blog

Stefnuleysisræðan

blog

Þessi grein birtist í Blaðinu 10. október 2006.

Stefnuleysisræðan

Jæja. Jólin að nálgast og við alþingismenn komnir til byggða. Fyrsta vika þings liðin og harður kosningavetur framundan.  Kosningahitann var þó ekki að finna í stefnuræðu forsætisráðherra né umræðum um hana sem voru venju fremur bæði lélegar og leiðinlegar og hefur maður þó ýmsu kynnst. Við hljótum að þurfa að endurskoða þá innrás í kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins sem stefnuræðan er ef hún á að vera svona slöpp. Nú er líka bein útsending frá öllum þingfundum bæði í sjónvarpi og á netinu og þannig hafa allir sem vilja ógrynni af tækifærum til að fylgjast með umræðum og allt aðrar aðstæður en var þegar ákveðið var að leggja tvö sjónvarpskvöld undir Alþingi.

Vandi þingmanna við umræðurnar á þriðjudagskvöld var að stefnuræða forsætisráðherra var, eins og ríkisstjórnin, tíðinda- og innihaldslítil. Nýr forsætisráðherra í sinni fyrstu stefnuræðu hafði engan afdráttarlausan pólitískan boðskap að flytja, enga framtíðarsýn að færa og engar fréttir að segja. Enda lítið að frétta af því sem ekkert er. Stefnuræðan hefur raunar verið trúnaðarmál og dreift þannig til þingmanna eins og frægt er. En í þessari fyrstu stefnuræðu Geirs Haarde var trúnaður óþarfur því þar var ekkert sem vert var að segja frá.

Umræður í vikunni um tekjuskiptingu, efnahagsmál og varnarmál afhjúpuðu líka að stjórnarflokkarnir koma til þings með allt á hælunum. Nýtt fjárlagafrumvarp var kynnt í byrjun vikunnar í prófkjörsbaráttu Árna Mathiesen á Selfossi. Það sýnir að björtustu vonir stjórnarflokkanna um ástandið á næsta ári eru að hér verði áfram bullandi verðbólga og gríðarháir vextir. Þess vegna hafa þeir ákveðið að hætta við framkvæmdastopp sem þeir ákváðu fyrir nokkrum vikum!?!  Það sýnir auðvitað betur en flest annað að þeim er einfaldlega sama um verðbólguna og ofurvextina sem fólk er nú að borga, eða skortir a.m.k. þann vilja og stefnufestu sem til þarf til að koma á stöðugleika. Það þarf þess vegna nýja ríkisstjórn til að gera það.

Ný ríkisstjórn mun ekki síður þurfa að taka á skatta- og bótakerfinu sem notað hefur verið til að auka skipulega á misskiptingu í samfélaginu, þannig að við nú stefnum hraðbyri í átt frá norræna velferðarsamféalginu. Skattbyrðin hefur verið flutt af efnaliðinu á millitekjufólk og verr setta, ekki síst með alls kyns aukasköttum eins og stimpilgjaldi, gjöldum í velferðarkerfinu og menntakerfi og svo tekjutengingunum. Þær hafa ólað fólk svo hraustlega niður í fátæktina að þegar nú ríkisstjórnin hefur misst tökin á verðbólgunni þá hækka innistæður á sparireikningum aldraðra svo eignir þeirra rýrni ekki, en þær vaxtatekjur skerða svo lífeyrisgreiðslurnar til þeirra! Þannig blæða aldraðir fyrir verðbólguóstjórnina. Og það er auðvitað ótrúlegt að smá aukatekjur lífeyrisþega séu skattlagðar um meira en helming meðan braskararnir borga tíu prósent af ofsagróða. Þannig er það venjulegt fólk með meðaltekjur og minni sem standa undir lunganum af skattheimtunni, sem náði nýju Íslandsmeti í fyrra. Og það var lýsandi að ungu sjálfstæðismennirnir sem kjörnir voru á þing út á skattamálin voru hvergi sjáanlegir við umræðuna, enda hefur Heimdallur aldrei haldið skattadaginn seinna á árinu en nú en það er sá dagur sem við erum búin að vinna fyrir sköttunum okkar fyrir árið.  Vonandi tekst okkur þó að píska þá til að lækka loksins matarskattinn, en aftur og aftur hafa þeir fellt það mál frá okkur.

