Forystulaust sumarland

Blaðagreinar

Sumardagurinn fyrsti eykur okkur vongleði um bjartari daga og betri tíð. Það er ekki vanþörf á í vetrarlok þegar forystuleysið við landsstjórnina er orðið miklu meira en vandræðalegt. Nú síðast hefur forsetinn hætt við að hætta á þeirri forsendu beinlínis að óvissan sé algjör um landsstjórnina. Forsætisráðherrann hraktist nýlega frá vegna hneykslis sem rúið hefur tvo aðra ráðherra trausti. Enginn veit hver stjórnar Framsóknarflokknum. Forsætisráðuneytið í höndum flokks sem ekki hefur stuðning meðal þjóðarinnar til að leiða ríkisstjórn. Stjórnarflokkarnir vita ekki sjálfir hvaða mál þeir þurfa að afgreiða. Ofan á þetta allt bætist að ríkisstjórnin veit ekki hvenær hún ætlar að fara frá og getur ekki sagt kjósendum hvenær þeir fái að kjósa. Ríkisstjórnin virðist alveg hafa gleymt því að hlutverk hennar er að hafa forystu og eyða óvissu en ekki hanga í reiðanum og hrekjast undan veðrum. Auðvitað ætti að kjósa í vor því að óbreyttu verður landið forystulaust í allt sumar engum til gagns.

Að taka forystu

Verkefni stjórnarandstöðunnar er að taka forystuna í sumar vegna þess að tilefnin blasa við alls staðar. Hún þarf að sýna að hún geti ekki bara verið samhent og trúverðug í því að vera á móti heldur líka í hinu að marka nýja stefnu og taka ábyrgð á stjórn landsins sem stjórnarflokkarnir hafa í raun þegar látið af hendi.

Það gera stjórnarandstöðuflokkarnir best með að sameinast um að starfa ekki með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar heldur hver með öðrum. Sameinast um skýrt afmörkuð framfaramál og tímaáætlun um framkvæmd þeirra svo kjósendur hafi skýran valkost. Því til að endurreisa traust er mikilvægt að fólki sé sagt fyrir kosningar hver ætli að vinna með hverjum og að hverju eftir kosningar. Það sé ekki eitthvað leyndó sem vélað sé um í bakherbergjum. Eins verði hitt skýrt, ólíkt því sem nú er, að samstarfið leiði sá flokkur eða forystumaður sem mest fylgi hefur hjá þjóðinni.

Greinin birtist í Fréttablaðinu á sumardaginn fyrsta, 21. apríl