Sáttmálinn styrkir stöðu fatlaðra

blog

Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi öryrkja

Sáttmálinn styrkir stöðu fatlaðra

MANNRÉTTINDASÁTTMÁLI Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi öryrkja mun styrkja réttarstöðu öryrkja hér á landi þó að Ísland þurfi ekki að breyta lögum eða reglum vegna gildistöku hans.

Sáttmálinn styrkir stöðu fatlaðra - mynd
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Helgi Hjörvar

MANNRÉTTINDASÁTTMÁLI Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi öryrkja mun styrkja réttarstöðu öryrkja hér á landi þó að Ísland þurfi ekki að breyta lögum eða reglum vegna gildistöku hans. Þetta segir Helgi Hjörvar alþingismaður en hann var í sendinefnd Íslands sem tók þátt í samningaviðræðum um sáttmálann.

Um er að ræða fyrsta mannréttindasáttmála 21. aldarinnar og tekur hann til 650 milljóna öryrkja um allan heim.

Í samtali við Morgunblaðið benti Helgi á að í hagsmunabaráttu fatlaðra hér á landi, m.a. í einstaka málaferlum, hefðu þeir haft stuðning af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

Lagalega skuldbindandi

„Fram að þessu höfum við getað vísað í meginreglur Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra sem hafa verið leiðbeinandi en ekki skuldbindandi. Að tveimur eða þremur árum liðnum mun þessi sáttmáli hafa lagalega skuldbindingu fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og þar með eru vísanir í reglurnar sterkari en áður hefur verið. En langmesta réttarbótin er auðvitað fyrir íbúa þróunarlandanna því við Íslendingar erum að sjálfsögðu lánsamir að því leyti að við erum í hópi fremstu þjóða, hvað stöðu fatlaðra varðar,“ sagði hann.

Þá væru í sáttmálanum ákvæði um skýrslugjöf um stöðu mála í hverju landi og sérfræðingar færu yfir málin, gerðu athugasemdir og bentu á það sem betur mætti fara. „Við getum auðvitað fengið bæði gott aðhald og gagnlegar ábendingar í gegnum slíkt eftirlit eins og við höfum fengið í öðrum málaflokkum, svo sem varðandi stöðu barna og stöðu fangelsismála,“ bætti Helgi við.

Langur aðdragandi

Samþykkt sáttmálans hefur átt sér langan aðdraganda en að sögn Helga var það Bengt Lindqvist sem hafði frumkvæði að honum. Lindqvist var forystumaður í Sænska blindrafélaginu, þingmaður, um tíma félagsmálaráðherra Svía og umboðsmaður fatlaðra hjá SÞ. Árið 1994 hóf hann baráttu fyrir því að SÞ setti leiðbeinandi reglur um málefni fatlaðra með það takmark að þær yrðu að skuldbindandi sáttmála.

„Nú hillir undir að það takist. Það hefur verið mikið starf og flókið viðfangsefni að samræma skilning ólíkra þjóða og menningarheima á því hver staða fatlaðra á að vera,“ sagði Helgi. Hann telur sáttmálann ótrúlega framsækinn í því að tryggja fötluðum jafnrétti á við aðra og gangi í raun og veru lengra en hann hafði búist við. Það hafi líka komið honum á óvart að sáttmálinn var samþykktur samhljóða í nefndinni sem fjallaði um hann.

Sáttmálinn fer fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í október og hann öðlast gildi þegar 2/3 hlutar aðildarþjóða hafa staðfest hann.