Nefndanefndanefndin

blog

 

Það er merkilegt þetta með nefndirnar. Ég sat í einni slíkri hjá menntamálaráðherra sem skilaði niðurstöðu 2004 um að langvarandi skort á stuðningi við blind og sjónskert skólabörn þyrfti að bæta. Einkum skyldi það gert með því að stofna þekkingarmiðstöð sem hjálpað geti skólum og kennurum að kenna þessum nemendum. Síðan þetta var eru liðin þrjú skólaár. Hingað hafa komið erlendir sérfræðingar og staðfest mikla þörf fyrir þjónustuna og viðtöl hafa birst við foreldra sem tekið hafa sig upp með rótum og flutt til annarra landa til að fá viðunandi þjónustu við börnin sín. Blindrafélagið var farið að spyrja hvort blindir þurfi menntun og ég ákvað því að inna hæstvirtan menntamálaráðherra eftir því hvað þekkingarmiðstöð liði.

 

Og viti menn! Ráðherra upplýsti að nærri þremur árum eftir að hennar eigin nefnd skilaði tillögunni hafi hún skipað aðra nefnd! Síðast þegar fréttist voru 246 nefndir starfandi á vegum menntamálaráðuneytisins og í þeim sátu 2052 nefndamenn, eða um 1% af vinnuafla á Íslandi.

 

Nú skortir hvorki góð orð, fundi, skýrslur, nefndir og velvilja menntamálayfirvalda í þessu máli. Það skortir bara aðgerðir. Enda um smámál að ræða fyrir menntamálaráðherra en stórmál fyrir þá sem þjónustuna þurfa. Þetta er eitt af þessum málum þar sem kerfin benda hvert á annað og þrátt fyrir hverja nefndina á fætur annarri gerist ekkert nema ráðherra taki sjálf af skarið. Það mun sú ágæta kona eflaust gera og vonandi fyrir kosningar enda þverpólitísk samstaða um þetta litla mál. Það er þó umhugsunarefni hve langan tíma það hefur tekið og var afhjúpandi í svari ráðherra að hún tók skýrt fram að nýja nefndin sem hún væri að skipa væri ekki bara enn ein nefndin, svo notuð séu hennar eigin orð, heldur ætti þessi sem sagt að gera eitthvað í málinu!

 

Vestfjarðanefndanefndin

 

Enn ein nefndin, af þeirri gerð sem ekkert gerir og eiga bara að svæfa málin var svar ríkisstjórnarinnar við ákalli almennings á Vestfjörðum. Ráðþrota stjórnvöld sem gáfu vinum sínum fiskinn á Vestfjarðamiðum skipa nefnd um vandann. Ég er löngu hættur að muna hvað þeir hafa skipað margar nefndir um vanda Vestfjarða en það voru bara enn einar nefndirnar. Enn einu nefndirnar virðast vera skipaðar til að láta líta út fyrir að menn séu að gera eitthvað en þeir gera svo ekki neitt.

 

Þannig hefur ríkisstjórninni ekki ennþá tekist árið 2007 að malbika veg til Ísafjarðar frá Reykjavík. Má það þó heita mannréttindamál að byggðakjarninn í heilum landshluta sé í vegasambandi við höfuðborgina og hefði átt að vera langt á undan ýmissi gangnagerð í forgangi. En ríkisstjórnin brást í þessu því hún taldi mikilvægast að slá á þenslu með því að fresta framkvæmdum á samdráttarsvæðum.

 

Stjórnarskrárnefndin

 

Nýr formaður Framsóknarflokksins féll svo á fyrsta vorprófinu sínu hér við þinglokin með fráleitri framgöngu í stjórnarskrármálum. Það gönuhlaup allt í stjórnarskrárnefndunum sýnir kannski betur en nokkrar aðrar nefndir uppdráttarsýkina í stjórnarsamstarfinu og hversu erindi þeirra við þjóðina er þrotið. Þegar Geir og Jón voru algjörlega hættir að geta varið eigið frumvarp og ekki síður virðingarleysi sitt við stjórnarskrána þá vísuðu þeir sínu eigin frumvarpi út úr þinginu án afgreiðslu og í enn eina nefndina. Nefnilega stjórnarskrárnefndina sem starfaði lengi og hafði undirbúið vandaða breytingu á stjórnarskrá um eignarhald á auðlindum sem aldrei verður flutt. Enda var það bara enn ein nefndin. Hún lagði að vísu samhljóða til að ákvæði um þjóðaratkvæði við breytingar á stjórnarskrá ætti að setja inn. En það verður ekki einu sinni gert. Enda er ríkisstjórn Geirs og Jóns löngu hætt að gera neitt, nema auðvitað í nefndum.

(Pistill þessi birtist einnig í Blaðinu 17. mars 2007)