Það var svo viðeigandi að undirstrika enn frekar stefnuleysi og doðann sem einkennir stjórnina með því að forsætisráðherra gerði grein fyrir varnarleysi landsins. Þar hafa þeir hrakist undan og meira að segja atað hendur okkar blóði til að reyna að fá að halda einhverjum her, en fá svo ekki að halda öðru en menguninni. Ætli Íraksmálið, innistæðulausar hótanir um uppsögn varnarsamningsins og þessi lélegasti viðskilnaðarsamningur sem hugsast gat séu ekki skýrustu dæmin um nauðsyn þess að skipta um forystu fyrir landinu.

Þjóðaratkvæði um miðhálendið

blog

Þessi grein mín birtist í Morgunblaðinu 10. okt. 2006

 

Þjóðaratkvæði um miðhálendið

Í ÁGÆTU Reykjavíkurbréfi leggur ritstj. Mbl. til að þau deilumál sem nú rísa hæst, þ.e. um virkjanir og stóriðju, verði leyst í almennum atkvæðagreiðslum. M.a. hafa forseti Íslands og formaður Samfylkingarinnar nýlega varað við að þessi mál megi ekki kljúfa þjóðina og mikilvægt að við leitum lausna. Áhersla blaðsins á beint lýðræði er lofsverð sem fyrr, en aðferðafræðin sem lögð er til er hæpin.

Það er sjálfsagt lágmarksskilyrði að framkvæmdir sem þessar fari í almenna atkvæðagreiðslu, en það er ekki nægjanlegt. Því slíkar atkvæðagreiðslur eru í sjálfu sér atkvæðagreiðslur um eyðileggingu og hætt er við að smátt og smátt spillum við með afmörkuðum ákvörðunum heildarmynd landsins og atvinnustefnu þess. Vænlegra sýnist mér að hafa slíkar atkvæðagreiðslur um friðun en framkvæmdir og þó einkum um hinar stóru línur, því allsherjaratkvæðagreiðslur eiga helst að varða stórmál og framtíðarsýn.

Þannig ættum við að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um friðlýsingu miðhálendisins og ákveða í henni að þar rísi ekki virkjanir né háspennulínur. Miðhálendið eigum við öll, hvort sem við búum á Húsavík eða í 101 og saman eigum við að móta framtíðarsýn fyrir svæðið allt. Hið sama gæti átt við eldfjallafriðlandið sem Landvernd hefur lagt til. Í slíkum atkvæðagreiðslum gætum við tekið grundvallarákvarðanir um framtíð náttúru landsins, atvinnustefnu okkar og þjóðfélagsgerð. Slíkar atkvæðagreiðslur hefðu mikla kosti umfram einangraða bardaga við fjársterk stóiðjufyrirtæki sem hætt er við að verði fremur varnarbarátta en lýðræðislegar tímamótaákvarðanir. Morgunblaðið gerði snemma á þessu ári góða grein fyrir hugmynd minni um friðlýsingu miðhálendisins og ég hvet blaðið og lesendur þess til að íhuga hvort þar sé ekki að finna verðugasta atkvæðagreiðsluefnið.

Stefnuleysisræðan

blog

Þessi grein birtist í Blaðinu 10. október 2006.

Stefnuleysisræðan

Jæja. Jólin að nálgast og við alþingismenn komnir til byggða. Fyrsta vika þings liðin og harður kosningavetur framundan.  Kosningahitann var þó ekki að finna í stefnuræðu forsætisráðherra né umræðum um hana sem voru venju fremur bæði lélegar og leiðinlegar og hefur maður þó ýmsu kynnst. Við hljótum að þurfa að endurskoða þá innrás í kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins sem stefnuræðan er ef hún á að vera svona slöpp. Nú er líka bein útsending frá öllum þingfundum bæði í sjónvarpi og á netinu og þannig hafa allir sem vilja ógrynni af tækifærum til að fylgjast með umræðum og allt aðrar aðstæður en var þegar ákveðið var að leggja tvö sjónvarpskvöld undir Alþingi.

Vandi þingmanna við umræðurnar á þriðjudagskvöld var að stefnuræða forsætisráðherra var, eins og ríkisstjórnin, tíðinda- og innihaldslítil. Nýr forsætisráðherra í sinni fyrstu stefnuræðu hafði engan afdráttarlausan pólitískan boðskap að flytja, enga framtíðarsýn að færa og engar fréttir að segja. Enda lítið að frétta af því sem ekkert er. Stefnuræðan hefur raunar verið trúnaðarmál og dreift þannig til þingmanna eins og frægt er. En í þessari fyrstu stefnuræðu Geirs Haarde var trúnaður óþarfur því þar var ekkert sem vert var að segja frá.

