september, 2012

Löngu tímabær gæludýravegabréf

Uncategorized

Á síðasta þingi lögðum við greinarhöfundar fram öðru sinni frumvarp á Alþingi þess efnis að tekin yrðu upp gæludýravegabréf í stað þess að dýrin þurfi að dvelja í einangrunarstöð í fjórar vikur eftir komuna til landsins. Slíkt verklag er viðhaft í löndum Evrópusambandsins og gerir hundaeigendum kleift að ferðast óhindrað með hunda sína milli landa ESB, að uppfylltum skilyrðum um bólusetningar. Við teljum löngu tímabært að slíkt skref verði stigið á Íslandi enda hefur reynslan af þessu fyrirkomulagi verið góð. 

Afar strangar reglur hafa gilt um innflutning dýra til landsins og ekki að ástæðulausu. Hins vegar er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að tækniframfarir hafa stórbætt gæði bólusetninga, sníkjudýralyfja og mælinga á blóðsýnum. Þá er óvíða í heiminum hugað betur að eftirliti, skráningu og heilbrigði gæludýra en hérlendis. Við teljum því að með upptöku gæludýravegabréfa og öflugu eftirliti sé ekki verið að veikja sjúkdómavarnir landsins. Gerð verður krafa um að heilbrigðis- og upprunavottorð fylgi dýrum sem staðfesti nauðsynlegar bólusetningar. Dýrin verða merkt með sérstakri örflögu sem er tengd við vegabréfið og allar upplýsingar þannig skráðar rafrænt. Þar að auki gerir fyrrnefnt frumvarp ráð fyrir því að hundar sem koma frá löndum þar sem hundaæði fyrirfinnst þurfi áður en þeir koma til landsins að hafa verið bólusettir og það staðfest með blóðsýnatöku að dýrið hafi myndað mótefni gegn hundaæði.

Um síðustu áramót var fyrirkomulagi innflutnings gæludýra til Bretlands breytt, þannig að þar gilda nú sömu reglur og í öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Þar var í lok 19. aldar komið á reglum um sex mánaða einangrun fyrir hunda. Árið 2000 var fallið frá þeim ströngu kröfum ef um var að ræða dýr sem kom frá landi innan ESB og krafa um bólusetningu gegn hundaæði uppfyllt. Breytingarnar síðustu áramót þýða að nú er nóg að hundur hafi verið bólusettur gegn hundaæði og er þá heimilt að ferðast með dýrið eftir 21 dags bið. Í aðdraganda þessara breytinga var unnin skýrsla fyrir bresk stjórnvöld þar sem hættan á að hundaæði bærist til Bretlands var metin. Niðurstöðurnar voru þær að búast mætti við einu tilfelli á hverjar 9,8 milljónir innfluttra dýra eða einu tilfelli á hverjum 211 árum. Miðað við reglurnar sem giltu áður mætti búast við einu tilfelli á hverjar 617 milljónir innfluttra dýra eða eitt tilfelli á hverjum 13.272 árum. Þar sem ákvæði frumvarps okkar gera ráð fyrir fyrirkomulagi líku því sem gilti í Bretlandi fyrir breytingarnar, má slá því föstu að hættan á að hundaæði berist til Íslands sé afar hverfandi.

Hér er um mikið réttlætismál að ræða fyrir alla hundaeigendur en núgildandi lög og reglur koma t.a.m. í veg fyrir að þeir sem njóta aðstoðar hjálparhunda geti ferðast óhindrað til og frá Íslandi. Þá hefur íslenska rústabjörgunarsveitin ekki getað farið með sérþjálfaða leitarhunda sína á hamfarasvæði þar sem dvöl í einangrunarstöð hefði mikil áhrif á þjálfun þeirra. Fjölmargir hundaeigendur hafa haft samband frá því að frumvarpið var lagt fram og spurt hvenær þetta geti orðið að lögum. Í mörgum tilvikum er um að ræða Íslendinga sem búa erlendis og huga að flutningum heim til Íslands og eru jafnvel vanir því að geta ferðast með hunda sína allt frá strönd Miðjarðarhafs til Norðurlandanna. Fyrir þessa hundaeigendur sem og fjölskyldur sem vilja taka hundinn með í frí erlendis sparar afnám einangrunar líka töluverðar fjárhæðir en dvöl í einangrunarstöð getur kostað um og yfir 200 þúsund krónur. Þetta er einnig mikið hagsmunamál fyrir innflytjendur hunda en núverandi fyrirkomulag takmarkar mjög möguleika á innflutningi þar sem einangrunarstöðvarnar taka aðeins við dýrum nokkra daga í mánuði.

Nú hafa frumvörp um gæludýravegabréf dagað uppi inn í þingnefnd í tvígang. Það er nauðsynlegt að færa þessa umræðu upp á hærra plan en verið hefur en gamaldags hræðsluáróður hefur einkennt málflutning ýmissa andstæðinga málsins. Má í því sambandi benda á áhættugreiningu vegna innflutnings hunda sem unnin var 2002 og vísað hefur verið til. Þar eru aðeins bornar saman tvær leiðir; annars vegar óbreytt ástand með tilheyrandi einangrun og hins vegar alls engar sjúkdómavarnir. Þar er að finna upptalningu á sjúkdómum sem gætu borist til landsins ef engar varnaðaraðgerðir væru viðhafðar. Sé horft framhjá þeim sjúkdómum sem berast til landsins þrátt fyrir fjögurra vikna einangrun sitja eftir sjúkdómar sem ýmist má fyrirbyggja með bólusetningum eða meðferðum við sníkjudýrum. Það er því nauðsynlegt að ráðst í gerð nýs áhættumats þar sem skoðaðir verða raunverulegir valkostir. Í þessum efnum þurfum við Íslendingar að verða samferða nágrönnum okkar í Evrópu inn í 21. öldina.

Þessi grein sem ég skrifaði með Magnúsi Orra Schram og Ólínu Þorvarðardóttur birtist í Sámi, tímariti Hundaræktarfélags Íslands.