Orðsending til jafnaðarmanna

blog

Kæri félagi!

Framundan eru krefjandi tímar við endurreisn íslensks samfélags eftir hrunið 6. október. Um leið og við í Samfylkingunni þurfum að biðjast afsökunar á okkar hlut í því og axla ábyrgð, verðum við að rækja skyldu okkar með því að taka forystu í uppbyggingunni. Við höfum nú tækifæri til að virkja þúsundir manna til þátttöku í henni, fólk sem vaknað hefur til vitundar um mikilvægi réttlátra leikreglna og siðferðis í samfélaginu.

Okkur gefst nú kostur á að leggja nýjan og traustan samfélagsgrunn, líkt og jafnaðarmönnum á Norðurlöndunum gafst á fyrri hluta síðustu aldar. Sá grunnur felst senn í gildum sígildrar jafnaðarstefnu og kröfu dagsins um sjálfbæra þróun. Það er búið að tala nóg um erfiðleikana framundan, nú þurfum við að vísa veginn og byggja upp.

Við eigum að jafna kjörin til að mæta samdrættinum, því það er gríðarlega mikilvægt til sátta í samfélaginu að byrðunum verði réttlátlega skipt. Markmiðum okkar um opið og lýðræðislegt þjóðfélag getum við náð því krafan nú er um aðgang að upplýsingum og áhrif fólks á ákvarðanir. Áherslur okkar á mikilvægi menntunar getum við sýnt í verki með því að galopna skólakerfið meðan við byggjum upp störf í stað þeirra sem glatast hafa. Nýr forseti Bandaríkjanna er meðal þeirra sem bent hafa á þau miklu atvinnutækifæri sem felast í umhverfismálum og endurnýjanlegri orku og þar búum við Íslendingar vel.

Á ögurstundu í lífi þjóðar er það skylda forystumanna hennar að kanna til þrautar þá kosti sem bjóðast. Þess vegna á Samfylkingin að sameina stjórnmálaflokkana um að lyfta aðildarumsókn að ESB yfir pólitískt argaþras, láta reyna á hvaða samningar nást og leggja þá í dóm þjóðarinnar.

Ég þakka fyrir þau forréttindi að vera kjörinn eins talsmanna jafnaðarmanna á Alþingi. Ég fagna því að Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið fengin til að leiða okkur og vona að framganga mín gefi þér tilefni til að fela mér að vinna að framtíðinni með henni. Þess vegna sækist ég eftir 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í öðru Reykjavíkurkjördæmanna og bið um stuðning þinn.