Merki: ‘Alþingi’

Athugasemd á þingi: Upp komast svik um síðir

Þingræða

Virðulegur forseti. Upp komast svik um síðir. Umboðsmaður Alþingis var á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun og upplýsti um að fram kynnu að vera komin gögn sem færðu okkur heim sanninn um það með hvaða hætti staðið var að aðkomu þýsks banka að einkavæðingu íslensku bankanna. Þegar fjárlaganefnd þingsins rannsakaði þetta fyrir um tíu árum síðan voru það þær upplýsingar sem helst skorti til að hægt væri að afhjúpa það svindl og svínarí sem þar var á ferðinni.

Það er þess vegna grundvallaratriði og mikilvægasta mál fyrir þingið til að afgreiða nú, ný löggjöf um rannsóknarnefndir og að skipa í kjölfarið rannsóknarnefnd til að fara yfir hvaða hlutverk Hauck & Aufhäuser bankinn þýski gegndi við einkavæðinguna. Það er auðvitað of snemmt að fullyrða um hvaða upplýsingar það eru eða til hvers þær munu leiða okkur. En við höfum mörg haldið því fram að ástæða sé til að ætla að þessi þýski einkabanki hafi ekki verið raunverulegur kaupandi að hlut í Búnaðarbankanum heldur hafi hann verið leppur fyrir íslenska aðila og að þessi erlenda fjárfesting sem svo var kölluRð og notuð til að réttlæta að menn gengu að tilboði þessa hóps í bankann hafi ekkert verið erlend fjárfesting heldur íslenskir peningar og jafnvel bara fengnir að láni úr sömu ríkisbönkum og verið var að afhenda þeim aðilum. Það er grundvallaratriði að kostað verði kapps um að upplýsa eins fljótt og verða má allan almenning í landinu um hvernig þessu var háttað og að sá sem fer í þá rannsókn fái alla fjármuni og starfsmenn sem hann þarf til að þær (Forseti hringir.) upplýsingar megi liggja hér á borðum landsmanna sem allra fyrst því að þarna er kjarnann í samsærinu um einkavæðingu bankanna að finna.


Ræða í umræðum um störf þingsins 24. maí 2016

Umræður á þingi: Verða kosningar í haust?

Þingræða

Í tíma fyrir óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi 23. maí 2016 tók ég umræðu við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, um hvort ætlunin væri að efna fyrirheit um þingkosningar í haust. Tilefni fyrirspurnarinnar voru óvæntar yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins. Öll umræðan er hér en texti með mínu framlagi til hennar er hér að neðan:

Fyrri ræðan:

Virðulegur forseti. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa ítrekað gefið út um það yfirlýsingar að gengið verði til kosninga í haust. Síðari hluti októbermánaðar hefur þar verið nefndur, en nú spyr ég: Má treysta því að þær yfirlýsingar standi? Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að formaður Framsóknarflokksins, sem nýkominn er úr leyfi, gaf út opinberar yfirlýsingar um það í gær að ekki væri nauðsynlegt að ganga til kosninga í haust. Nú hafa þær yfirlýsingar bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra verið nokkuð afdráttarlausar. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að þetta kjörtímabil verði stytt um eitt þing og meðan formaður Framsóknarflokksins var í leyfi hefur hér verið afgreitt stærsta húsnæðismálið, sem var mál sem brann mjög á Framsóknarflokknum að þyrfti að ljúka. Í gær lukum við aflandskrónumálinu sem fjármálaráðherra hafði lagt ríka áherslu á.

Ég spyr þess vegna hvort við megum ekki treysta því að sú starfsáætlun sem lögð hefur verið og þau áform að efna til kosninga í haust standist. Það er mikilvægt fyrir starfið í þinginu en það er líka mikilvægt fyrir lýðræðislegt starf utan þingsins og undirbúning flokka, bæði sem eru á þingi og eru utan þings, um framboð og aðra slíka hluti og nauðsynlegt er að hæstv. fjármálaráðherra taki af öll tvímæli um hvaða fyrirætlanir eru uppi.

(meira…)

Stefnuræða forsætisráðherra

Uncategorized

Forsætisráðherra flutti í gær stefnuræðu sína við upphaf 143. löggjafarþings. Ég tók þátt í umræðunum og læt ræðu mína fylgja hér:

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. „Til hamingju Ísland“, gæti stefnuræða hæstv. forsætisráðherra heitið þetta árið eins og framlag annars fulltrúa sem við kusum hér um árið á öðru sviði þjóðlífsins. Um ræðuna má segja að það er ekkert nema gott og fallegt að hafa trú á landinu sínu en við Íslendingar þurfum að gæta þess að hrópa ekki Ísland best í heimi, því að við höfum svo nýlega lært að ofmetnaður er falli næst.