Umræður í vikunni um tekjuskiptingu, efnahagsmál og varnarmál afhjúpuðu líka að stjórnarflokkarnir koma til þings með allt á hælunum. Nýtt fjárlagafrumvarp var kynnt í byrjun vikunnar í prófkjörsbaráttu Árna Mathiesen á Selfossi. Það sýnir að björtustu vonir stjórnarflokkanna um ástandið á næsta ári eru að hér verði áfram bullandi verðbólga og gríðarháir vextir. Þess vegna hafa þeir ákveðið að hætta við framkvæmdastopp sem þeir ákváðu fyrir nokkrum vikum!?!  Það sýnir auðvitað betur en flest annað að þeim er einfaldlega sama um verðbólguna og ofurvextina sem fólk er nú að borga, eða skortir a.m.k. þann vilja og stefnufestu sem til þarf til að koma á stöðugleika. Það þarf þess vegna nýja ríkisstjórn til að gera það.

Ný ríkisstjórn mun ekki síður þurfa að taka á skatta- og bótakerfinu sem notað hefur verið til að auka skipulega á misskiptingu í samfélaginu, þannig að við nú stefnum hraðbyri í átt frá norræna velferðarsamféalginu. Skattbyrðin hefur verið flutt af efnaliðinu á millitekjufólk og verr setta, ekki síst með alls kyns aukasköttum eins og stimpilgjaldi, gjöldum í velferðarkerfinu og menntakerfi og svo tekjutengingunum. Þær hafa ólað fólk svo hraustlega niður í fátæktina að þegar nú ríkisstjórnin hefur misst tökin á verðbólgunni þá hækka innistæður á sparireikningum aldraðra svo eignir þeirra rýrni ekki, en þær vaxtatekjur skerða svo lífeyrisgreiðslurnar til þeirra! Þannig blæða aldraðir fyrir verðbólguóstjórnina. Og það er auðvitað ótrúlegt að smá aukatekjur lífeyrisþega séu skattlagðar um meira en helming meðan braskararnir borga tíu prósent af ofsagróða. Þannig er það venjulegt fólk með meðaltekjur og minni sem standa undir lunganum af skattheimtunni, sem náði nýju Íslandsmeti í fyrra. Og það var lýsandi að ungu sjálfstæðismennirnir sem kjörnir voru á þing út á skattamálin voru hvergi sjáanlegir við umræðuna, enda hefur Heimdallur aldrei haldið skattadaginn seinna á árinu en nú en það er sá dagur sem við erum búin að vinna fyrir sköttunum okkar fyrir árið.  Vonandi tekst okkur þó að píska þá til að lækka loksins matarskattinn, en aftur og aftur hafa þeir fellt það mál frá okkur.

Það var svo viðeigandi að undirstrika enn frekar stefnuleysi og doðann sem einkennir stjórnina með því að forsætisráðherra gerði grein fyrir varnarleysi landsins. Þar hafa þeir hrakist undan og meira að segja atað hendur okkar blóði til að reyna að fá að halda einhverjum her, en fá svo ekki að halda öðru en menguninni. Ætli Íraksmálið, innistæðulausar hótanir um uppsögn varnarsamningsins og þessi lélegasti viðskilnaðarsamningur sem hugsast gat séu ekki skýrustu dæmin um nauðsyn þess að skipta um forystu fyrir landinu.

Ríkisstjórnin lætur loks undan

blog

Þeir eru jafnan líflegir fyrstu þingdagarnir og óvenju ánægjulegur var gærdagurinn. Þá tilkynnti ríkisstjórnin um aðgerðir til lækkunar matvælaverðs en við í Samfylkingunni höfum sem kunnugt er verið að berja á þeim allt kjörtímabilið í því máli. Aftur og aftur höfum við flutt tillögur um lækkun matarskattsins og þeir fellt þær en láta nú loks undan. Hve skammt þeir ganga í vörugjöldum og tollum skapar þó vissa hættu á að lækkanirnar skili sér ekki í vöruverði og hefði verið betra að ganga hreint til verks eins og við lögðum til.

