Þjóðaratkvæði um miðhálendið

blog

Þessi grein mín birtist í Morgunblaðinu 10. okt. 2006

 

Þjóðaratkvæði um miðhálendið

Í ÁGÆTU Reykjavíkurbréfi leggur ritstj. Mbl. til að þau deilumál sem nú rísa hæst, þ.e. um virkjanir og stóriðju, verði leyst í almennum atkvæðagreiðslum. M.a. hafa forseti Íslands og formaður Samfylkingarinnar nýlega varað við að þessi mál megi ekki kljúfa þjóðina og mikilvægt að við leitum lausna. Áhersla blaðsins á beint lýðræði er lofsverð sem fyrr, en aðferðafræðin sem lögð er til er hæpin.

Það er sjálfsagt lágmarksskilyrði að framkvæmdir sem þessar fari í almenna atkvæðagreiðslu, en það er ekki nægjanlegt. Því slíkar atkvæðagreiðslur eru í sjálfu sér atkvæðagreiðslur um eyðileggingu og hætt er við að smátt og smátt spillum við með afmörkuðum ákvörðunum heildarmynd landsins og atvinnustefnu þess. Vænlegra sýnist mér að hafa slíkar atkvæðagreiðslur um friðun en framkvæmdir og þó einkum um hinar stóru línur, því allsherjaratkvæðagreiðslur eiga helst að varða stórmál og framtíðarsýn.

Þannig ættum við að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um friðlýsingu miðhálendisins og ákveða í henni að þar rísi ekki virkjanir né háspennulínur. Miðhálendið eigum við öll, hvort sem við búum á Húsavík eða í 101 og saman eigum við að móta framtíðarsýn fyrir svæðið allt. Hið sama gæti átt við eldfjallafriðlandið sem Landvernd hefur lagt til. Í slíkum atkvæðagreiðslum gætum við tekið grundvallarákvarðanir um framtíð náttúru landsins, atvinnustefnu okkar og þjóðfélagsgerð. Slíkar atkvæðagreiðslur hefðu mikla kosti umfram einangraða bardaga við fjársterk stóiðjufyrirtæki sem hætt er við að verði fremur varnarbarátta en lýðræðislegar tímamótaákvarðanir. Morgunblaðið gerði snemma á þessu ári góða grein fyrir hugmynd minni um friðlýsingu miðhálendisins og ég hvet blaðið og lesendur þess til að íhuga hvort þar sé ekki að finna verðugasta atkvæðagreiðsluefnið.