Verðtryggingarvitleysan

blog

Það er skrýtið að sumir einlægir Evrópusinnar taki að sér málsvörn fyrir hina séríslensku verðtryggingu og verða fyrir vikið eins og talsmenn þess vaxtaokurs sem hún er hluti af og einkennir íslensku krónuna. Þó erum það einmitt við Evrópusinnarnir sem berjumst fyrir raunverulegri framtíðarlausn til að lækka hér vexti verulega. Skilaboð mín til Samfylkingarfólks í þessu efni eru skýr. Við verðum að hætta að halda því fram að allt verði áfram og óhjákvæmilega dýrt og ósanngjarnt þangað til við fáum evruna. Við verðum að breyta stefnu okkar afdráttarlaust, ráðast að vaxtaokri og hafa svör við því hvað við ætlum að gera í peningamálum þangað til evran kemur. Við eigum að skilja sundur fjárfestingar- og viðskiptabanka, brjóta upp fákeppni, draga úr kostnaði og greiða fyrir samkeppni, auka aðhald með því að minnka vægi verðtryggingar, setja skorður við þjónustugjöldum o.fl. o.fl. Því þó við höfum eygt von um hraða inngöngu í annað myntsvæði í neyðarástandinu 2008 þá er nú ljóst að það mun taka tíma að komast í evruna. Þangað til þurfum við að hafa pólitík í stað þeirrar nauðhyggju að ekkert verði að gert þangað til.

Stefna Samfylkingarinnar

Þegar við Sigríður Ingibjörg lögðum nýlega fram frumvarp um afnám verðtryggingar neytendalána létu sumir eins og stefna Samfylkingarinnar hefði alltaf verið um verðtryggingu sem „valkost“ og einhugur væri um það í flokknum. Staðreyndin er þvert á móti sú að þetta sjónarmið er nýtilkomið og engin eining um það. Jóhanna Sigurðardóttir sagði verðtryggingu stríð á hendur í frægri grein 1996. Á fyrstu árum Samfylkingarinnar, í formannstíð Össurar Skarphéðinssonar, var tekið af skarið í þessum málum þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mælti fyrir afnámi verðtryggingar fjárskuldbindinga í hinni frægu Borgarnesræðu 2003. Þessi stefna var síðar umorðuð í „að draga úr vægi verðtryggingar“, til að rúma bæði sjónarmið um bann og valkost, þegar við töldum evruna í sjónmáli. Það er svo ekki fyrr en frá 2013 sem ég finn talað um verðtryggingu sem valkost. Á öllum að vera ljóst að um þá stefnu verður aldrei víðtæk samstaða og að full ástæða er til að endurskoða þær stefnubreytingar sem ráðist var í fyrir síðustu kosningar.

Dýrasta kerfið er ekki best

Eitt það skemmtilegasta við pólitíska umræðu er að spyrja sig um gildi fullyrðinga og sannindi staðhæfinga. „Það er ekki verðtryggingin heldur verðbólgan sem er vandamálið“ er gamalkunn setning úr þessari umræðu. En sú staðhæfing verður dálítið skrýtin þegar lítil sem engin verðbólga hefur verið í fimm ár samfleytt og vextirnir samt himinháir. Þá eigum við kannski að spyrja okkur hvort verðtryggingin sé orðin hluti af því að viðhalda hinu háa vaxtastigi.

Sérhagsmunaöfl sem tryggt hafa sér hæsta raunvaxtastig í okkar heimshluta hafa auðvitað framleitt margvísleg rök fyrir því að dýrasta kerfið sé í rauninni hagstæðast. Ein þeirra er t.d. að verðtryggð lán séu almennt hagstæðari en óverðtryggð vegna þess að án tryggingarinnar leggi fjárfestirinn áhættuálag á vextina. Hljómar skynsamlega en markaðurinn er ekki alltaf rökrétt skepna og skoðun Samfylkingarinnar hefur verið önnur í framkvæmd. Í stjórnartíð okkar, þegar við fórum með efnahagsmál og fjármálaráðuneytið, tók ríkissjóður þannig nær einvörðungu óverðtryggð lán. Því það var mat okkar og færustu sérfræðinga ríkisins að það væri hagstæðara. Samkvæmt Lánamálum ríkisins sparaði ríkissjóður sér á þessu 35 milljarða að núvirði á tímabilinu 2003-2014.

