Merki: ‘vextir’

Áskorunin

Blaðagreinar

Kerfið afneitar orsökum hrunsins og er á fullri ferð við að endurreisa sama fjármálakerfi og féll. Það er sami veiki gjaldmiðillinn, sama vonda verðtryggingin, sömu okurvextirnir og bráðum líka myntkörfulánin, sama fákeppni á bankamarkaði sem nú á aftur að einkavæða. Vaxandi spilling og þenslumerkin eru hvarvetna. Sama stýrivaxtapólitík heldur uppi óhóflegum kostnaði fyrirtækja og heimila og laðar erlenda spákaupmenn aftur til landsins. Grátbrosleg fullkomnun yrði svo ef sömu hóparnir eignuðust sömu bankana aftur.

Þessi þróun er í anda þeirra sem telja að við höfum bara orðið fórnarlömb alþjóðlegrar kreppu, hér hefði allt reddast ef ekki væru útlöndin. Eftir því sem frá líður eflast líka þau gríðarlegu sérhagsmunaöfl sem hafa tryggt sér hæsta raunvaxtastig í okkar heimshluta og vilja það kerfi áfram óbreytt.

Pólitísk forysta
Ekki voru gerðar nægilegar breytingar í kjölfar hrunsins og það dugar ekki að bíða eftir evrunni með þær.

Þangað til við fáum alvöru gjaldmiðil þurfum við pólitíska forystu um að breyta kerfinu. Vextir eru hér of háir enda fjármálakerfið of dýrt. Brjóta þarf upp fákeppni á bankamarkaði, aðgreina fjárfestingar og viðskiptabanka og kveðja séríslenskar lausnir eins og verðtryggingu neytendalána.

Ræða þarf raunvaxtakröfuna og skapa aðrar og viðráðanlegri húsnæðislausnir fyrir ungt fólk, setja skorður við þjónustugjöldum banka, tryggja dreift eignarhald o.s.frv.

Breytingar á bankakerfinu eru nefnilega stærsta verkefni stjórnmálanna hér á landi, því þó Íslandi vegni blessunarlega vel geta ytri skilyrði breyst hratt og kreppur koma aftur og aftur.

En þetta er líka stærsta áskorun heimsins því reglurnar núna auka sífellt og sjálfkrafa ójöfnuð og sóun, fyrir fáránlega auðsöfnun örfárra.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. febrúar sl.

Vaxtakjör á láni Norðurlandanna

Uncategorized

Ég hef í dag beint fyrirspurn norrænu ríkisstjórnanna um vaxtakjör á láni Norðurlandanna til Íslands.

Vaxtakjörin á láninu til Íslands eru 3 mánaða EURIBOR vextir að viðbættu 2,75 prósentu álagi. Danmörk og Svíþjóð gerðu bæði tvíhliða lánasamninga við Írland þar sem vaxtakjörin eru 3 mánaða EURIBOR vextir að viðbættu 1 prósentu álagi.

Ég spyr ríkisstjórnirnar hvers vegna Íslandi bjóðist lakari vaxtakjör en Írlandi og hvort þær hyggist endurskoða vaxtakjörin á láni Íslands, sérstaklega í ljósi þess að skuldatryggingarálag Íslands sé lægra en Írlands.

Málið verður rætt á þingi Norðurlandaráðs, sem haldið verður í Finnlandi um mánaðamótin.

Hér má lesa fyrirspurnina, sem er lögð fram á sænsku. Smella hér

Krónan eins og Berlínarmúrinn

blog

Helgi Hjörvar hefur staðið ströngu síðustu daga en mánudaginn var brugðið það neyðarráð að herða hér gjaldeyrishöftin margumtöluðu til að stoppa glufur sem fjárfestar hafa verið að nýta sér að mati Seðlabankans. Mikið hefur verið um þetta fjallað fjölmiðlum vikunni og Viðskiptablaðinu dag er ítarlega fjallað um áhrif þessara aðgerða. Það sem hins vegar kom nokkuð óvart þessu er að Helgi skyldi hafa talað fyrir málinu Alþingi, þar sem raun er um að ræða frumvarp sem unnið er af efnahags- og viðskiptaráðuneytinu samstarfi við Seðlabankann. Blaðamaður þykist vita að Helgi sé grunninn móti höftunum en sem formaður efnahagsog viðskiptanefndar var honum falið að vera forsvari fyrir málið þinginu síðdegis mánudag.

