október, 2014

5% lækkun skulda og 5% hækkun matar

Blaðagreinar

Nú er hafinn meistaramánuðurinn þar sem skila á skuldsettum heimilum heimsmeti í skuldaleiðréttingu. Heimsmetið er að vísu orðið meira að mús en meistara því 20% leiðréttingin er orðin 5%, 300 milljarðarnir að 72 og forsendubresturinn orðinn 250 þúsund á heimili á ári í fjögur ár, en ekki milljónirnar sem lofað var.

En auðvitað munar um 72 milljarða. Það verður þó að hafa í huga að skv. frétt Hagstofunnar jókst eigið fé heimilanna frá 2010-2013 um 638 milljarða og þótti ekki nóg. Þá verður að hafa í huga að á móti þeim 20 milljörðum sem veita á í leiðréttinguna á ári er búið að minnka vaxtabætur á móti frá 2011 um meira en helming þeirrar fjárhæðar eða 13 milljarða á ári.

Hér við bætist að ríkisstjórnin ætlar að hækka virðisaukaskatt á mat um 5 prósentustig við sama tækifæri. Matur er svipaður útgjaldaliður og húsnæði hjá flestu fólki eða um tæpur fimmtungur. Þeir vona að vísu að afnám sykurskatts dragi úr verðhækkunum svo þær verði „aðeins“ tæp 3 prósentustig en því miður  höfum við reynslu af því að lækkanir skila sér illa á móti hækkunum.

Heimsmeistaramánuður í sviknum loforðum

Áætlanir um persónulegan meistaramánuð í október fela í sér ýmis markmið til að bæta árangurinn. Margir einsetja sér að temja sér heilsusamlegt líferni og jákvæða hugsun. Vonandi gengur fólki betur að efna heit sín í mánuðinum en ríkisstjórninni. Enda verður það að teljast heimsmeistaramánuður í sviknum loforðum ef heimilin eiga að greiða sjálf fyrir útvatnaða skuldaleiðréttingu með skerðingu vaxtabóta og hækkunum á mat.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. október sl.