Erindislaus Sjálfstæðisflokkur

blog

Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn stýrt Reykjavíkurborg um skeið eftir tólf ára samfellt áhrifaleysi í borgarmálum. Við þær aðstæður er nýr meirihluti oftast aðsópsmikill og kappsfullur að koma í framkvæmd þeim veigamiklu breytingum sem hann hefur svo lengi þráð. En það er ekki að sjá að hinn nýja meirihluta hafi langað til að gera neitt því hann hefur einfaldlega haldið áfram þá leið sem Reykjavíkurlistinn markaði.

 

Nýi meirihlutinn hefur að vísu týnt rusl í Breiðholtinu, skotið nokkra máva og horfið aftur til fortíðar með stofnun Leikskólaráðs, í algjörri andstöðu við hið góða starfsfólk leikskóla og að því er virðist til þess eins að fjölga bitlingum borgarfulltrúa. En þá er afrekaskráin líka upptalin.

 

Þetta dugleysi er ekki tilviljun. Það endurspeglar einfaldlega að hið samgróna bandalag afturhaldsaflanna í Framsóknar- og Sjálfstæðis-flokki hefur ekkert erindi lengur í íslenskum stjórnmálum, ekki einu sinni þar sem þeir um árabil hafa engu ráðið. Ennþá átakanlegra er þetta erindisleysi þó orðið eftir tólf ára valdasetu í landsstjórninni þar sem mörg ár eru liðin síðan einhverjum datt síðast í hug eitthvert framfaramál.

 

Varnarlaus Sjálfstæðisflokkur

 

Þetta dáðleysi sjáum við kannski best í varnarmálunum. Þar urðu stjórnarflokkarnir svo hræddir við breytingar að þeir ákváðu að leyna þjóðina því fyrir síðustu kosningar að herinn væri á förum. Samkvæmt yfirlýsingum þingflokksformanns Framsóknarflokksin var svo þetta ráðaleysi helsta ástæða þess að ríkisstjórnin lýsti yfir stuðningi við innrásarstríð í Írak, einhverja verstu ákvörðun sem tekin hefur verið í utanríkismálum í okkar nafni og þvert á sérstöðu okkar sem herlausrar friðsamrar þjóðar. Íraksmálið var dæmigert um mistök sem stefnulaus stjórnvöld gera þegar þau rekur undan veðri og vindum. Hlýtur að vera enn sárara þegar í ljós kemur að Bandaríkjamenn meta þann stuðning í engu og fara bara samt.

 

Og nú er landið okkar loftvarnarlaust því þoturnar eru farnar. Og samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar átti þá varnarsamstarfinu við Bandaríkin að vera lokið. En sú yfirlýsing er fokin út í vindinn og enn er haldið áfram einhverjum viðræðum sem enginn veit að hverju eiga að stefna, nema kannski að biðja Bandaríkin að skilja nú eitthvað eftir eða halda áfram að borga eitthvað svolítið.

 

Eftir nokkrar vikur verður herinn farinn og enginn veit hvað Sjálfstæðis-flokkurinn hyggst fyrir í öryggismálum þjóðarinnar.

 

Agalaus Sjálfstæðisflokkur

 

Rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir því að halda í her sem er farinn  virðist erindi hans helst vera orðið einmitt það að halda í það sem farið er eða fara ber, eins og verðtryggingin, krónan og landbúnaðarkerfið eru góð dæmi um. Eftir að hafa setið lengi að völdum hefur hann snúist í vörn fyrir fortíðina og boðar ekki lengur nýjungar fyrir framtíðina.

 

Ein sterkasta birtingarmynd erindisleysis er agaleysið því þegar menn hafa setið of lengi að völdum glata þeir viljanum sem þarf til aðhalds. Efnahagsmálin vitna um agaleysið í gengissveiflunum, ofurvöxtunum og verðbólgunni. Ríkisendurskoðun og stjórnarþingmenn játa agaleysið í ríkisfjármálunum þessa dagana þar sem keyrt er framúr lögum um átta þúsund milljónir á ári hverju. Sú lausaganga í ríkissjóð hefur með öðru leitt til sjálfvirkrar þenslu ríkisútgjalda einmitt þegar aðhalds var þörf. Þegar draga þurfti úr neyslu jós Sjálfstæðisflokkurinn út skattalækkunum fyrir eigna- og hátekjufólk og þegar draga þurfti úr væntingum talaði hann um góðæri.

 

Það er löngu tímabært að binda endi á þetta erindis- og agaleysi og fela sterkri stjórn undir forystu jafnaðarmanna að endurheimta hér stöðugleika efnahagslega og félagslega. Sá nýi meirihluti í ríkisstjórn verður ólíkt starfsamari en íhaldsmeirihlutinn í borginni, enda blasa verkefnin við í daglegu lífi venjulegs fólks sem taka þarf á allt frá vöxtum að vöruverði.