Fjárskjálftar skekja heiminn

blog

Tvísýna er meiri í efnahagsmálum veraldarinnar en í áratugi. Þrátt fyrir öfundsverð lífskjör flestra Íslendinga setur að okkur ugg. Íslendingar hafa á undanförnum árum sótt lánsfé á góðum kjörum á alþjóðamarkaði og fjárfest í fyrirtækjum og fasteignum. Nú hefur hvorutveggja gerst að verðmat fasteigna og fyrirtækja hefur lækkað en lánskjör versnað og lausafjárskorts verður vart.

Þá ríður á að við séum vel búin. Því eru mikilvægir þeir mörgu áfangar sem forsætisráðherra gerði góða grein fyrir á septemberþinginu. Þegar nú skriður er kominn á viðbúnaðinn er mikilvægt að hreyfa sig hratt svo ekki skelli á okkur brotsjór ef bætir í mótvindinn.

Hér verða í tveimur greinum reifaðar nokkrar hugmyndir um það sem gera má til viðbótar því sem þegar hefur verið gert. Þær áherslur og tillögur eru ekki stefna Samfylkingar eða ríkisstjórnar heldur settar fram til hugleiðingar og til að örva þá mikilvægu umræðu sem nú fer fram.

Einkarekstur í orkuframleiðslu

Forsætisráðherra hefur nýlega lýst stöðu mála þannig: „…svo hafa orðið þvílíkar hræringar á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum sem hafa stoppað erlent gjaldeyrisflæði inn í landið…“ (RÚV 14.9 sl.) Við þær aðstæður er það sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að grípa þegar til aðgerða sem skapa áhugaverða fjárfestingarkosti í landinu og geta orðið mikilvægt framlag til eflingar varasjóðs okkar.

Sóknarfæri gætu t.a.m. verið í því að selja einkaaðilum Kárahnjúkavirkjun og fleiri virkjanir í eigu hins opinbera. Það væri ekki varanlegt framsal heldur rekstur Kárahnjúka seldur á leigu með samningum við Alcoa til 40 ára og aðrar virkjanir til 20-30 ára eftir atvikum en þá fengi ríkið þær að nýju til rekstrar eða endurútboðs. Líkanið að þessu er að finna í því samkomulagi sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylking náðu í orkumálum sl. vetur, sem undirstrikar það áhersluatriði jafnaðarmanna að auðlindirnar séu í almannaeign en opnar fyrir einkarekstur virkjananna sjálfra.

Landsvirkjun ræki eftir sem áður nægilega margar virkjanir til að framleiða fyrir fólk og fyrirtæki í landinu önnur en stóriðju. Þannig væru almannahagsmunir tryggðir um leið og ríkið hætti að reka orkuframleiðslu fyrir alþjóðleg málmfyrirtæki, enda standa engin rök til þess að ríkið reki slíka þjónustu við stóriðju.

Sala virkjana með þessum hætti getur orðið hvati til frekari framrásar í orkuiðnaði og útrás með tilkomu nýrra fjárfesta og fyrirtækja. En fyrst og fremst gæti hún losað um verulega fjármuni og dregið að erlenda fjárfestingu, hún er okkur nú mjög mikilvæg. Þá er álverð með hæsta móti og ætti það að stuðla að því að gott verð fáist fyrir reksturinn. Auðvitað þarfnast slík tillaga skoðunar, m.a. hugsanleg áhrif á kjör Landsvirkjunar að öðru leyti en efnahagur hennar rýrnar ekki við þetta. Séu tæknilegar hindranir í vegi eða skortur á pólitískum vilja mætti að hluta ná þessum markmiðum með veðsetningu.

Sjóðurinn handa komandi kynslóðum

Til að ná pólitískri sátt um sölu virkjana væri mikilvægt að ráðast jafnhliða í stofnun nokkurskonar auðlindasjóðs, eins og við jafnaðarmenn höfum lengi talað fyrir, svipuðum því sem hjá Norðmönnum heitir Olíusjóður en austur í Arabíu heitir svo skáldlega „Sjóðurinn handa komandi kynslóðum“. Ef við erum sammála um að höfuðverkefni dagsins sé að tryggja fjármálalegan stöðugleika er nú rétti tíminn til að hrinda þeim hugmyndum í framkvæmd. Þrátt fyrir ýmislega gagnrýni alþjóðlegra greinenda á Ísland eru flestir sammála um að langtímahorfur séu hér öfundsverðar. Með auðlindasjóði myndum við raungera þær væntingar að hluta með því að skilgreina þau verðmæti í sjóði.

