Til stjórnenda fjármálafyrirtækja

blog

Eftirfarandi bréf sendi ég í dag til stjórnenda fjármálafyrirtækja:

Í tilefni af dómi Hæstaréttar Íslands fimmtudaginn 18. október sl. í máli Arion banka gegn Borgarbyggð og að höfðu samráði við sérfræðinga tel ég rétt að koma á framfæri nokkrum sjónarmiðum. Það geri ég vegna þess að um afstöðu mína hefur verið spurt og í ljósi þeirrar eftirlitsskyldu sem þingmönnum ber
að hafa í huga í sínum störfum:

 Ekkert er því til fyrirstöðu að hefja endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu, sbr. þorra lána í F flokki gengislána skv. skilgreiningum FME, sem voru í íslenskum krónum að öllu leyti.

 Einboðið er að endurreikna skuli öll lán sem voru með ólögmætri gengistryggingu, greitt var af og festa var komin á í framkvæmd. Hvort „festa í framkvæmd“ er þrjár greiddar afborganir eða fleiri verða fjármálafyrirtæki sjálf að leggja mat á, en ljóst má vera að ekki þurfi 17 greiddar afborganir til að festa komist á framkvæmd. Við þetta mat hljóta fjármálafyrirtæki að hafa í huga hve óheppilegt það væri ef réttur viðskiptavina þeirra yrði í slíku mati enn vanmetinn.

 Þá er óhjákvæmilegt að staðið verði við yfirlýsingar um að viðskiptavinir glötuðu ekki réttindum með samningum þannig að þeir njóti sambærilegra endurútreikninga og ef greitt hefði verið.

 Ég hvet til þess að fyrri eigendum eigna sem fjármálafyrirtæki eða félög þeim tengd hafa enn umráð yfir og hafa verið teknar af eigendum sínum á uppboðum eða í skiptameðferð sem orsakast hefur að hluta eða í heild af ólögmætri gengistryggingu verði boðið að slíkir gjörningar gangi til baka að uppfylltum skilyrðum.

 Ekki eru gerðar athugasemdir við að reyna þurfi á fyrir dómstólum stöðu fyrirtækja með sérþekkingu á fjármálasviði, eða einstaka skammtíma fyrirgreiðslu sem varðað getur mikla hagsmuni. Þá er og ljóst að enn á eftir að fá dómsniðurstöðu um þá sem hvorki greiddu né sömdu. Þá eru ekki öll gengislán með ólögmætri gengistryggingu og enn á eftir að reyna á ýmis ákvæði neytendaréttar. En þetta á ekki að varna endurútreikningum hjá þorra almennings og venjulegum fyrirtækjum. Mikil undirbúningsvinna var unnin við síðustu endurútreikninga með flokkun lána og tölvuskráningu. Er eindregið hvatt til þess að endurútreikningum verði lokið um áramót svo gera megi upp skattárið og ársreikninga fyrirtækja á réttum grunni, sé þess nokkur kostur.

Ólögmæt gengistrygging lána er ein samfelld hörmungasaga sem skaðað hefur fólk, fyrirtæki og fjármálakerfið varanlega. Ítrekað hefur verið gengið of langt gagnvart fólki og fyrirtækjum í kröfugerð og aðförum. Í því ljósi verður nú að krefjast þess af fjármálafyrirtækjum að þau fari fram af hófsemi gagnvart viðskiptavinum sínum, hraði endurútreikningum og gæti ítrustu varúðar við innheimtu lána sem réttaróvissa ríkir um og leggi sig fram við að flýta úrlausn þeirra álitaefna sem út af standa.