Þessi grein mín birtist í Fréttablaðinu í dag, 26. október.
Þú tryggir ekki eftir á
Friðrik J. Arngrímsson skrifar afhjúpandi grein um aðför lífeyrissjóðanna að öryrkjum undir fyrirsögninni Öryrkjana burt úr lífeyrissjóðunum. Þar færir hann rök fyrir því að öryrkjar eigi bara að vera á bótum Tryggingastofnunar, en hinir öflugu lífeyrissjóðir bara að vera fyrir ellilífeyrisþega. Þetta málefnalega sjónarmið má ræða en félagshyggjufólk sér að það væri aðeins fyrsta skrefið í einkavæðingu sjóðanna.
Um aðförina að 2.300 öryrkjum gildir hins vegar að taka átti af þeim virk lífeyrisréttindi á meðan réttindi annarra sjóðfélaga voru jafnvel aukin á sama tíma. Maður tryggir ekki eftir á og því síður breytir maður reglum og framkvæmd eftir á til að skerða virk réttindi þeirra sem treysta á samtryggingarþátt lífeyrissjóðanna. Réttur lífeyrishafanna sem byrjaðir eru að taka lífeyrinn er einfaldlega varinn af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.
Friðrik er forystumaður LÍÚ, sem telur að úthlutun kvóta sem skapaði nokkrum mönnum tugmilljarðar gróða sé varin af eignarréttarákvæðinu. Þegar í hlut á fólk sem flest hefur1 til 2 milljónir í árstekjur og treystir á 20 þúsund króna lífeyrisgreiðslu í lífsbaráttunni þá telur Friðrik það ekki varið af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég vona að það góða fólk sem fer fyrir lífeyrissjóðunum noti 3. mánaða frestun aðgerða til þess að leita leiða sem tryggja líka velferð þeirra félaga sem verða fyrir örorku, eins og hinna, í stað þess að reyna að losna bara við okkur einsog Friðrik vill.