Við þurfum sterkan forsætisráðherra

blog
Atburðir síðustu vikna afhjúpa hve veik forysta er fyrir ríkisstjórninni. Fyrst er til að taka viðræðurnar við Bandaríkjastjórn um brottför hersins. Þær voru samfelldur ósigur sem enduðu með því að það eina sem herinn skildi eftir var mengunin og við þurfum að kosta þrifin.

Stjórn efnahagsmála er þó stærra áhyggjuefni því verðbólgan er á fullri ferð og vextir þeir hæstu í okkar heimshluta. Forsætisráðherra virðist ekkert þrek hafa til að ráðast gegn vandanum og hefur gefist upp við að halda aftur af ríkisútgjöldum þrátt fyrir ástandið. Tilraun til að halda aftur af framkvæmdum rann út í sandinn því Geir gat ekki staðið gegn útgjaldakröfum á kosningaári.

Fyrirrennarar Geirs hafa varnað því í tuttugu ár að hvalveiðar verði hafnar. Þrátt fyrir ríkan vilja til þess í landinu að veiða hval hafa þeir staðið á bremsunni vegna orðspors okkar erlendis og annarra hagsmuna. En sú fyrirstaða er nú rokin út í veður og vind.

Átakanlegast var þó að sjá forsætisráðherra á laugardag þar sem hann neyddist til að taka sjálfur að sér prófkjörsbaráttuna fyrir Björn Bjarnason. Fylgismenn Geirs, með Guðlaug Þór Þórðarson í broddi fylkingar hafa sótt hart að Birni, en Geir brast úthaldið. Þjóðin horfir uppá ráðalausan forsætisráðherra sem ekki er fær um að taka á hlerunarmálunum og þeim deilum sem af þeim hafa sprottið, en bugtar sig og beygir fyrir Birni Bjarnasyni.

Við þurfum ekki á þessu að halda. Við þurfum sterkan forsætisráðherra sem ræðst gegn verðbólgunni og ofurvöxtunum og hefur þrek til að halda aftur af ríkisútgjöldum. Við þurfum forsætisráðherra sem leiðir nýja stefnu í öryggismálum fyrir Ísland, en þiggur ekki bara og hlýðir haukunum í Bandaríkjunum. Við þurfum forsætisráðherra sem getur leitt uppgjörið við kalda stríðið og hefur forystu um friðhelgi einkalífsins. Þess vegna þurfum við nýja ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar og formanns hennar.