Þegar hæstv. forsætisráðherra segir það beinlínis ákjósanlegt að búa langt frá öðrum löndum með skýr landamæri, ein þjóð með sambærileg gildi, þá minnir alþjóðasinnaður jafnaðarmaður á að enginn maður er eyland, einhlítur sjálfum sér, að sérhver maður er brot af meginlandinu og hluti veraldarinnar. Einangrunarstefnan mun aldrei skila okkur Íslendingum öðru en höftum, fábreytni og fákeppni. En um það erum við forsætisráðherra sannarlega sammála að gríðarlegur árangur hefur náðst á síðustu árum þó að ég ætti ekki von á því að þurfa að segja um aukinn kaupmátt, atvinnusókn og hagvöxt: Hægan, hægan, hæstv. forsætisráðherra, við skiluðum ekki alveg svona góðu búi.

Við höfum ekki náð svona langt. Það er enn þá mikið verk að vinna. Við þurfum innspýtingar við. Við megum ekki við því að afþakka erlenda fjárfestingu. Við megum ekki við því að skapa óvissu um stóra þætti í efnahag okkar, fá lækkun á lánshæfismati okkar sem dregur úr líkum á nýjum fjárfestingum í landinu því að við þurfum innspýtingar við.

Virðulegur forseti. Sannarlega átti ég aldrei von á því að horfa á formann Framsóknarflokksins skera niður hægri vinstri hvert framkvæmda- og atvinnuskapandi verkefnið af öðru sem fráfarandi ríkisstjórn kom á. Eins og honum þyki að hún hafi verið allt of framkvæmdasinnuð og atvinnuskapandi. Nei, en það er tilefni til að vera bjartsýn. Eftir fjögur ár í þrotlausum skattahækkunum og niðurskurði er núllinu loksins náð. Svigrúm í ríkisfjármálum hefur fólkið í landinu skapað með fórnum sínum og nú er í fyrsta skipti kosta völ. Við gátum valið að halda veiðigjaldinu áfram og þá hefði engan niðurskurð þurft í velferðarþjónustu. Það sárgrætilega er að þegar við höfum náð þessum mikilvæga áfanga í ríkisfjármálunum er valið vitlaust.

Það er ekki bara hörð hægri pólitík. Það er líka vond efnahagspólitík. Einhvern tíma sagði formaður Framsóknarflokksins að maður sparaði sig ekki út úr kreppu, en Framsóknarflokkurinn verður að ráða sínum næturstað.

Hvað sem kann að líða deilum okkar í þinginu hvet ég þó til þess að við á Alþingi tökum saman höndum, þvert á flokka, og leiðréttum þau augljósu mistök sem ríkisstjórnin hefur gert í málefnum Landspítalans. Við skulum bara kalla það misskilning, við skulum ekki hafa uppi neinn umkenningaleik. Nú þegar svigrúm hefur loksins skapast í ríkisfjármálum skulum við saman setjast niður og leita tekna til að efla spítalann án þess að það leiði til halla á fjárlögum. Það er til þess ætlast, nú þegar svigrúm hefur skapast í ríkisfjármálum, að við lyftum saman Landspítalanum því að hann er dauðans alvara.

Ég bið líka um stuðning við þingmál sem hv. þm. Kristján Möller mun fara fyrir af okkar hálfu í Samfylkingunni um byggingu nýs Landspítala.

Virðulegur forseti. Það er sannast sagna algjörlega ófært að forsætisráðherra standi í veginum fyrir því að ráðist sé í þær skynsamlegu framkvæmdir sem geta aukið atvinnustigið, sem eru mikilvægt innlegg í að auka framkvæmdir, sem bæta starfsaðstöðu heilbrigðisstétta og aðstöðu sjúklinga og auka hagkvæmni í rekstri spítalans og framleiðni í landinu.

Ég bið um að hér fái skynsemin að ráða, að í þessum sal, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekkert samráð haft, átti stjórnarmeirihlutinn sig á því að það er samstarf og samvinna okkar hér sem er líklegust til að skila okkur árangri, auka eindrægni í samfélaginu og traust á Alþingi.