Hneykslanleg framganga lífeyrissjóðanna

blog

Vegna aðgerða lífeyrissjóðanna gegn öryrkjum leitaði Blaðið eftir viðbörgðum frá mér og birti í dag grein undir fyrirsögninni:

Skerðing örorkulífeyris:

Hneysklanlegt framferð og kolröng viðmiðun.

Þingmenn gagnrýna lífeyrissjóðina

Vilja að sjóðirnir endurskoði ákvörðun sína

Framganga lífeyrissjóðanna gagnvart öryrkjum er hneykslanleg og skólabókardæmi um það sem menn eiga ekki að gera að mati Helga Hjörvars, alþingismanns. Hann segir það ömurlegt að fátækasta fókið í landinu þurfi að standa í sífelldum málaferlum við ríki og eigin stéttarfélög. Lífeyrissjóðunum ber að endurskoða þær reiknireglur sem þeir nota til skerðingar á lífeyrisgreiðslum segir Ögmundur Jónasson, þingmaður.

Kolröng viðmiðun

„Lífeyrissjóðirnir hljóta að sjá að sér í þessu enda má þeim vera ljóst að þeir eru að vega að eigin undirstöðum,“ segir Helgi Hjörvar, alþingismaður. „Ef við erum ekki tryggð fyrir örorku í sameignarlífeyrissjóðum og þá hljótum við að spyrja hvort einhver ástæða sé til að starfrækja þá og hvort hver og einn eigi ekki að sinna sínum séreignasparnaði.“

Öryrkjabandalag Íslands undirbýr nú málsókn á hendur 14 lífeyrissjóðum í kjölfar ákvörðunar þeirra um að skerða og í sumum tilfellum fella niður lífeyrisgreiðslur til 2.500 öryrkja. Hefur bandalagið gagnrýnt lífeyrissjóðina fyrir að styðjast við neysluvísitölu í framreikningum á bótum en ekki lauanvísitölu. Þá krefst bandalagið þess að þeir falli frá ákvörðun sinni.

Sjóðirnir hafa hins vegar bent á að heildartekjur margra öryrkja hafi í raun hækkað eftir orkutap og því eigi þeir ekki legnur rétt á lífeyrisgreiðslum.

Helgi segir að með þessu séu sjóðirnir að svipta öryrkja einu voninni um að lyfta sér upp úr fátækt. Þá gagnrýnir hann ennfremur þær forsendur sem sjóðirnir styðjast við í sínum útreikningum. „Það er verið að taka kannski 20 þúsund króna greiðslu á mánuði af fólki sem hefur hverfandi tekjur með vægast sagt vafasömum reiknikúnstum þar sem greiðslur eru skertar á grundvelli kolrangrar vísitöluviðmiðunar.“

Þá bendir Helgi á að falli lífeyrissjóðirnir ekki frá ákvörðun sinni þurfi málið að koma til kasta Alþingis. „Það er ömurlegt að fátækasta fólkið í landinu þurfi að standa í sífelldum málaferlum. Ef ekki við ríkið þá við sín eigin stéttarfélög til að halda þeim litlu bótum sem það hefur. Falli sjóðirnir ekki frá ákvörðun sinni hlýtur Alþingi að þurfa fjalla um þessar skerðingar og skýra réttindi örorkulífeyrisþega í lífeyrissjóðskerfinu.“

Ber að endurskoða

Ögmundur Jónasson, alþingismaður, tekur undir orð Helga og segir óeðlilegt að framreikningur örorkubóta byggi á neysluvísitölu en ekki launavísitölu. „Lífeyrissjóðunum ber að endurskoða þær reiknireglur sem þeir styðjast við. Á undanförnum árum hafa almenn laun hækkað talsvert umfram neysuluvísitölu og það er því hætt við að öryrkjar dragist aftur úr launafólki.“

Þá segir Ögmundur mikilvægt að ríkið og lífeyrisjóðirnir hafi nánara samstarf sín á milli. „Allar breytingar á greiðslum Tryggingastofnunar eru iðulega ávísun á lífeyrissjóðina og öfug. Mér finnst því fráleitt annað en að ríkið og lífeyrissjóðirnir komi sér saman um að hafa miklu nánara samstarf sín á milli þannig að einn sé ekki að vísa á annan.“