Skipulögð fátækt í boði lífeyrissjóðanna

blog

Þessi grein birtist í Blaðinu, laugardaginn 30. september: 

 

Skipulögð fátækt í boði lífeyrissjóðanna

 

 

Eitt af því mikilvægasta sem tuttugasta öldin kenndi okkur í stjórnmálum er algjört og ævarandi getuleysi miðstýrðra skrifræðiskerfa til að færa okkur farsældina. Hversu margar og ítarlegar sem fimm ára áætlanir kerfisins um góða forsjá þess eru, stoðar það lítið því árangur og framfarir verða ekki til í möppum. En þó við höfum lært þetta eru ennþá til steinrunnin skrifræðisskrímsli sem eru svo þjökuð af reglugerðahaugum að það skiptir engu máli hve gott fólk þangað velst,

það eru allir löngu hættir að rata á þessum ruslahaugum reglugerðanna. Eitt skýrasta dæmi okkar um þetta nú er Tryggingastofnun ríkisins en þeir sem best þekkja til halda því fram að fyrir þrjátíu árum hafi enn verið einn maður sem skildi kerfið í TR.

 

Tryggjum jafna fátækt

 

Eins og algengt er um afturhaldssöm velferðakerfi er almannatryggingakerfi okkar ölmusukerfi. Viðhorfin til þess eru þannig miklu líkari viðhorfi til félagsmálaþjónustu sveitarfélaga en til tryggingafélaga og í þeim anda hafa ríkisstjórnarflokkarnir leikið lífeyrisþega, hvort sem er aldraða eða öryrkja. Meginatriði stjórnarstefnunnar verður þannig annars vegar að tryggja að ölmusuþegarnir njóti ekki sömu kaupmáttaraukningar og vinnandi fólk og hins vegar að tryggja með endalausu regluverki að allir verði ölmusuþegarnir örugglega jafn fátækir. Með tekjutengingum og öðrum ofursköttum á aldraða og öryrkja leggja stjórnarflokkarnir þannig hina dauðu hönd miðstýringarinnar á frumkvæði og framtak tugþúsunda landsmanna, engum til gagns eða gæfu.

 

Frelsum lífeyrishafa

 

Á fjölmörgum sviðum hefur okkur borið gæfu til að hverfa frá miðstýringunni og skapa í hennar stað fólki og fyrirtækjum almenn skilyrði til vaxtar og viðgangs. Þannig flytjum við hvert verkefnið á fætur öðru til sveitarfélaganna og þau aftur til fólks og félaga til að virkja frumkvæði. Við bárum líka gæfu til að létta vofu skrifræðismiðstýringarinnar af bankakerfinu og leystum með því úr læðingi ófyrirsjáanlega krafta. Með sama hætti eigum við að létta ofursköttum tekjuteningarkerfisins að mestu af öryrkjum og ellilífeyrisþegum og leyfa fólki einfaldlega að vinna og afla sér tekna. Það er einfaldlega nægur ávinningur að lífeyrishafar greiði skatta af slíkum tekjum, þó ekki sé verið að skerða bætur þeirra líka. Fyrir marga, ekki síst úr röðum öryrkja, er það líka mikilvægt fyrir heilsufar, andlegt og líkamlegt, að sinna einhverri vinnu, þó í litlu mæli sé. Hér er heldur ekki það víðtæka atvinnuleysi sem í mörgum öðrum löndum hefur orðið þess valdandi að menn vilja halda lífeyrishöfum frá vinnumarkaði.

 

Lágt leggjast lífeyrissjóðirnir

 

En í stað þess að frelsa lífeyrishafana hefur nú hópur lífeyrissjóða tileinkað sér nauðhyggju skipulegrar fátæktar og sett eftir á og óforsvarandi viðamiklar reglur til að tryggja að þeir öryrkjar sem í sjóðunum kunna að vera réttum megin við fátæktarmörk fái ekki greiðslur úr sjóðunum. Þannig eru þeir þessa dagana að svipta á þriðja þúsund öryrkja, sem flestir hafa 1-2 milljónir króna í árstekjur að meðaltali 20 þúsund króna bótagreiðslum á mánuði. Aðferðir lífeyrissjóðanna í þessari aðför að öryrkjum eru ekki aðeins ólögmætar heldur algjörlega siðlausar. Sú sérstaða sem íslensku lífeyrissjóðunum er sköpuð í lögum gerir strangar kröfur til þeirra um siðferði og samfélagsábyrgð sem óhætt er að fullyrða að þeir hafa fullkomlega brugðist í þessari aðför. Slík framganga hlýtur annað hvort að kalla á að athafnafrelsi þeirra sé að þessu leyti takmarkað í lögum, eða þá hitt að tími sé kominn til að leyfa fólki sjálfu að velja sér lífeyrissjóði eða sparnaðarleiðir með tryggingarvernd. Því ef lífeyrissjóðirnir fela ekki í sér raunverulega sjúkdóma og slysavernd, heldur koma aftan að félögum sínum í þeim efnum, þá er trúlega betra fyrir fólk að skipta við fagmenn á markaði en miðstýrða sjóði atvinnulífsins.