Í auðlindasjóði yrði með lögum gert að ævarandi eign Íslendinga svipað og Þingvellir, olíuréttur í íslenskri lögsögu, vatns- og jarðhitaréttindi sem nýta má, fjarskiptarásir, námuréttindi í ríkiseigu og rétturinn til nýtingar fiskistofnanna við landið og hverjar aðrar þær auðlindir sem eru sameign okkar. Til greina kæmu einnig þjóðlendur og þjóðjarðir m.m. sem þar gæti átt samleið eðli máls samkvæmt.

Auðvelt ætti að vera að ná saman um að leggja aðrar auðlindir en fiskinn í auðlindasjóð. Það ætti þó að vera einfalt að byrja hér á ókvótasettum tegundum og byggðakvótanum en hvorutveggja eru umtalsverð skref. Verkefnið í kvótamálum er ekki lengur að reyna að ná kvótanum af þeim sem fengu hann gefins, enda hafa flestir sem nú eiga kvóta þurft að greiða fyrir hann. Verkefnið er mæta sjónarmiðum mannréttindanefndar Sþ og að búa svo um hnútana að eftir hálfa öld verði fiskurinn í sjónum ekki einkaeign arabískra olíufursta eða annarra framandi fjárfesta sem enga hagsmuni hafa af sterku samfélagi á Íslandi.

Sjóðurinn væri ekki gjaldeyrisvarasjóður, einsog þjóðarsjóðurinn sem Björgólfur Guðmundsson kallaði eftir, heldur kynslóðasjóður er færir auðlegð milli kynslóða. M.a. vegna þess að hluti auðlindanna er óendurnýjanlegur og annan hluta verður e.t.v. aðeins hagkvæmt að nýta í nokkrar kynslóðir. Hann gegndi því hagfræðilega hlutverki að gera arðsemiskröfu til auðlindanýtingar en á það hefur skort hjá okkur. Eftir því sem honum yxi fiskur um hrygg opnaðist tækifæri til að fela honum tiltekin verkefni sem launafólk þyrfti þá ekki lengur að fjármagna með skattgreiðslum. Þó hann væri ekki eiginlegur varasjóður gæti hann verið mikilvægur hluti þeirrar heildarmyndar af íslensku efnahagslífi sem er til þess fallin að skapa traust og trúverðugleika.

Stóriðjuumræðan

Orku- og stóriðjuumræðan einkennist nokkuð af yfirboðum og óraunsæjum væntingum. Það er sjálfsagt að nýta orkuauðlindir okkar en að líkja þeim við olíu er barnaskapur. Þannig kostar lítri af heitu vatni fimm aura en lítri af olíu þúsund sinnum meira. Raforkuverð hefur ekki tekið neinum viðlíka hækkunum og olíuverð og þó mikið sé rætt um eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku þá er hún ekki einhlít. Þannig hefur stórum virkjunum slegið út vegna bilana um langan tíma án þess að nokkur áhrif hafi haft en það afhjúpar óselda umframorku í kerfinu. Þá er nær áratugur síðan Landsvirkjun tók grunn að stöðvarhúsi við Búðarháls og hefur öll leyfi þar en engan kaupanda að orkunni fyrr en kannski nú. Virkjanir eru ágætar fjárfestingar sem krefjast mikillar fjárbindingar er skila hóflegum en nokkuð tryggum vöxtum á löngum tíma. En þær eru ekki gull sem ástæða er til að fórna umtalsverðum náttúrugæðum fyrir né stöðugleika í efnahagslífi.

Kannaðir eru nú möguleikar á byggingu tveggja nýrra álvera, í Helguvík og á Bakka. Þau verkefni voru komin af stað þegar Samfylkingin settist í ríkisstjórn og þó verulegra efasemda gæti í okkar röðum, einkum varðandi Helguvík þá verður þessi undirbúningur ekki stöðvaður. Allt tal um að fleiri slík stóriðjuverkefni séu það sem við þurfum í lausafjárkreppunni er tilhæfulaust. Slík verkefni yrðu aldrei að veruleika fyrr en á síðari hluta næsta áratugar og hefðu harla lítil áhrif til lausnar á viðfangsefnum okkar nú.

