Frelsi til sjálfsbjargar

blog

Sómi okkar jafnaðarmanna í Samfylkingunni, sverð og skjöldur, Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra mælti í vikunni fyrir enn einu framfaramálinu á Alþingi. Hér er um að ræða afgerandi hækkun á svokölluðu frítekjumarki örorkulífeyristaka, eða upp í eitthundrað þúsund krónur á mánuði. Frítekjumark er sú upphæð sem öryrki má hafa í tekjur án þess að tekjurnar fari að skerða lífeyrisgreiðslur hans frá tryggingastofnun. Með þessu frumvarpi erum við að stíga enn eitt skref til þess að uppfylla kosningaloforð okkar við öryrkja.

Það er furðulegt til þess að hugsa nú hve langt hefur verið gengið í tekjutengingum gagnvart lífeyrishöfum, bæði öryrkjum og öldruðum. Eitt af því sérkennilegasta í þeim tekjutengingafrumskógi öllum hefur verið sú hugmynd að refsa þeim grimmilega sem orðið hafa fyrir örorku fyrir að vinna. Enda hafa báðir stjórnarflokkarnir haft það á stefnuskrá sinni um árabil að létta tekjutengingarnar, þó það sé fyrst nú að komast verulega til framkvæmda 1. apríl sl. og 1. júlí nk. Og fjárhæð frítekjumarksins er sambærileg við ítrustu kröfur stjórnarandstöðunnar á síðasta kjörtímabili og mun bæta kjör fjölda fólks verulega.

Sóun á öryrkjaauðnum

Hver maður sér hve óskynsamlegt það hefur verið að letja öryrkja til vinnu. Í fyrsta lagi er greiddur skattur af tekjunum og ríkið hefur því haft beinan ávinning af tekjuöflun öryrkja án þess að nota tekjurnar sem tilefni til að skerða bætur. Í öðru lagi er sérstaklega mikilvægt að hvetja öryrkja til aukinnar atvinnuþátttöku þar sem hún getur beinlínis haft jákvæð áhrif á heilsufar fólks. Í þriðja lagi er vinnan leið til að rjúfa félagslega einangrun sem oft er fylgifiskur örorku sem eykur vandann og dregur úr lífsgæðum.

Við höfum uppskorið eins og við höfum sáð. Á hinum Norðurlöndunum er atvinnuþátttaka öryrkja helmingi meiri en hér og hefur þar þó ekki verið jafn gott atvinnuástand. Meðan hér er aðeins um þriðjungur öryrkja í einhverri vinnu er það yfir helmingur í grannlöndunum. Þannig höfum við með því að vanrækja endurhæfingu og með tekjutengingunum sóað þeim mannauði sem öryrkjar eru. Það er þess vegna líka fagnaðarefni að í nýgerðum kjarasamningum voru tekin mikilvæg skref til að efla starfsendurhæfingu og annan stuðning við fólk á vinnumarkaði sem misst hefur starfsorku. Ef við getum með markvissum aðgerðum hjálpað fleirum út á vinnumarkaðinn aukast lífsgæði mjög margra verulega.

Skipulögð fátækt

Óhóflegar tekjutengingar skemmdu mikið fyrir annars ágætu almannatryggingakerfi. Með þeim vék nefnilega hugmyndin um almannatryggingar sem styðja áttu fólk til sjálfshjálpar, fyrir þeirri hugsun að allir yrðu að vera jafn fátækir í kerfinu. Það var þannig orðið að skipulagðri fátækt engum til ávinnings. Því er fagnaðarefni að tekjutengingar vegna lífeyrisgreiðslna hafa verið minnkaðar. Líka að horfið hafi verið frá því að refsa fólki fyrir séreignasparnað en það segir nú allt sem segja þarf um vitleysuna sem viðgekkst að fólki var skipulega refsað fyrir að spara. Þá er ónefnt það mikla mannréttindamál sem afnám tenginga við tekjur maka var. Þá kemur fyrirhuguð hækkun skattleysismarka ekki síst þessum hópum til góða.

En þó margt hafi þegar áunnist  má ekki slá slöku við. Verðlag hækkar mikið og nýlega hafa hinir lægst launuðu fengið talsverðar kjarabætur. Mikilvægt er að lífeyrishafar fái sambærilegar hækkanir, enda áríðandi að aldrei dragi aftur í sundur með þeim lægst launuðu og öldruðum og öryrkjum, eins og gerðist á tryggingavakt Framsóknarflokksins. Það verður því spennandi að fá tillögur að breyttu og bættu almannatryggingakerfi síðar í sumar og mikilvægt að það takist sátt um fyrirkomulagið eftir þær jákvæðu breytingar sem gerðar hafa verið síðustu mánuði.

Pistillinn birtist í 24 stundum 10. maí