Ónýtt kerfi og valkostir

En af hverju er verið að amast við þessum verðtryggðu lánum til neytenda spyr fólk. Er ekki eðlilegt að hafa þennan valkost fyrir þá sem vilja? Um það frelsi gildir það sama og annað frelsi að svarið er já ef það frelsi er ekki á kostnað annarra. En nú hafa skattgreiðendur bæði þurft að kosta „leiðréttinguna“ og gjaldþrot Íbúðalánasjóðs. Það blasir þannig við að þetta kerfi hefur ekki gengið upp heldur haft í för með sér gríðarleg útgjöld fyrir skattgreiðendur. Þá þarf að endurskoða það. Það kemur ekki í veg fyrir að þeir sem hafa miklar tekjur eða eignir geti tekið verðtryggð fjárfestingarlán. En horfumst í augu við hið augljósa: að verðtryggð neytendalán til venjulegs launafólks með takmarkaðar tekjur og eignir geta leitt til mikils samfélagskostnaðar.

Um það að hafa verðtryggð neytendalán sem valkost má líka segja að það sé svipað og þegar Flugleiðir flaug eitt til og frá landinu og sagði við mann í lendingu: Þakka þér fyrir að velja Flugleiðir. Þeir sem ekki eiga eigið fé eða eru með tilskildar tekjur hafa í greiðslubyrði ekkert val heldur neyðast til að taka verðtryggðu lánin. Aðrir búa síðan við það að sökum fákeppni á fjármálamarkaði ráða bankarnir miklu um „valið“ bæði með verðlagningu og ráðgjöf eftir því sem bankanum hentar betur að velja hverju sinni.

Árni Páll sammála

Í umræðunni um verðtryggingarfrumvarpið kom í ljós að Árni Páll var miklu meira sammála okkur Sigríði en leit út fyrir í fyrstu. Í viðtali við Björn Inga í Eyjunni sagði hann á dögunum að taka hefði átt verðtrygginguna úr sambandi í hruninu. Hárrétt, hefði það haldið fyrir Hæstarétti, en þýðir um leið að það er þá engin verðtrygging. Það er einfaldlega ígildi afnáms hennar ef taka á hana úr sambandi alltaf þegar verðbólga fer yfir ákveðin mörk. Í raun er það veruleikinn eftir leiðréttinguna að hér eftir verður alltaf krafa á þingið um að grípa inn í þegar verðbólga geisar. Þess vegna m.a. virkar þetta kerfi ekki lengur. Vilji menn fara þessa leið að verðtryggingu er hinsvegar mikilvægt að segja strax hvenær taka eigi hana úr sambandi, eða hvaða þak menn vilja setja á þetta og fá fram hvort þeir eru að tala fyrir vaxtaþaki því það er auðvitað miklu róttækari breyting en að hætta verðtryggingu nýrra neytendalána. Óvissa um inngrip er vond bæði fyrir fólk og fjárfesta. En trygging sem er afnumin þegar tjón verða er auðvitað ekki trygging og það er marklaust að tala um kosti kerfis sem bara á að gilda þegar vel árar.

Popúlismi

En auðvitað er verðtrygging bara birtingarmynd og smáatriði í hinum stóra vanda sem vaxtaokur hins örsmáa íslenska fjármálamarkaðar er bæði fyrir heimili og fyrirtæki. Verkefni okkar er að berjast gegn því með öllum tiltækum ráðum og standa með fólki gegn fjármálakerfinu. Popúlismi er þetta stundum kallað með fyrirlitningu en varðstaða um peningakerfið aftur á móti kennd við raunsæi og varúð. Þá er rétt að benda á að þegar við Þórhildur vorum að kaupa okkar fyrstu íbúð fyrir um aldarfjórðungi voru vextir miklu hærri en nú er. Þeir sem þá töluðu fyrir vaxtalækkunum voru þá sem nú kallaðir popúlistar, en það var hægt að lækka vextina frá því sem þá var og brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála er að lækka þá frá því sem nú er. Þetta er einfaldlega stærsti munurinn á lífskjörum fólks og rekstrarskilyrðum fyrirtækja hér og í nágrannalöndunum.

