Bann við mismunun gegn fötluðum verði sérstaklega tryggt í stjórnarskrá

blog

Þegar mannréttindaákvæðum var bætt inn í stjórnarskrána 1995, náðist því miður ekki samstaða um að tilgreina fötlun sérstaklega sem þátt sem óheimilt væri að byggja mismunun á. Í 65. grein stjórnarskrárinnar kemur fram að allir skuli „vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“. Upptalningin í 65. greininni tekur að miklu leyti mið af orðalagi í alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að. Má þar nefna alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og mannréttindasáttmála Evrópu.

Frá því að mannréttindaákvæðunum var bætt inn í stjórnarskrána hefur komið fram samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland undirritaði samninginn í mars 2007 og er nú unnið að fullgildingu hans. Markmið samningsins er að útfæra jafnræðisregluna með ítarlegri hætti en áður hefur verið gert í tengslum við fatlað fólk en það er hópur sem sérstök hætta þykir á að geti sætt mismunun. Af þessum sökum er það sjálfsagt og eðlilegt að fötlun verði bætt við upptalninguna í 65. greininni. Ég hef því ásamt þingmönnunum Atla Gíslasyni, Birki Jóni Jónssyni, Ármanni Kr. Ólafssyni og Grétari Mar Jónssyni lagt fram breytingartillögu þess efnis við stjórnarskrárfrumvarpið sem nú er til meðferðar hjá stjórnarskrárnefnd. Það er von mín að þetta hagsmunamál nái fram að ganga, nú við endurskoðun stjórnarskrárinnar.