Áhugaverð eru hinsvegar ýmis smærri og einfaldari verkefni sem ráðast má í á næstu árum og stranda t.d. ekki á óvissunni í loftslagsmálum vegna þess að loftlagsmengun þeirra er lítil. Gagnaver, kísilvinnsla o.fl. eru dæmi um þetta. Nú er unnið að rammaáætlun um friðun og nýtingu náttúru Íslands sem verður tilbúin 2010 en enn er óvíst að sátt takist um niðurstöður hennar. Fyrr verður ekki virkjað á nýjum svæðum.

Friðlýsing miðhálendis – virkjun orkulinda

Ef talið væri nauðsynlegt og mögulegt að nýta í umtalsverðum mæli virkjun orkulinda sem viðbragð við núverandi stöðu þyrfti fyrst að skapa orkuiðnaðinum leikreglur og helst strax að ná sátt í aðalatriðum um hvað við viljum friða og hvað við viljum nýta. Ég minni í því sambandi á eldri hugmyndir mínar um friðun miðhálendis Íslands. Þær fela í sér að við ákveðum að friðlýsa sem heild hálendið, 40 þúsund ferkílómetra, og nýta til annars en iðnaðar. Hinsvegar tækjum við þá meginafstöðu að utan þess svæðis megi, með nokkrum undantekningum (Brennisteinsfjöll, Urriðafoss o.fl.), ráðast í virkjanir enda sé umhverfisáhrifum þeirra haldið í lágmarki og farið að kröfum Skipulagsstofnunar um mótvægisaðgerðir. Þar með hefðu náttúruverndarsjónarmið náð gríðarlegum árangri um leið og helstu háhitasvæði á suðvestur- og norðausturlandi væru nýtt til orkuöflunar. Sú nálgun er auðvitað ekki eins fagleg og nákvæm og rammaáætlun en speglar það sjónarmið flestra Íslendinga að mikilvægt sé að vernda helstu náttúruperlur en nýta orkulindir jafnframt. Þá verður að telja líklegt að þær meginlínur sem hér eru dregnar verði niðurstaða rammaáætlunar í aðalatriðum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. september

 

Tímar mikilla tækifæra

Í þeim þrengingum sem nú einkenna efnahags- og fjármálakerfi landsins þarf að skilja að fullu við þá afstöðu að „við höfum samt rétt fyrir okkur“ og þetta sé ímyndarvandi og ranghugmyndir útlendinga.

Réttilega hafa margir sett fram efasemdir um peningamálastefnuna sem fylgt hefur verið frá 2001, hennar háu vexti og gengissveiflur. Sú tilraun hefur a.m.k. ekki skilað tilætluðum árangri; verðtryggingarkerfið dregur úr áhrifum stýrivaxta, áhrif gengis á kaupgleði Íslendinga eru trúlega vanmetin, e.t.v. hófst hækkun stýrivaxta of seint, lækkun bindiskyldu misráðin o.s.frv. Oft er gagnrýnin hinsvegar ábyrgðarlaus svo sem í upphrópunum um tafarlausa lækkun vaxta. Það kann að vera til vinsælda fallið, enda almenningur langþreyttur á sveiflum og vaxtaokri. Þegar vandinn er lausafjárskortur og verðbólga 15% er svarið augljóslega ekki vaxtalækkun. Hitt er mikilvægt að um leið og aðstæður skapast til vaxtalækkana verði það nýtt þá þegar og þeim aðstæðum viðhaldið svo lækka megi vexti hratt.

Þetta er afleiðing ofþenslu og þeirrar framsóknarmennsku að ætla að gera allt fyrir alla strax. En nú er ekki tíminn til að guggna því tímabundinn samdráttur er barnaleikur hjá viðvarandi verðbólgu.

Viðvarandi útþensla ríkisútgjalda, ótæpilegar skattalækkanir og yfirboð Íbúðalánasjóðs spilltu allri viðleitni Seðlabankans og gerðu framkvæmd stefnunnar illmögulega. Nú ríður á að samkvæmni gæti með Seðlabanka og ríkisstjórn um túlkun ástandsins og nauðsynlegar aðgerðir, því ef þessir burðarásar hagstjórnar eru ekki á einu máli hvernig á þá umheimurinn að hafa traust á landinu? Þá þarf að efla faglegan trúverðugleika bankans, með því að leggja af bankaráðið, bæta gagnaöflun og úrvinnslu, láta bankastjórn rökstyðja stefnu sína opinberlega o.s.frv.