Aðhald

Þegar við fórum í aðildarviðræðurnar við ESB sögðum við að tækjust ekki samningar og við yrðum með krónuna um sinn þyrftum við að bæta hana og m.a. bæta stýringu hennar svo örmyntinni væri ekki skipt í tvær, verðtryggða og óverðtryggða. Ýmsir hafa dregið það fram, m.a. seðlabankastjóri, hve sjálfstæð peningastefna verður í reynd takmörkuð við alþjóðavæðingu markaða. Í ritinu Jafnvægi og framfarir sem kom út fyrir kosningarnar 2007 segir Jón Sigurðsson líka: „Að auki er áhrifamáttur stýrivaxtanna hér á landi minni en í flestum löndum sem fylgja verðbólgumarkmiði við stjórn peningamála vegna útbreiddrar verðtryggingar á fjárskuldbindingum innanlands“. Hin takmörkuðu áhrif gefa okkur þeim mun ríkari ástæðu til að nýta þau stjórntæki sem við höfum. Ætli það sé ástæða fyrir því að þjóðir sem farnast betur í fjármálum fresta ekki vanda sjálfkrafa eins og verðtrygging gerir? Að þessi leið við að hámarka skuldsetningu og eignaverð er ekki mikið tekin þar sem menn kunna betur fótum sínum forráð? Að það sé ástæða fyrir því að menn hafi aðhald breytilegra vaxta víðar í hagkerfum sínum en við gerum? Getur verið að það sé eins um verðtryggingu og krónuna, að þó hún kunni að gagnast þegar í óefni er komið þá stuðli hún að því að óefnin verði?

Hagfræðin vanmetur stundum áhrif pólitíkurinnar. Reynsla mín og þekking á íslenskum stjórnmálum segir mér að hætt sé við því að stjórnmálamenn haldi áfram að lækka skatta og auka útgjöld á versta tíma á meðan afleiðingum þeirra ákvarðana, vaxtahækkuninni, er sjálfkrafa frestað. Það gerist þannig að í staðinn fyrir að næsta afborgun hjá okkur hækki mikið, þá bætast bara aftan á lánið verðbætur og við verðum þess vegna ekki vör við neikvæð áhrif óábyrgra pólitískra ákvarðana á þenslutíma. Í Seðlabankanum sitja svo vandaðir sérfræðingar í peningastefnunefndinni og kalla eftir auknu aðhaldi í ríkisfjármálum og skilja ekki hvers vegna pólitíkusarnir hlusta ekki á þeirra góðu ráðleggingar. Það eina sem þeir geta þá gert er að hækka stýrivextina meira. Þannig eykur verðtryggingin á þensluvandann og eykur sveiflurnar.

Húsnæðismál

Að banna verðtryggingu nýrra neytendalána kollvarpar engu á fjármálamarkaði því áfram gilda þeir samningar sem verið hafa og verðtrygging er notuð í viðskiptum, fjárfestingum, fjármögnun hins opinbera o.s.frv. Verðtryggingarjöfnuður bankanna er jákvæður um tæplega 300 milljarða og því gott svigrúm til breytinga. Ein af ástæðunum fyrir því að mikilvægt er að hverfa frá þessu fyrirkomulagi er að við þurfum að bjóða fólki aðra valkosti í húsnæðismálum en 100% verðtryggð, ævilöng hávaxtalán. Í dag bjóðast fólki með takmörkuð fjárráð bara annað hvort slík lán eða leigumarkaðurinn. Auðvitað eiga jafnaðarmenn að berjast með oddi og egg fyrir félagslegu eignaríbúðakerfi í ætt við verkamannabústaðakerfið og fleiri slíkum lausnum. Við Íslendingar þekkjum okkur sjálf og vitum að meðan í boði er skammtímalausn í húsnæðismálum eins og ævilöng verðtryggð hávaxtalán þá munum við ekki skapa þær lausnir sem þarf. Samhliða afnámi verðtryggingar neytendalána er óhjákvæmilegt að skapa nýja kosti í húsnæðismálum, svo sem búseturétt, kaupleigu o.fl. og byggja töluverðan fjölda slíkra íbúða á ári.

Stór flokkur

Í viðbrögðum við verðtryggingarfrumvarpinu var áhyggjuefni sá vilji að allir hafi sömu skoðun í Samfylkingunni og gangi í takt. Ég vil vera í flokki þar sem þriðja hver manneskja í landinu telur jafnaðarhugsjón sína eiga heima. Þar verða og eiga að vera margar skoðanir, gagnkvæmt umburðarlyndi og skoðanaskipti. Þeim sem þykir verra að aðrar skoðanir séu líka uppi, er bent á John Stuart Mill sem dró fram hvílíkur happafengur aðrar skoðanir eru, því jafnvel þær sem okkur finnast vitlausastar hjálpa til við að rifja upp rökin fyrir manns eigin. Þegar formaður flokksins tók af skarið um að verðtryggingarfrumvarpið yrði lagt fram, þótt minnihlutasjónarmið væri, hlaut ég sannfæringar minnar vegna að standa að því. Opinber umræða þróaðist svo með öðrum hætti en umtalað var og ekki við aðra en aðstandendur að sakast um það. En það er þó kannski einkum lýsandi fyrir þann skort á sjálfstrausti sem nú hrjáir flokkinn. Því áður en málið var flutt höfðu menn hausinn undir hendinni yfir því að vera ekki nógu nútímalegir, með margar skoðanir og án flokkslínu, en við framlagninguna blygðuðust þeir sín fyrir að ekki væru allir á einu máli og gengju í takt eftir línunni. Dálítið eins og að vera uppteknari af mistökunum en því sem vel var gert við endurreisn landsins.