„ Höft eru óskemmtileg en meðan þau eru er mikilvægt að fast og ákveðið sé tekið á sniðgöngu. Þegar tekið tillit til stærðar þrotabúa gömlu bankanna í okkar litla efnahagslífi er líka óvarlegt annað en að hafa þá innan haftanna. Þess vegna var eðlilegt að grípa til þessara ráðstafana þótt það sé ekki óskastaða. Óraunsæjar væntingar um hratt afnám hafta er að tefja fyrir úrvinnslu verkefnisins. Þær valda því að eigendur aflandskróna taka ekki nægilega virkan þátt í útboðum Seðlabankans. Það er mikilvægt að aðilar á markaði horfi raunæjum augum á að höftum á aflandskrónur verður ekki létt á næstu misserum,“ segir Helgi.

Þegar Helgi er spurður frekar um gjaldmiðlamál segir hann að eitt af skrýtnu umræðumálunum dag sé umræðan um hina sjálfstæðu krónu, sem síðan kemur daginn að sé alls ekki sjálfstæð.

„ Þjóð í höftum er ekki sjálfstæð þjóð. Það er ekkert sjálfstætt við gjaldmiðla þar sem við höfum þurft að banna útlendingum að fara með peningana sína úr landi,“ segir Helgi. „Þetta er fullkomlega óþolandi staða fyrir þjóðríki. Við þurfum hins vegar að leysa þennan aflandskrónu vanda yfir lengra tímabil en núgildandi lög gera ráð fyrir. Ég held að við þurfum að ræða alvarlega breytta nálgun á þessu. Fyrir utan það sem Seðlabankinn hefur lagt til málanna þá eru tillögur Viðskiptaráðs á þessu sviði bestu tillögurnar sem ég hef séð.“

Helgi segir að mikilvægt sé að vandi aflandskrónueigenda sé ekki samfélagsvæddur í þessu samhengi og að lengri tíma þurfi fyrir þá til að fá úrlausn sinna mála þó reynt sé að opna fólki og fyrirtækjum leið til þess að eiga frjáls viðskipti á milli landa.

„Það virðist vera að lífeyrissjóðunum hafi ekki boðist nægilega góð kjör á eignum hérlendis til að þeir sjái ástæðu til að koma með fjármagnið sitt heim,“ segir Helgi. „Þeirra mat verður að gilda í því og það er varhugavert að krefjast þess að þeir komi heim með þessa peninga á þeim forsendum að við þurfum að losna úr höftum en ekki bara á viðskiptalegum forsendum og frjálsum samningum.“

 

Krónan hindrar frjáls viðskipti

En svo að við höldum okkur við gjaldmiðlamálin. Það er tvísýnt með vilja þjóðarinnar til að ganga í Evrópusambandið (ESB) en hvernig sem það fer er langt í að við tökum upp evru. Á meðan sitjum við uppi með krónu í gjaldeyrishöftum. Hvernig ætla menn að leysa þetta?

„Ég hef líkt krónunni við Berlínarmúrinn. Þegar það er róstursamt á erlendum mörkuðum eins og verið hefur undanfarið, þá er skjólgott á bakvið múrinn og margir finna skjól í höftunum,“ segir Helgi. „En líkt og með Berlínarmúrinn þá koma höftin í veg fyrir frjálsa verslun og frjáls viðskipti. Við vitum að grundvöllurinn fyrir litlar þjóðir til að vera sjálfstæðar er verslunar- og viðskiptafrelsi.“

Þá segir Helgi að á meðan Íslendingar styðjist við krónuna þurfi að gera ákveðnar breytingar. Til dæmis þurfi að finna leiðir út úr verðtryggingaráhrifum og sjálfvirkum kerfisbreytingum hennar.

