nóvember, 2010

Grænn hagvöxtur – leiðin út úr kreppunni

blog

Á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík á morgun fjalla norrænu forsætisráðherrarnir um spurninguna „Grænn hagvöxtur – leiðin út úr kreppunni?“ Málefnið snertir okkur öll, þar sem grænn hagvöxtur veitir okkur tækifæri til að hætta notkun jarðefnaeldsneytis og skapa ný störf í grænu hagkerfi. Norðurlöndin eru framarlega í notkun endurnýjanlegrar orku og þróun umhverfistækni. Hvernig tryggjum við að þau verði það einnig í framtíðinni?

Norræn tækifæri

Áhugaverður markaður fyrir græna tækni er nú að verða til. Reiknað hefur verið út að alþjóðamarkaður fyrir græna tækni sé um 6.000 milljarðar sænskra króna og árlegur vöxtur hans 6-14%. Kínverjar verða sennilega stærstir og fremstir í framleiðslu og notkun umhverfistækni, þó ekki endilega á sviði umhverfiseinkaleyfa og nýsköpunar. Norðurlöndin, hins vegar, eru í sterkri stöðu á sviði umhverfistækni og aðstæður þar eru hagstæðar fyrir grænan hagvöxt.

Danir eru fremstir á sviði vindorku, Íslendingar á sviði jarðvarma, Svíar og Finnar á sviði lífefnaorku og Noregur og Svíþjóð á sviði fallorku. Þessi norræna þekking er ekki í innbyrðis samkeppni heldur hafa norrænu ríkin mikinn hag af því að vinna saman óháð landamærum. Í þessu felast norrænu tækifærin.

Vegvísir

Til þess að grípa viðskiptatækifærin verða norrænu ríkin að skapa réttar aðstæður fyrir grænan hagvöxt og standa vörð um norræn styrkleikasvið. Við verðum að bæta kynningar og markaðssetningu rannsóknaniðurstöðva okkar á alþjóðamarkaði. Vinnan við þróun hnattvæðingarverkefnisins á sviði rannsókna verður því enn mikilvægari. Norræna öndvegisrannsóknaverkefnið (TFI) er í því samhengi fyrirmynd framtíðarverkefna á sviði nýsköpunar og rannsókna.

Þróa verður efnahagslega hvata á sviði umhverfistækni til þess að skapa öflugri frumkvöðlamenningu með lítil fyrirtæki sem drifkraft. Með vel skilgreindum rammaskilyrðum og samstarfi þvert á mörk stofnana og landamæra gæti verið komið svar umhverfistækninnar við Maersk, Ikea eða Nokia á Norðurlöndum.

Tilurð græna hagkerfisins krefst þess, eins og þegar aðrar breytingar eiga sér stað, að við bæði hugsum og breytum á nýjan hátt. Norðurlandaráð leggur því til eftirfarandi vegvísa fyrir grænan hagvöxt:

  • Gerum það arðbært fyrir atvinnulífið að veðja á umhverfistækni með styrkjum í byrjun þar til markaðurinn tekur við.
  • Fjölgum efnahagslegum hvötum til breytinga yfir í umhverfistækni með því að verðleggja kolefnislosun og leggja til skattlagningu koltvísýrings í viðræðum við ESB og SÞ.
  • Sköpum markaðslegan slagkraft og tengslanet fyrir norrænar lausnir með myndun norræns samstarfsnets sem samþættir styrk norrænu ríkjanna á sviði umhverfistækni.
  • Sköpum aðstæður fyrir nýjar fjárfestingar á norrænum markaði með skýrum pólitískum rammaskilyrðum sem vinna gegn verndarstefnu og efla frjálsa verslun.

Álagið á náttúruauðlindir eykst og einnig krafa stjórnmálamanna um lausnir. Norðurlandaráð spyr því ríkisstjórnirnar hvernig þær ætli að vinna að þróun norrænna tækifæra og setja þessa vegvísa í norræna áætlun um grænan hagvöxt.

Sameiginleg áætlun um grænan hagvöxt

Hvert fyrir sig eru norrænu ríkin lítil, en í saman eru Norðurlöndin 10. stærsta hagkerfi heims. Tækifæri okkar til að hafa áhrif á þróunina í þjóðlöndunum, svæðisbundið í gegnum ESB og á alþjóðavettvangi í gegnum SÞ, eykst til muna ef Norðurlöndin vinna í sameiningu áætlun um grænan hagvöxt.

Í dönsku skýrslunni um grænan hagvöxt er því slegið föstu að pólitískrar forystu sé þörf til að breyta yfir í grænt hagkerfi. Sænska umhverfistækniráðið nefnir pólitíska stjórnun og samstarf sem stefnumarkandi svið fyrir grænan hagvöxt. Fundurinn með forsætisráðherrunum í Reykjavík verður því gott tækifæri til að skilgreina hvernig Norðurlöndin geta haldið forystuhlutverki sínu á sviði grænnar tækni.

Því grænn hagvöxtur er leiðin til að vinna á efnahagskreppunni og loftslagsvandanum. Og á þriðjudag verða ráðherrarnir einnig að velja hvort vegagerðin verður innan eða utan landamæra Norðurlanda.

Geinin birtist í Fréttablaðinu 1. nóvember sl. í aðdraganda þings Norðurlandaráðs í Reykjavík. Meðhöfundar eru fjórir þingmenn Norðurlandaráðs; Dagfinn Høybråten frá Noregi, Paavo Arhinmäki frá Finnlandi, Karin Åström frá Svíþjóð og Henrik Dam Kristensen frá Danmörku.