Hann háir mér lítið skipulagshæfileikinn en einhvern tímann í lok mánaðarins ná framkvæmdir okkar Þórhildar því stigi að við þurfum að flytja út. Ekki besti tíminn að búa í plastpoka í miðri prófkjörsbaráttu! En kannski er alveg eins gott að sofa bara á skrifstofunni, maður gerir í það minnsta lítið annað en að tala við fólk þessa dagana og fær margar skemmtilegar kveðjur. Þessa vísu fékk ég t.d. í póstinum en hún er sögð eftir Kolbein Högnason:

Vildi eg að félli á veginn þinn
vinargeisli tryggur.
Hamingjan leiði Helga minn
hvert sem gatan liggur.

Skipulögð fátækt í boði lífeyrissjóðanna

blog

Þessi grein birtist í Blaðinu, laugardaginn 30. september: 

 

Skipulögð fátækt í boði lífeyrissjóðanna

 

 

Eitt af því mikilvægasta sem tuttugasta öldin kenndi okkur í stjórnmálum er algjört og ævarandi getuleysi miðstýrðra skrifræðiskerfa til að færa okkur farsældina. Hversu margar og ítarlegar sem fimm ára áætlanir kerfisins um góða forsjá þess eru, stoðar það lítið því árangur og framfarir verða ekki til í möppum. En þó við höfum lært þetta eru ennþá til steinrunnin skrifræðisskrímsli sem eru svo þjökuð af reglugerðahaugum að það skiptir engu máli hve gott fólk þangað velst,

það eru allir löngu hættir að rata á þessum ruslahaugum reglugerðanna. Eitt skýrasta dæmi okkar um þetta nú er Tryggingastofnun ríkisins en þeir sem best þekkja til halda því fram að fyrir þrjátíu árum hafi enn verið einn maður sem skildi kerfið í TR.

 

Tryggjum jafna fátækt

 

Eins og algengt er um afturhaldssöm velferðakerfi er almannatryggingakerfi okkar ölmusukerfi. Viðhorfin til þess eru þannig miklu líkari viðhorfi til félagsmálaþjónustu sveitarfélaga en til tryggingafélaga og í þeim anda hafa ríkisstjórnarflokkarnir leikið lífeyrisþega, hvort sem er aldraða eða öryrkja. Meginatriði stjórnarstefnunnar verður þannig annars vegar að tryggja að ölmusuþegarnir njóti ekki sömu kaupmáttaraukningar og vinnandi fólk og hins vegar að tryggja með endalausu regluverki að allir verði ölmusuþegarnir örugglega jafn fátækir. Með tekjutengingum og öðrum ofursköttum á aldraða og öryrkja leggja stjórnarflokkarnir þannig hina dauðu hönd miðstýringarinnar á frumkvæði og framtak tugþúsunda landsmanna, engum til gagns eða gæfu.

 

Frelsum lífeyrishafa

 

Á fjölmörgum sviðum hefur okkur borið gæfu til að hverfa frá miðstýringunni og skapa í hennar stað fólki og fyrirtækjum almenn skilyrði til vaxtar og viðgangs. Þannig flytjum við hvert verkefnið á fætur öðru til sveitarfélaganna og þau aftur til fólks og félaga til að virkja frumkvæði. Við bárum líka gæfu til að létta vofu skrifræðismiðstýringarinnar af bankakerfinu og leystum með því úr læðingi ófyrirsjáanlega krafta. Með sama hætti eigum við að létta ofursköttum tekjuteningarkerfisins að mestu af öryrkjum og ellilífeyrisþegum og leyfa fólki einfaldlega að vinna og afla sér tekna. Það er einfaldlega nægur ávinningur að lífeyrishafar greiði skatta af slíkum tekjum, þó ekki sé verið að skerða bætur þeirra líka. Fyrir marga, ekki síst úr röðum öryrkja, er það líka mikilvægt fyrir heilsufar, andlegt og líkamlegt, að sinna einhverri vinnu, þó í litlu mæli sé. Hér er heldur ekki það víðtæka atvinnuleysi sem í mörgum öðrum löndum hefur orðið þess valdandi að menn vilja halda lífeyrishöfum frá vinnumarkaði.

