að fara um borgina alla og hitta fólk á heimilum þess við ólíkar aðstæður. Þar kynnumst við með beinum hætti ólíkum kjörum fólks í borginni og fáum að heyra milliliðalaust hvað þarf að gera betur og hvað við ættum að gera betur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að sá jákvæði og góði andi sem einkennt hefur húsgönguna verður til þess að þær verði fastur liður í kosningastarfi okkar framvegis.