Ríkisstjórnin lætur loks undan

blog

Þeir eru jafnan líflegir fyrstu þingdagarnir og óvenju ánægjulegur var gærdagurinn. Þá tilkynnti ríkisstjórnin um aðgerðir til lækkunar matvælaverðs en við í Samfylkingunni höfum sem kunnugt er verið að berja á þeim allt kjörtímabilið í því máli. Aftur og aftur höfum við flutt tillögur um lækkun matarskattsins og þeir fellt þær en láta nú loks undan. Hve skammt þeir ganga í vörugjöldum og tollum skapar þó vissa hættu á að lækkanirnar skili sér ekki í vöruverði og hefði verið betra að ganga hreint til verks eins og við lögðum til.

Hann háir mér lítið skipulagshæfileikinn en einhvern tímann í lok mánaðarins ná framkvæmdir okkar Þórhildar því stigi að við þurfum að flytja út. Ekki besti tíminn að búa í plastpoka í miðri prófkjörsbaráttu! En kannski er alveg eins gott að sofa bara á skrifstofunni, maður gerir í það minnsta lítið annað en að tala við fólk þessa dagana og fær margar skemmtilegar kveðjur. Þessa vísu fékk ég t.d. í póstinum en hún er sögð eftir Kolbein Högnason:

Vildi eg að félli á veginn þinn
vinargeisli tryggur.
Hamingjan leiði Helga minn
hvert sem gatan liggur.