„Menn semja um 5% kauphækkun í kjarasamningum, síðan kemur í ljós að það er ekki innistæða fyrir þeim hækkunum og fyrirtækin velta því út í verðlagið,“ segir Helgi. „Þá kemur ríkið og ríkisfyrirtæki og hækka gjaldskrár af því að verðlag er að hækkaog loks bitnar þetta á heimilunum vegna verðbólgunnar og hækkunar lána sem skapast í kjölfarið. Þessa hringrás þarf að stöðva.“

Þá segir Helgi að mesta ógnin í hagkerfinu sé að núverandi verðbólga verði viðvarandi. Enginn einn aðili í hagkerfinu geti tekist á við þann vanda.

„Þess vegna þurfum við að ná fram meiri samstöðu. Það er áhyggjuefni að lykilaðilar í hagstjórninni eru allir að toga vagninn í sitt hvora áttina. Best væri ef allir næðu saman um átak í þessum efnum líkt og menn gerðu í þjóðarsáttinni árið 1990,“ segir Helgi.

Helgi segist þó vera bjartsýnn á að hægt sé að taka upp evruna fyrr en búast mátti við.

„Í aðildarsamningum Íslands þarf ESB að bjóða upp á tvennt; annars vegar full yfirráð yfir auðlindum okkar og hins vegar lausn á gjaldeyrisvanda þjóðarinnar sem er einstæður í Evrópu,“ segir Helgi. „Það er mjög mikilvægt að leysa úr honum hratt og vel, því gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir að fjórfrelsið sé ríkjandi á EES svæðinu. Það hlýtur því að vera sama forgangsverkefni fyrir Brussel eins og okkur, að eyða óeðlilegum viðskiptahindrunum. Ég er því bjartsýnn á að við komumst inn í myntsamstarfið EMR II mjög hratt. Helsta ástæðan fyrir því að ganga inn í sambandið er að við losnum út úr þessum gjaldmiðli sem hvorki hefur skilað okkur stöðugleika né hæfilegu vaxtastigi. Ég hef von um að það gæti gerst á þremur mánuðum eftir að ákvörðun liggur fyrir, þá jafnvel um mitt næsta kjörtímabil. Þá værum við að tala um stöðugan og haftalausan gjaldmiðil hérna innan nokkurra ára“

Nú hefur verið nokkuð fjallað um mögulega upptöku Kanadadollars í samstarfi við Kanadamenn og vísbendingar verið uppi um að þeir séu jákvæðir fyrir viðræðum um slíkt. Ber okkur ekki skylda að kanna það?

„Á ögurstundum þjóðar er mönnum skylt að kanna alla þá möguleika sem eru í boði. Þess vegna vil ég klára aðildarviðræður að ESB sem fyrst,“ segir Helgi. „En ég er líka tilbúinn til að skoða aðra möguleika, það er allt skárra en íslenska krónan. Ein helsta ástæða þess að við þurfum að losna við krónuna er til að fella niður viðskiptahindranir. Þess vegna væri því eðlilegast að taka upp þann gjaldmiðil sem við eigum mest viðskipti í. Það er einnig líklegra að hagsveifla okkar fylgi helstu viðskiptalöndum en alls óskyldu efnahagskerfi. En það má skoða allt. Það væri hrokafull afstaða að segja nei við hugmyndum fyrirfram “

 

Skortur á samstöðu

Samtalið snýst í kjölfarið í aðstæðurnar í pólitíkinni í dag. Blaðamaður spyr hvort Helgi telji að núverandi þingmeirihluti sé að ná þeim markmiðum sem lagt var upp með?