Hlutabréfin heim?

Forysta atvinnurekenda og launafólks hefur haft uppi mikla gagnrýni um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Það er athyglisvert þegar haft er í huga að lífeyrissjóðir undir þeirra forystu geyma hundruð milljarða erlendis. Ýmsir hafa bent á að nú ætti að losa þær fjárfestingar sem hagfellt er að losa og flytja heim. Enda ætti að vera sjóðunum hagstætt að flytja eignir heim með krónuna svo veika en í þeirri mynt eiga þeir síðar að greiða lífeyri.

Því verður þó að sýna skilning að verð erlendra eigna hefur lækkað og því margt sem ekki væri skynsamlegt að selja nú. Ennfremur er sú áhættudreifing sem í erlendum eignum lífeyrissjóðanna felst ákjósanleg. Því væri hitt trúlega miklu farsælla að lífeyrissjóðirnir beittu erlendum eignum sínum til að afla erlends lausafjár í arðbærar fjárfestingar á Íslandi en urmull slíkra tækifæra mun opnast á næstunni. Þannig mætti allt í senn halda hinum erlendu eignum, láta þær vinna og stuðla að stöðugleika á íslandi. Talsmenn vinnumarkaðarins þurfa að gera grein fyrir því hvernig best sé að nýta afl lífeyrissjóðanna við núverandi aðstæður.  

Hlutverk banka

Mestar kröfur eigum við þó, einsog aðrar þjóðir, að gera til bankanna. Kostir virðast því samfara að dreifa áhættu þannig að saman fari eignarhald viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Nauðsynlegt er þó að gera allt aðrar kröfur til fjárfestingaþáttarins en viðskiptabankastarfseminnar um eiginfjárhlutfall o.fl. Rekstrarlegur aðskilnaður þessara þátta gæfi yfirvöldum færi á því að verja skilyrðislaust viðskiptabankastarfsemina en vega meira og meta fjárfestingabankana einsog bandarísk og bresk yfirvöld hafa gert.

Við viljum byggja upp þjónustusamfélag með þeim sterka fjármálageira sem það krefst. Þannig sköpum við áhugaverð störf og lífskjör fyrir komandi kynslóðir. Til þess þurfum við til skamms tíma að skapa krónunni mun sterkari varasjóð. Hitt er líklegt að til lengri tíma rýrni hagnaður fjármálafyrirtækja og þau muni ekki geta greitt kostnað við slíkan varasjóð. Því sé einboðið að taka upp evru, vilji menn ekki afturhvarf til framleiðslusamfélagsins.            

Það verður að gera þá kröfu á næstu misserum að bankarnir sýni ábyrgð gagnvart fólki m.a. með því að afleggja ábyrgðamannakerfið og innleiða greiðsluaðlögum til að koma í veg fyrir keðjuverkun greiðsluerfiðleika. Við þurfum líka að læra af lausunginni á uppgangstímunum og skerpa aðhald og eftirlit með fjármálamarkaðinum.   

Afnám tolla og stimpilgjalda

Veislugleði í útgjöldum ríkis og sveitarfélaga á þensluskeiðinu var óhófleg. Þörf er á aga í opinberum fjármálum og aðhaldi, m.a. með beitingu viðurlaga við brotum á fjárlögum. Þá er mikilvægt að sameina sveitarfélög og setja skorður við hallarekstri þeirra en skipulagsskortur olli nokkru um offjárfestingu á húsnæðismarkaði. Allar spár segja ríkissjóð með halla á komandi ári. Mikilvægt er að til lengri tíma sé aðhaldsstig fjárlaga aukið og rekstrarafgangi náð með aðgerðum, jafnt til að minnka útgjöld og auka tekjur.

