Menntun, atvinnuilíf, Evrópa og skattar

blog

Sumir halda að hægri menn vilji efla atvinnulífið en vinstri menn vilji efla velferðarkerfið. Þetta átti kannski við í stjórnmálum tuttugustu aldarinnar en í nútímanum hafa línurnar breyst. Það er nefnilega þannig að menntakerfið sem að við jafnarðarmenn höfum byggt upp, hvað öflugast og best í heiminum, hefur reynst vera það mikilvægasta sem atvinnulíf í nútímanum getur byggt á.

Vel menntaðar þjóðir, þar sem jafnrétti til náms og öflugt almennt skólakerfi eru ráðandi, það eru þær þjóðir þar sem atvinnulífið er öflugast og þróttmest. Með öflugu menntakerfi getur atvinnulífið einfaldlega nýtt sér þá þekkingu sem er í samfélaginu til staðar og með eigin frumkvæði drifið áfram aflvél hagkerfisins. Þeir stjórnmálamenn sem nú ráða á Íslandi halda að hér sé ennþá tuttugasta öldin, að við þurfum pólitíkusa sem að ákveða að byggja verksmiðjur í einhverjum firði fyrir fólkið. Við þurfum ekki svoleiðis stjórnmálamenn.

Við þurfum stjórnmálamenn sem að efla íslenskt menntakerfi í þágu atvinnulífsins og skapa því almenn skilyrði til velsældar. Það gerum m.a. með því að efla og styrkja tengslin við Evrópu. Með því að leggja af íslensku krónuna, sem að líka tilheyrir liðinni öld, og skapa hér efnahagsumhverfi eins og gerist með öðrum þjóðum, þannig að erlendir fjárfestar í ríkari mæli leggi peninga í að byggja upp ný störf á íslandi. Og við þurfum líka að fara í skattkerfið og opinbera kerfið utan um atvinnulífið, einfalda það og stokka upp.

Við eigum að vera algjörlega óhrædd við að keppa við aðrar þjóðir í skattamálum því að það er einfaldlega þannig að við þurfum að skapa fyrirtækjum á Íslandi skilyrði í skattamálum sem eru ívið betri heldur en gerist t.d. á meginlandi Evrópu. Vegna þess að það er einfaldlega þannig að við erum eyja langt norður í hafi og það verður að vera ávinngur að setja sig niður hér með sína starfsemi.