„Þessi meirihluti getur státað af því að hafa náð mikilvægum árangri á ýmsum sviðum, sérstaklega í ríkisfjármálum og í því að lenda ýmsum erfiðum málum. Það hefur hann þó ekki gert einn, fólkið og fyrirtækin í landinu hafa líka lagt mikið af mörkum,“ segir Helgi. „Það er áhyggjuefni að okkur sem störfum í pólitík er ekki að takast að skapa nógu breiða samstöðu um það sem er verið að gera. Við þurfum skilja með einhverjum hætti við það sem að baki er og ná saman um framtíðarsýn sem að nýtur meirihlutastuðnings fólks almennt. Það er of algengt að andstæðar fylkingar skipi sér í sitthvorar herbúðir með ítrustu kröfur á báða bóga í stað þess að leggja sín sjónarmið á borðið og reyna að tala sig inn á sameiginlega niðurstöðu. Hér er hefð fyrir því að nýta sér nauman meirihluta til hins ítrasta.

En væri ekki ráð að auka samstöðuna í þinginu í ljósi þess hve meirihlutinn er tæpur?

„Kosturinn við svona veika stöðu stjórnarmeirihlutans – því það er varla hægt að tala um að hann sé með þingmeirihluta á bakvið sig – er að hann hefur þurft að ræða við þingið og leita eftir samstarfi, hvort sem er sína þinghópa eða stjórnarandstöðuna,“ segir Helgi. „Það þarf að gera í miklu ríkari mæli heldur en við höfum verið að gera. Það er ekki til mikils að ná fram einhverjum skammtímasigrum á einu kjörtímabili sem ganga síðan til baka á því næsta af því að það eru ólíkar fylkingar að berjast um völdin. Við komumst ekkert áfram með því. Ég held að við séum sannarlega komin þangað í tímanum eftir hrun að við þurfum á því að halda að horfa fram á við.“

Þú og fleiri aðilar talið svona en aðgerðir ykkar og orðræða er allt önnur. Forsætisráðherra heldur vart ræðu án þess að úthúða stjórnarandstöðunni eða aðilum úr atvinnulífinu. Það er því eðlilegt að spyrja, hafið þið mikinn áhuga á samstarfi við stjórnarandstöðuna eða atvinnulífið?

„Ég upplifi þetta nú ekki þannig en ég tel að hún líti svo á að hún hafi þurft að svara ákveðnum sjónarmiðum,“ segir Helgi. „En vissulega er það vandamál hvernig forystan í atvinnulífinu og stjórnvöld tala saman. Það á að vera okkur stjórnmálamönnum og forystumönnum atvinnulífsins alvarlegt áhyggjuefni ef við getum ekki skipst málefnalega á skoðunum á grundvelli gagnkvæmrar virðingar. Það eru gild sjónarmið sem lúta að breytingum á atvinnulífinu sem þessi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á og á skilið málefnalega umfjöllun. Að sama skapi hefur margt gott komið frá atvinnulífinu sem er vel þess virði að fara yfir og bregðast við.“

Helgi segir mikilvægt að ná fram sátt um skilyrði þeirra atvinnugreina sem byggja á auðlindum landsins.

„Við teljum að þær greinar, þá sérstaklega sjávarútvegurinn, séu ekki að skila jafn miklu og rétt væri. Að auðlindarentan sé ekki að skila sér til almennings. Þar þarf að verða breyting á,“ segir Helgi. „Það hefur ekki heldur náðst samstaða um það hvernig rétt sé að haga auðlindanýtingu almennt og fyrir vikið ríkir óhófleg tortryggni í garð erlendrar fjárfestingar. Það er vandamál fyrir okkur því við þurfum á erlendri fjárfestingu að halda. Ég held að Íslendingar séu hvorki á móti útlendingum eða erlendu fjármagni í sjálfu sér. En ástæðan fyrir þessum viðbrögðum er að öllum líkindum sú að fólk hefur áhyggjur af því að ekki sé búið að tryggja eign almennings á auðlindunum með lögum og að um það ríki breið pólitísk samstaða þannig að fólk geti verið rólegt yfir því að útlendingar komi hingað og fjárfesti í atvinnulífinu. Fólk þurfi ekki að vera andvaka yfir því að einhverjir erlendir auðmenn hafi eignast auðlindirnar okkar.“