Klækir

Skondinn er sá hópur manna sem er svo vandur að virðingu sinni að hann afgreiðir sjónarmið annarra sem klæki. Ég stóð ekki að gengislánalögunum og lagði fram ásamt átta öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar tillögur um skuldaleiðréttingar á síðasta kjörtímabili sem ekki náðu fram að ganga. Við leituðum eftir samstöðu í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins um afnám verðtryggingar og ég sagði m.a. opinberlega að augljós lærdómur hrunsins væri að hverfa frá séríslenskum lausnum í peningamálum. Ég stóð með skuldugum heimilum gegn vaxtaokri og mun alltaf gera því ég veit hvað það er að hafa áhyggjur af næstu afborgun. Jafnframt veit ég að sumir sem eins er ástatt um hafa aðra skoðun og vonandi afgreiði ég þær aldrei sem annarlegar. Það er þess vegna sannfæringar minnar vegna að ég hef gengið eftir efndum Framsóknar, þó mér hafi þótt útfærsla leiðréttingarinnar hörmuleg og finni enga alvöru hjá þeim um verðtrygginguna.

Skipt um skoðun

Verðtryggingin er eitt af því sem fólk skiptir ekki um skoðun á. Ég vona þó að meginsjónarmið mitt um vaxtaokur hafi hér komist til skila. Þeir sem varið hafa það sem þeim finnst skynsamleg skipan í gegnum þykkt og þunnt hafa yfirleitt harðnað svo í afstöðu sinni við ágjafirnar að þeim verður ekki haggað. En ég er óforbetranlegur bjartsýnismaður og mæli eindregið með þeirri reynslu að skipta um skoðun. Þegar verðtryggingin var fundin upp á áttunda áratugnum var líka stefna Alþýðuflokksins að landið væri í þjóðareign. Þeirri stefnu höfum við breytt og því ekki hinu? Tímarnir breytast. Þá var stærsta pólitíska vandamálið skortur á lánsfé, nú er stærsta ógnin offramboð á lánsfé. Þá ákváðu pólitíkusar vexti, en skapa nú umgjörðina meðan vextirnir sjálfir ráðast á markaði. Þá vorum við eyland, nú erum við hluti af 500 milljón manna markaði. Sjálfur skipti ég um skoðun á stórmáli á síðasta landsfundi. Ég sem alltaf hef talið atvinnu og verðmætasköpun vera sjálfa undirstöðu jöfnuðar og velferðar þeirrar sem við berjumst fyrir þótti sjálfsagt að ná í olíu á hafsbotn eins og félagar okkar í Noregi. Þegar ég hlustaði á röksemdir nýrrar kynslóðar fann ég svo mér til ómældrar ánægju að ég bjó enn yfir hæfileikanum til að skipta um skoðun og fannst ótrúlega gaman að gera það. Það versnaði ekki þegar svo framvindan síðar sýnir að þau höfðu einfaldlega rétt fyrir sér og þeir sem vanhugsað óðu fram eru nú í mestu erfiðleikum.

Ég geri ekki kröfu til þess að hafa rétt fyrir mér en látum á rökin reyna. Mér svarar þá einhver að ef maður láni Bens vilji maður ekki fá Skóda til baka. En einhver svarar þá og segir á móti: Lýsing lánaði mér fyrir Skóda en hirti af mér Bensinn. Þá segir kannski sá þriðji að verðtryggð lán eigi alltaf að vera lyklalán, svo ekki sé tekið meira en lánað var fyrir og sá fjórði segir: en þá lækkar lánshlutfallið o.s.frv. Umfram allt: Skemmtum okkur við að skýra og skerpa skoðanir okkar í rökræðu í stórum lýðræðislegum flokki með mörgum sjónarmiðum. Af því að í hugsjónabaráttu okkar fyrir betra samfélagi er sífelld stefnumörkun kjarni verkefnisins. En hitt er ekki síður mikilvægt að það sé skemmtilegt að skapa stefnuna.

Greinin birtist upphaflega á Herðubreið