Þörf nýrrar þjóðarsáttar

blog

Þrátt fyrir aðvaranir, alþjóðlega fjármálakreppu og himinháa vexti var eyðsla okkar enn að aukast í síðasta mánuði. Umhugsunarefni er að ekkert nema neyðarhemillinn virðist hemja neyslugleði Íslendinga. Það sýnir líka vel hve bitlaus og mótsagnakennd hagstjórnartæki okkar eru meðan við búum við krónuna. Háir vextir áttu að slá á eyðslu en styrktu gengi krónunnar svo að hagstætt varð að halda áfram að eyða í utanlandsferðir, bíla, o.s.frv.  Vextirnir höfðu svo lítil áhrif því ýmist fjármögnuðum við okkur í erlendri mynt, eða verðtryggðum lánum sem voru áfram á sömu gömlu vöxtunum. Þess vegna eru nú flestir sammála um að skipta um gjaldmiðil.

En við skiptum ekki um mynt á morgun og því kalla aðstæður okkar á aðrar aðgerðir. Ef krónan hefur einhvern kost þá er hann sá að eiga gott með hraða aðlögun. Það þýðir eilífar sveiflur sem ekki eru farsælar til langframa en getur komið sér vel nú þegar kreppir að. Sagan sýnir að ítrekað höfum við náð að rétta fljótt úr kútnum en það er fjarri því að vera sjálfgefið, ekki síst í miðri alþjóðlegri fjármálakreppu.

Að mjólka neytendur

Atvinnulíf okkar hefur safnað gríðarlegum skuldum síðustu ár. Það hefur verið rökstutt með aukinni framleiðni og hagræðingu. Furðu lítið virðist hins vegar mega útaf bregða til þess að fyrirtæki sjái sig knúin til að hækka verð á vöru og þjónustu. Og það er alveg ótrúlegt hvað verðið er fljótt að hækka þegar gengið lækkar, eins og verður lítið vart við að verðið hafi lækkað þegar aðstæður bötnuðu. Þó allir geti unnt bændum góðrar afkomu er 15% verðhækkun að nokkru réttlætt með vaxtahækkunum sem vekur áhyggjur um að verið sé að senda neytendum reikninginn fyrir skuldsetningu kúabúa sl. ár. Vaxandi áhyggjuefni er það viðhorf sem gætir hér og hvar í viðskiptalífi að auðveldlega megi senda íslenskum neytendum reikninginn fyrir skuldsettum yfirtökum með verðhækkunum á vöru og þjónustu.

Mjólkurhækkunin er ágætt dæmi um það sem ekki er hægt að gera við núverandi aðstæður. Ráðist allir sem réttlætt geta hækkanir í þær með afgerandi hætti erum við einfaldlega komin á bólakaf í verðbólgu og víxlverkanir síðustu aldar. Þá hugsar hver um sig og hækkar sitt með tilvísun til hinna þar til verðlag og skuldir hafa hækkað svo að launafólk þarf að rétta hlut sinn með kauphækkunum sem aftur auka kostnað og leiða til hækkana o.s.frv.

Strax

Á þeirri hringavitleysu tapa allir. Fyrir 20 árum komumst við útúr slíku ástandi en það var í lokaðra hagkerfi en nú er. Þá tóku allir höndum saman í Þjóðarsáttinni og launafólk lagði verulega á sig til að ná fram stöðugleika og í nýgerðum kjarasamningum stóð ekki á verkalýðshreyfingunni. Þeir kjarasamningar voru virðingarverð tilraun til að ná stöðugleika og tryggja kjarabætur til hinna lægst launuðu. Það sem síðan hefur gerst og virðist yfirvofandi í verðhækkunum kallar á nýja þjóðarsátt. Og nú er það ekki launafólkið heldur atvinnulífið sem halda verður aftur af hækkunarkröfum sínum. Þar verður ríkisstjórnin auðvitað líka að koma að með þeim aðgerðum sem á hennar færi eru, s.s. auka fjármálastöðugleika, lækka tolla, halda uppi framkvæmdastigi, o.s.frv. Mikilvægt er að slík samstaða náist áður en víxlhækkanir hefjast fyrir alvöru því þá eru þær illviðráðanlegar.  En til þess að það megi takast verða allir að vera með og axla ábyrgð á viðsjárverðum tímum í stað þess að senda neytendum bara reikninginn.