 

Ríkið dragi sig út úr Íslandsbanka og Arion

Sem fyrr segir er Helgi formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Blaðamaður spyr mjög opið að því hvernig hann sjái fyrir sér næstu árin í efnahags- og viðskiptalífinu hér á landi?

„Ég held að þetta „námskeið“ sem við höfum verið á eigi eftir að verða til þess að við getum byggt upp sterkara efnahags- og atvinnulíf en við vorum með,“ segir Helgi. „Við þurfum þó að gera breytingar á fjármálakerfinu, það þurfa t.d. að vera skýrari skil á milli fjárfestingabanka- og viðskiptabankastarfsemi hvernig sem útfærslan á þeim verður. Við þurfum líka að setja takmörk á eignarhaldi í bönkunum, líkt og Norðmenn hafa gert, og koma í leið í veg fyrir það að eigendur bankanna geti valsað um þá eins og þeir gerðu. Ég tel líka að ríkið eigi að draga sig út úr Arion banka og Íslandsbanka eins fljótt og hægt er. Það er mikilvægt að þeir komist í hendur sinna eigenda og ég tel að það fari ekki vel að ríkið sé minnihlutaeigandi í einkabankarekstri.“

Aðspurður hvort ekki sé rétt að ríkið losi sig við Landsbankann líka, eða hvort að hann komi til með að vera í eigu ríkisins til lengri tíma, segir Helgi að það sé flóknara mál.

„Ég var þeirrar skoðunar að ríkið ætti að draga sig út úr einkabankarekstri. Niðurstaðan af því var ekki mjög farsæl fyrir efnahags- og atvinnulífið hér á landi,“ segir Helgi.

En er ríkisábyrgðin ekki stóra vandamálið, væri ekki nær að lýsa því yfir fyrirfram að ríkið taki aldrei ábyrgð á bönkum?

„Vandinn er auðvitað sá að ólíkt því sem getur gerst um sumar aðrar atvinnugreinar, þá held ég að það sé ekki bjóðandi fyrir sjálfstætt ríki að hér séu engir bankar. Það kallar á það að ríkið tryggi það með einhverjum hætti,“ segir Helgi. „Best væri ef við getum sett upp það umhverfi að ríkið væri ekki á þessum markaði en ég held að við séum ekki komin þangað. Það væri hins vegar mikill fengur að því, ef að þess væri nokkur kostur, að erlend fjármálafyrirtæki hefðu áhuga á því að starfa á þessum markaði hér á landi.“

En fyrst við erum að ræða bankana í samhengi við efnahags- og viðskiptanefnd. Nú hafa fjármálafyrirtækin fengið heimild til að samhæfa aðgerðir vegna gengisdómsins sem féll um daginn. Ætlar þingið að taka einhverja afstöðu eða forystu í þessu máli?

„Þingið tók forystu í þessu árið 2010 og reynslan af því er ekki góð,“ segir Helgi. „Það stendur til að lengja málshöfðunarfrest þannig að þeir sem þurfa að sækja rétt sinn geti gert það. Það eru nokkuð hundruð mál í dómskerfinu sem tengjast gengismálum. Hugað hefur verið að því hvort hlýta eigi öllum málum sem tengjast gengisdómnum en þá er vissulega hætta á því að þau flækist hvert fyrir öðru. Það þarf einhvern veginn að reyna að finna þau mál sem vega þyngst og flýta fyrir dómsniðurstöðu í þeim. Þetta ferli getur tekið nokkra mánuði en ég held að það liggi þegar fyrir talsvert skýr fordæmisgildi gagnvart þeim einstaklingum sem hafa staðið í skilum. Stóru ágreiningsmálin snúa líklega fyrst og fremst að fyrirtækjum og bönkum en ekki einstaklingum. Það á líka eftir að finna út úr mörgum málum, t.d. hvað varðar þau fyrirtæki sem eru búin að fara í gegnum endurskipulagningu skulda og svo frv.“