 

Lágt leggjast lífeyrissjóðirnir

 

En í stað þess að frelsa lífeyrishafana hefur nú hópur lífeyrissjóða tileinkað sér nauðhyggju skipulegrar fátæktar og sett eftir á og óforsvarandi viðamiklar reglur til að tryggja að þeir öryrkjar sem í sjóðunum kunna að vera réttum megin við fátæktarmörk fái ekki greiðslur úr sjóðunum. Þannig eru þeir þessa dagana að svipta á þriðja þúsund öryrkja, sem flestir hafa 1-2 milljónir króna í árstekjur að meðaltali 20 þúsund króna bótagreiðslum á mánuði. Aðferðir lífeyrissjóðanna í þessari aðför að öryrkjum eru ekki aðeins ólögmætar heldur algjörlega siðlausar. Sú sérstaða sem íslensku lífeyrissjóðunum er sköpuð í lögum gerir strangar kröfur til þeirra um siðferði og samfélagsábyrgð sem óhætt er að fullyrða að þeir hafa fullkomlega brugðist í þessari aðför. Slík framganga hlýtur annað hvort að kalla á að athafnafrelsi þeirra sé að þessu leyti takmarkað í lögum, eða þá hitt að tími sé kominn til að leyfa fólki sjálfu að velja sér lífeyrissjóði eða sparnaðarleiðir með tryggingarvernd. Því ef lífeyrissjóðirnir fela ekki í sér raunverulega sjúkdóma og slysavernd, heldur koma aftan að félögum sínum í þeim efnum, þá er trúlega betra fyrir fólk að skipta við fagmenn á markaði en miðstýrða sjóði atvinnulífsins.

Sækist eftir 4. sæti

blog

Í dag tilkynnti ég um framboð mitt með eftirfarandi tilkynningu:

Fréttatilkynning til fjölmiðla.

Í tilefni af prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík hef ég, Helgi Hjörvar alþingismaður, ákveðið að sækjast eftir fjórða sæti í sameiginlegu prófkjöri fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmin, sem þýðir annað sæti framboðslistans í öðru Reykjavíkurkjördæmanna.

Fyrir liggur að í prófkjörinu sem fram fer hinn 11. nóvember nk. munu þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir gefa kost á sér til endurkjörs og ákjósanlegt að með þeim veljist fulltrúi nýrrar kynslóðar í forystu íslenskra stjórnmála.

Þá er mikilvægt í kosningunum í vor að í forystusveitinni séu fulltrúar þeirra sem lögðust gegn Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma til að undirstrika áherslu flokksins á hina nýju umhverfisstefnu Samfylkingarinnar.

Þá væri lögð áhersla á stefnu Samfylkingarinnar um jöfnuð og eflingu velferðarsamfélagsins með því að velja talsmann úr röðum öryrkja í framvarðarsveitina. Við þurfum ríkisstjórn fyrir venjulegt fólk á Íslandi, ekki síst fjölskyldufólk, og áríðandi er að Samfylkingin leggi þunga áherslu á reynslu þess og lífskjör í kosningabaráttunni, í umræðum um okurvexti, verðtryggingu og matvælaverð. Um leið er brýnt að Samfylkingin hafi í þeirri baráttu á að skipa reyndum og öflugum talsmönnum úr fjárlagaumræðunni á Alþingi og í efnahagsmálum yfirleitt.

Prófkjörið verður opið öllum stuðningsmönnum Samfylkingarinnar og mun skarta óvenju breiðum og öflugum hópi frambjóðenda úr röðum samþingmanna minna, úr sveitarstjórn, verkalýðshreyfingu, kvennabaráttu o.s.frv. Endurspeglar það ekki aðeins þann þrótt sem í flokknum býr heldur einnig þau sóknarfæri sem jafnaðarmenn sjá í kosningunum í vor. Ég skipaði við síðustu alþingiskosningar fjórða sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður og hef á Alþingi setið í fjárlaganefnd, félagsmálanefnd og iðnaðarnefnd f.h. flokksins og er þakklátur fyrir þá dýrmætu reynslu sem þetta kjörtímabil hefur fært mér.

Örvæntingarfullur fjármálaráðherra

blog

Eftirfarandi grein birti ég í Fréttablaðinu á dögunum:

 

Örvæntingarfullur fjármálaráðherra

 

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag gefur að líta yfirlýsingu fjármálaráðherra um að „verðbólguskotið“ sé á niðurleið. Tilefnið virðist vera að í einn mánuð hefur verðbólga lækkað frá fyrri mánuði. Þó er hún þrefalt hærri en verðbólgumarkmiðið og gefur ráðherranum fremur tilefni til að vera í felum en á forsíðum blaðanna. Skuldir meðalheimilis aukast um hátt í eina milljón króna á ári í þessu ástandi.

