LANGAR OG LEIÐINLEGAR RÆÐUR

blog

Forseti Alþingis og formenn fjögurra af fimm þingflokkum hafa lagt fram löngu tímabærar tillögur að breytingum á starfsháttum Alþingis. Einbjörn, Tvíbjörn og Þríbjörn, sem lengstar ræður halda á þingi, telja að með þessu sé vegið að málfrelsi í landinu og undirstöðum lýðræðis. Þetta er augljóslega misskilningur, því langar og leiðinlegar ræður eru hvorki forsenda málfrelsis né lýðræðis í landinu.

Þær takmarkanir á ræðutíma sem VG hrópar nú um eru þær að framsögumaður tali bara í hálftíma, en aðrir í 15 mínútur og svo eins oft og þeir vilja í 5 mínútur í senn! Sá sem ekki getur sagt skoðun sína á máli á 15 mínútum á að vera á endurmenntunarnámskeiði en ekki á Alþingi Íslendinga. Óheppilegt er þó að fimmti flokkurinn, VG, standi ekki að flutningi málsins, því löng hefð er fyrir samstöðu um breytingar á þingsköpum. En það er ekki bara meirihlutinn sem flytur það, heldur líka meirihluti stjórnarandstöðunnar. Óskandi er að við vandaða og málefnalega umfjöllun um málið á Alþingi takist á endanum full samstaða um það, enda brýnt framfaramál á ferðinni, sem eflaust má enn bæta í meðförum þingsins.

Neftóbakið kvatt

Það kemur nýju fólki alltaf jafn mikið á óvart hve úreltir starfshættir þingsins eru. Jafnvel neftóbakið er þar enn í hávegum haft. En með hinu nýja frumvarpi á loksins að leggja af ýmsa verstu lestina í starfsháttum.

Kvöldfundi á bara að vera hægt að halda á þriðjudögum, en næturfundir leggjast alveg af. Undrum hefur sætt það furðulega verkskipulag að verið sé að fjalla um mikilvæg löggjafarmálefni um miðjar nætur og ótvírætt að ýmis mistök má rekja til  óvandaðrar málsmeðferðar sem því fylgir. Með þessu verður vinnustaðurinn líka fjölskylduvænni en sá vinnutími sem hentaði miðaldra karlmönnum um miðja síðustu öld hentar illa fjölskyldufólki í dag, ekki síst einstæðum foreldrum.

Kvöld- og næturfundir hafa líka verið notaðir í óþolandi meirihlutaofbeldi þegar keyra á í gegn mál. Þá er fundum fram haldið út yfir öll skynsamleg mörk og stjórnarandstaðan grípur til þess að beita til varnar löngum og leiðinlegum ræðuhöldum. Þetta skipulag hefur hvorki gagnast meirihluta né minnihluta, heldur verið fremur tilgangslaust gagnkvæmt ofbeldi sem dregið hefur mjög úr virðingu þingsins. Um leið og horfið er frá því að beita kvöld- og næturfundum er þess vegna sjálfsagt að takmarka ræðutíma. Þó er gert ráð fyrir að flokkar geti farið fram á lengri tíma í stærri málum     

Breytt sumarleyfi

Í frumvarpinu eru líka ánægjulegar nýjungar, eins og aukin áhersla á snarpar óundirbúnar umræður þingmanna við ráðherra og stjórnarandstöðu gefið tækifæri til að kalla ráðherra fyrir þingnefndir.

Þá er gert ráð fyrir að breyta þinghaldinu þannig að fundað sé dreifðar yfir árið og sumarleyfi sé frá 1. júlí til 10. ágúst. Hið úrelta skipulag á starfsárinu hef ég oft gagnrýnt, bæði í þessum pistlum og umræðum á þingi og fagnaðarefni að nú sé að verða breyting á því. Alþingi fundar álíka lengi og afgreiðir svipaðan málafjölda og þekkist í löndunum í kringum okkur en þetta höfum við gert á maraþonfundum fyrir jól og á vorin en haft fáránlega langt sumarleyfi. Eftir þessar breytingar er starfstími þingsins orðin líkur því sem við þekkjum í nágrannalöndunum og á að leiða til bættrar lagasetningar.

Áhyggjuefni hefur verið hve alþingi hefur veikst frá því Davíð Oddsson varð forsætisráðherra 1991. Mikilvægt er að efla löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdavaldinu og að auka virðingu þingsins. Við þurfum að þróa lýðræði okkar frá hinu hráa meirihlutaofbeldi til gagnkvæmrar virðingar stjórnar og stjórnarandstöðu, m.a. með því að styrkja sérstaklega hina veiku stjórnarandstöðu. Sturla Böðvarsson á hrós skilið fyrir frumkvæði sitt í þá átt.

(Þessi pistill birtist í 24 stundum 1.12.07)