Enginn er eyland

blog

þessar fyrstu vikur ágústmánaðar eru jafnan aðgerðalitlar þegar við
flest erum að reyna að hökta af stað í vinnunni á virkum dögum en
helgarnar undirlagðar af verslunarmönnum, gay pride og menningarnótt.
svo lítið í gangi að útvarpinu tókst að gera frétt um að formaður
stéttarfélags hefði lýst því yfir að launamál yrðu sett á oddinn í
næstu kjarasamningum! en fjármálamarkaðurinn sefur aldrei og þó ekkert
sé jafn leiðinlegt og viðskiptafréttir eiga þær þessa dagana að vera
okkur umhugsunarefni. þannig hefur krónan okkar þegar þetta er skrifað
fallið um 10% á skömmum tíma. 

ástæða þess er ekki síst vaxandi áhættufælni fjárfesta á alþjóðamarkaði
vegna hræringa m.a. tengdum bandarískum húsnæðismarkaði.  íslenska
krónan er svo lítil og sveiflur gengis hennar svo miklar að hún er
flokkuð með áhættusömum myntum og þegar blikur eru á lofti í
efnahagsmálum heimsins selja menn íslenskar krónur til að draga úr
áhættu sinni. og þannig virkar heimurinn í dag að breytingar í
bandaríkjunum eða kína geta tafarlaust haft áhrif á gengi íslensku
krónunnar þó okkar atvinnulíf gangi jafn vel í dag og í gær. 

þau rök hafa verið notuð gegn því að við tökum upp evru sem gjaldmiðil,
í stað hinnar áhættusömu íslensku krónu, að gengi evrunnar stjórnist af
því hvernig gangi á meginlandinu en okkar hagsveifla sé allt önnur og
krónan fylgi  þróuninni hjá okkur og þannig höfum við stjórn á okkar
efnahagsmálum með krónunni. þessi rök verða æ minna rétt með aukinni
alþjóðavæðingu. það hvernig vanskil á bandarískum fasteignalánum lækka
gengi krónunnar er gott dæmi um það. við erum hluti af hagkerfi
heimsins og verðum næmari fyrir breytingum erlendis með hverju árinu.
þó hagsæld hér ráði gengisþróun til mjög langs tíma eru allt aðrir
þættir áhrifamiklir á löngum tímabilum svo sem vextir á
alþjóðamörkuðum, framboð af lánsfé o.s.frv. enda hefur okkur ekki
gengið betur en svo að stjórna sveiflum í efnahagslífi að myntin okkar
er flokkuð með áhættusömum gjaldmiðlum.

nauðsyn trúverðugleika

og þá er eðlilegt að spurt sé hvers vegna við ættum að hafa litla,
sveiflukennda og áhættusama mynt þegar við getum með þátttöku í
evrópusamstarfinu og aga í efnahagsmálum tekið upp víðtækan, virkan og
viðurkenndan gjaldmiðil eins og evruna. í ljósi reynslu okkar af því að
hafa fljótandi krónu í vaxandi alþjóðavæðingu virðist margt benda til
að stöðugleiki verði meiri á íslandi til lengri tíma með því að taka
upp traustari mynt. þá er ótvírætt að slík breyting yrði mjög til að
auka traust og trúverðugleika íslenks atvinnulífs og fátt er
mikilvægara.

hagsmunir venjulegs fólks

það er ekki síður mikilvægt fyrir heimilin í landinu ef hér takist
að skapa þann stöðugleika sem skort hefur í áratugi, í honum eru
lífsgæði fólgin. fyrir nú utan að margir binda vonir við að upptaka
evru gæti beinlínis bætt lífskjör. ekki síst er vonast eftir lægri
vaxtakostnaði og má m.a. sjá það af því hve margir hafa sótt í
fasteignalán í erlendri mynt undanfarið. en á meðan launin eru í
annarri mynt en lánin, þ.e. krónunni, þá er mjög áhættusamt að taka
erlent lán. einkum á það við um ungt fólk sem á lítið í íbúðinni, er að
kaupa þegar fasteignaverð er mjög hátt og krónan sterk einsog hún hefur
verið. þá getur eign þeirra í íbúðinni einfaldlega étist upp við
breytingar á markaði en ef launin væru í evrum væri áhættan mun minni. 
þá má binda vonir við að fleiri fyrirtæki bjóði hér vöru og þjónustu
þegar við erum orðin hluti af stærri markaði en aukin samkeppni er jú
eitt brýnasta hagsmunamál neytenda í litlu landi eins og íslandi.  og
þegar litið er til þess að vörur hér eru jafnan miklu dýrari en almennt
á evrusvæðinu er eðlilegt að áhugi neytenda á breytingu aukist.

þó evran sé ekki töfralausn og dugi ekki til að leysa viðfangsefni
dagsins bendir æ fleira til þess að hún sé hluti af framtíðarlausninni
fyrir ísland og aðeins sé spurning um hvenær en ekki hvort. og kannski
það sé orðið brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála eftir þá miklu
eigna- og tekjuaukningu sem orðið hefur eftir inngöngu okkar í evrópska
efnahagssvæðið að treysta þau lífskjör í sessi með því að gera okkur að
hluta af stærri, traustari og hakvæmari markaði en við nú erum.

(pistill þessi birtist í blaðinu 11.08.07)