Sjálfstæðir einstaklingar

blog

Í þessari lokaviku þingsins var afgreitt margt þjóðþrifamálið. Auk löngu tímabærra breytinga á starfsháttum þingsins bar sjálft fjárlagafrumvarpið auðvitað hæst. Í því er ekki síst ástæða til að fagna mikilvægum áföngum í kjarabaráttu aldraðra og öryrkja.

Einna mikilvægast í því er að með fjárlögunum er tryggt fé til að uppfylla afnám tengingar lífeyris við tekjur maka en kostnaður við það er tæpir tveir milljarðar á ári. Þessi stefna var mörkuð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og með samþykkt fjárlaganna er tíu ára einbeittri baráttu Öryrkjabandalagsins og samtaka aldraðra loksins lokið.

Fyrir tíu árum bjuggu öryrkjar við það að væru þeir giftir eða í sambúð með manneskju með meðaltekjur voru þeim skammtaðar um tuttugu þúsund krónur á mánuði af ríkinu. Þeir voru þannig dæmdir til að biðja ástvin sinn um vasapeninga og grunnframfærslu. Eftir að hafa árum saman rætt við stjórnvöld um sjálfsagaðar lagfæringar á þessu, stefndi Öryrkjabandalagið ríkinu.

Sá sögulegi dómur Hæstaréttar að ríkisstjórnin hafi, með því að svipta þetta fólk nær öllum bótarétti, brotið á grundvallarmannréttindum þeirra verður lengi í minnum hafður.  Málatilbúnaður ÖBÍ og Ragnars Aðalsteinssonar var vandaður en það sýndi sjálfstæði hæstaréttar og kjark að kveða upp dóm í svo pólitísku máli.

Dabbía

Viðbrögð Davíðs Oddssonar og Framsóknarflokksins létu ekki á sér standa. Jón Steinar Gunnlaugsson var látinn semja nýtt fyrirkomulag svo áfram væri hægt að skerða tekjur fólks vegna tekna maka þeirra, þó ekki með jafn ósanngjörnum hætti og áður. Á næsta ári verða þær tengingar semsagt úr sögunni

Þegar maður lítur nú til baka er óskiljanlegt hvers vegna Davíð Oddssyni var svona mikið kappsmál að geta skert greiðslur lífeyrirsþega með tekjum maka þeirra. Málið er  augljóst mannréttindamál og snýst um það grundvallaratriði að vera sjálfstæður einstaklingur. Tekjutenging við maka leiddi einnig til þess að fólk í erfiðum félagslegum aðstæðum skráði ekki sambúð sína og giftist ekki. Þannig var óréttlætið jafnvel andstætt hjónabandinu og sjálf Þjóðkirkjan lét það til sín taka þess vegna. Þetta er líka brýnt jafnréttismál, því auðvitað voru það oftar konur sem þurftu að gjalda tekna maka sinna. Þetta er nú öllum augljóst en hitt furðulegt, hve langt stjórnvöld sukku í þá dabbíu sem málaferlin við öryrkja voru.

Sjálfsbjargarviðleitni

Annar mjög mikilvægur þáttur í þeim breytingum sem við gerum á næsta ári er að draga verulega úr öðrum tekjutengingum, þ.e. við atvinnutekjur. Það er skrýtið hvað löggjafinn gekk langt í að refsa fólki fyrir sjálfsbjargarviðleitni. Svo langt var gengið að tekjutengingar eru næstum orðnar skammaryrði. Eru þær þó hugsaðar til þess að eyða ekki dýrmætu skattfé í aðstoð við þá sem ekki þurfa. Þar að auki hefur reglufrumskógur og hans óréttlæti hvatt til undanskota og rangrar upplýsingagjafar.

Í tilfelli öryrkja hefur þetta verið jafnvel enn fráleitara, því fyrir mörg okkar sem fötluð eru, er það mikilvæg endurhæfing og félagslegur stuðningur að vinna. Það ætti þess vegna að vera sérstakt keppikefli samfélagsins að hvetja öryrkja á vinnumarkað en ekki refsa þeim. Sömu sjónarmið geta líka átt við um suma aldraða en síðar á kjörtímabilinu verður líka hætt að refsa þeim fyrir ráðdeildarsemi, með því að hætta að skerða lífeyri ef þeir taka út séreignasparnað. Enda eru það í hæsta máta einkennileg skilaboð til fólks að refsa því fyrir að leggja til hliðar fyrir elliárin. Þó það kosti mikið á pappírunum að hætta að refsa fólki fyrir allt að 100 þúsund krónu atvinnutekjur á mánuði og fyrir sparnaðinn, er ég sannfærður um að þegar dæmið er gert upp mun samfélagið hagnast á þessum breytingum. Því þegar við hvetjum fólk til sjálfshjálpar og ráðdeildarsemi skilar það sér í sköttum, betra heilsufari og sterkara samfélagi.

(Pistillinn birtist í 24 stundum 15.12)