 

Samfylkingin þarfnast breytinga fyrir kosningar

Í viðtali við áramótatímarit Viðskiptablaðsins lét Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, þau orð falla að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og núverandi formaður Samfylkingarinnar, þyrfti að víkja sem formaður fyrir næstu kosningar og hleypa yngri aðilum að. Blaðamaður ber þessi orð undir Helga og minnir að nú, tæpum þremur mánuðum seinna, hafi enn enginn staðið upp og mótmælt þessum orðum Össurar. Helga má sjá að spurningin er óþægileg og hann hikar mjög áður en hann svarar.

„Ég held að Jóhanna muni sjálf ráða miklu um það hvenær hún hættir,“ segir Helgi segir hann og velur svar sitt vandlega. „Hún hefur tekist á við alla þá erfiðleika sem hafa steðjað að á þessu kjörtímabili og þarf væntanlega að gera það upp við sig hvernig hún ætlar að skila því verkefni af sér, hvort hún haldi því hlutverki áfram sjálf eða feli einhverjum öðrum það.“

Þú hlýtur að hafa skoðun á því hvað hún á að gera, skýtur blaðamaður inn í.

„Í þeirri stöðu sem að við í Samfylkingunni erum í núna þá er augljóst að hjá okkur þurfa að verða umtalsverðar breytingar fyrir næstu kosningar. En það snýst meira um stefnuáherslur heldur en einstaka persónur,“ segir Helgi. „Jóhanna hefur skilað þessu erfiða verki mjög vel, en við höfum augljóslega tapað tiltrú hluta af okkar kjósendum. Af því að Samfylkingin er draumur um stóran norrænan jafnaðarmarmannaflokk þarf hún að bregðast við núverandi stöðu. Flokkurinn þarf að leggja meiri áherslu á atvinnulífið og eins skuldamál ungu kynslóðarinnar, þ.e. því fólks sem var að kaupa sér íbúðir á árunum fyrir hraun. Sú kynslóð þarf að upplifa meiri sanngirni í því hvernig komið er til móts við hana. Þetta er eitthvað sem Samfylkingin þarf að huga vel að á þessu síðasta ári kjörtímabilsins.“

Þá segir Helgi að hann telji að Samfylkingin hafi ekki skilað því nógu vel í ákvörðunum sínum og töluðum orðum að líkt og aðrir jafnaðarmannaflokkar hafi flokkurinn trú á markaðnum og frjálsum viðskiptum. Þetta tvennt sé drifkrafturinn að því að skapa hagvöxt og lífsgæði.

„Ástæðan fyrir því að það hefur tekist að skapa þau góðu lífskjör sem eru á Norðurlöndunum er sú að þeir hafa með mjög einbeittum hætti skapað samkeppnishæft atvinnulíf,“ segir Helgi. „Það er einfaldlega best fyrir velferðarsamfélagið að eiga öflugt atvinnulíf og fyrir atvinnulífið að eiga öflugt velferðarsamfélag. Áhersluna á atvinnulífið þurfum við að halda betur til haga. Við urðum að taka ákvarðanir um það að hækka ýmsa skatta og gjöld vegna þess að ríkissjóður var um tíma rekinn með 500 milljóna króna tapi á dag. Ég held að ýmsir hafi upplifað sem eitthvert hugsjónarlegt markmið okkar, að auka skatta og álögur, en því fer þó fjarri.“

 

 (viðtal sem birtist í Viðskiptablaðinu 15. mars 2012)