Samdráttarskeiðið framundan verður einkum í og við höfuðborgina og mikilvægt að versnandi hagur ríkissjóðs dragi ekki úr framkvæmdum þar. Líklega verður að taka á næstu árum erfiðar ákvarðanir, jafnvel um hækkun gjalda og skatta, þó eru tilteknar álögur sem vert væri að lækka nú. Afnám stimpilgjalda hófst í sumar en rétt væri að afnema þau með öllu tafarlaust. Einnig þarf að lækka innflutningsálögur á matvörur en það leiðir til lítils tekjutaps miðað við þau miklu áhrif sem það hefði á matarverð í landinu. Í verðbólgu eins og nú er sérlega brýnt að leita leiða til að létta útgjöld til nauðþurfta sem koma hinum efnaminnstu best.  

Félagslegur stöðugleiki

Mikilvægt er að huga sérstaklega að hinum tekjulægri, öryrkjum og ellilífeyrisþegum, og að því að efla almennan sparnað í landinu. Félagslegur stöðugleiki er nefnilega til langframa forsenda fyrir efnahagslegum stöðugleika. Sá félagslegi og fjárhagslegi styrkur sem við nú sækjum í lífeyrissjóðakerfið okkar á að vera okkur hvatning til að styrkja enn frekar sparnað svo sem húsnæði og séreignarlífeyri. Mikilvægt væri að gera meðal- og lágtekjufólki kleift að taka þátt í hinu síðarnefnda í auknu mæli. Hinir betur settu þurfa einnig að leggja að mörkum til félagslegs stöðuleika og nauðsynlegt er fyrir fjármálastöðugleika að atvinnulífið taki fyrir ofurlaunasamninga. Hitt er hneisa fyrir stjórnmálaforystuna að hún hafi ekki einfaldlega getað afnumið eftirlaunalögin frá 2003.

Þjóðin á að velja

Í bráðlæti okkar níðum við jafnaðarmenn stundum niður íslensku krónuna ógrundað. Staðreyndin er sú að krónan reyndist okkur stundum vel við að skapa hér eftirsóknarverð lífskjör og byggja upp sjávarútveg og stóriðju meðan fjármagnshreyfingar voru ófrjálsar og gjaldeyrismarkaðir miklum takmörkunum háðir milli landa. Þetta er horfinn heimur. Í opnu alþjóðlegu hagkerfi nútímans má hins vegar efast um að hún dugi. Margt bendir til að þó krónan hafi þjónað gærdeginum, mæti evran margfalt betur væntingum okkar um morgundaginn, hvort sem er á sviði verslunarfrelsis, matvöruverðs, vaxtastigs eða atvinnuþróunar. Jafnframt því sem ríkisstjórnin vinnur að því að ná hér stöðugleikaskilyrðunum fyrir inngöngu í evrópska myntsamstarfið er nauðsynlegt að hefja hið fyrsta pólitíska ferlið sem leitt getur til inngöngu í ESB. Ekki eru líkur til að aðrir stjórnmálaflokkar en Samfylkingin geti sameinað fylgismenn sína um að sækja eigi um. En þótt hina flokkana skorti pólitískt þrek í stærsta hagsmunamáli samtímans, þarf  Ísland að taka afstöðu. Það er því brýnt að stjórnarflokkarnir  nái saman um að gefa þjóðinni færi á því að greiða atkvæði um hvort sækja eigi um aðild.

Því miður hafa einfeldningslegar hugmyndir um upptöku evru án aðildar að ESB tafið umræðuna. Sú hugmynd gengur út á að Evrópa láni okkur myntina sína og seðlabankann sinn sem bakhjarl Íslands og þar með íslensku bankanna svo þeir geti svo haldið áfram að keppa hraustlega um hærri innlánsvexti og ýmis fjárfestingartækifæri við evrópsku bankana. En við viljum samt ekki verða hluti af sambandi þessara landa sem við viljum að hjálpi okkur við að keppa við sig. Órar af þessu tagi eru auðvitað bara tímasóun, því annaðhvort göngum við í ESB eða spjörum okkur án þeirra aðstoðar í samkeppni þjóðanna. Það er ekki bæði hægt að eiga kökuna og éta hana, jafnvel þó við séum Íslendingar. Það er rangt að aðildarumsókn gagnist ekki í vanda dagsins. Hún leysir hann ekki en er mikilvægur hluti þess trúverðugleika sem við verðum að efla. Nú þegar hjarðhegðun markaðarins er í hámarki er mikilvægt að stefna okkar verði skýr og aðgerðir ákveðnar. Umbrotatímar í efnahagsmálum eru jafnan tímar mikilla tækifæra. Grípum þau.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. september