 

Í þokkabót lækkaði verðbólga ekki í síðasta mánuði heldur féllu útúr 12 mánaða viðmiðun miklar hækkanir haustið 2005. Í hálft þriðja ár hefur verðbólgan verið yfir markmiði. Aðeins fimm ár eru liðin síðan ríkisstjórnin missti síðast verðbólgu í tæp tíu prósent og kallar það „mjúka lendingu“. Verðbólgan hér er ekki skot heldur viðvarandi því ríkisstjórnin lætur reka á reiðanum og virðist ekki telja hana vandamál.

 

Vonandi mun verðbólgan hníga en því ræður fremur samdráttur á fasteignamarkaði en aðgerðir stjórnvalda. Alla fjármálaráðherratíð Árna Mathiesen hefur hún verið yfir markmiði  og engin ástæða til að fagna fyrr en markmiðinu er náð. Í miðjum ævintýralegum viðskiptahalla, mikilli verðbólgu og hæstu vöxtum í heimi er það hlutverk fjármálráðherra að vara við, en hella ekki olíu á eld óraunsærra væntinga. Við þær aðstæður er svo ekki síður áhyggjuefni forsíðu-uppsláttur sem minnir meira á auglýsingabækling Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmál en á ábyrgan fjölmiðil.

Annasöm vika

blog

Þetta hefur verið annasöm vika, enda fer saman að nú er prófkjör að hefjast og Alþingi kemur saman um mánaðarmót með tilheyrandi undirbúningi.

Þingflokkurinn fór í upphafi vikunnar í vinnuferð upp í Glym í Hvalfirði til að leggja línurnar fyrir veturinn og í gær funduðum við saman forystufólk í Reykjavík. Um kvöldið var svo félagsfundur þar sem kynnt var hin nýja umhverfisstefna Samfylkingarinnar sem ég segi betur frá hér á síðunni síðar.

Undirbúningur þingmála og prófkjörs hafa að öðru leyti einkennt vikuna en törnin hjá okkur í fjárlaganefnd hefst á mánudagsmorgun og stendur með linnulitlum fundum fram í desember. Ég náði þó að líta aðeins inn í Héraðsdóm í vikunni og fylgjast með stórmerkilegu máli sem Kjarvalsfólkið hefur höfðað gegn Reykjavíkurborg því ágreiningur er um eignarhald á hluta þeirra muna sem borgin tók við hjá Kjarval. Ekki er ljóst hvort þeir munir sem fjarlægðir voru úr vinnustofu hans og settir upp á Korpúlfsstaði voru teknir til geymslu hjá borginni eða eignar og engin gjafabréf eða afsöl eru til sannindamerkis um eignarhald borgarinnar, enn sem komið er.

Örvæntingarfullur fjármálaráðherra

blog

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag gefur að líta yfirlýsingu fjármálaráðherra um að „verðbólguskotið“ sé á niðurleið. Tilefnið virðist vera að í einn mánuð hefur verðbólga lækkað frá fyrri mánuði. Þó er hún þrefalt hærri en verðbólgumarkmiðið og gefur ráðherranum fremur tilefni til að vera í felum en á forsíðum blaðanna. Skuldir meðalheimilis aukast um hátt í eina milljón króna á ári í þessu ástandi.

 

Í þokkabót lækkaði verðbólga ekki í síðasta mánuði heldur féllu útúr 12 mánaða viðmiðun miklar hækkanir haustið 2005. Í hálft þriðja ár hefur verðbólgan verið yfir markmiði. Aðeins fimm ár eru liðin síðan ríkisstjórnin missti síðast verðbólgu í tæp tíu prósent og kallar það „mjúka lendingu“. Verðbólgan hér er ekki skot heldur viðvarandi því ríkisstjórnin lætur reka á reiðanum og virðist ekki telja hana vandamál.

 

Vonandi mun verðbólgan hníga en því ræður fremur samdráttur á fasteignamarkaði en aðgerðir stjórnvalda. Alla fjármálaráðherratíð Árna Mathiesen hefur hún verið yfir markmiði  og engin ástæða til að fagna fyrr en markmiðinu er náð. Í miðjum ævintýralegum viðskiptahalla, mikilli verðbólgu og hæstu vöxtum í heimi er það hlutverk fjármálráðherra að vara við, en hella ekki olíu á eld óraunsærra væntinga. Við þær aðstæður er svo ekki síður áhyggjuefni forsíðu-uppsláttur sem minnir meira á auglýsingabækling Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmál en á ábyrgan fjölmiðil.

Að ala á ótta

blog

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur gert að umtalsefni tilraun tánings til að drepa mann sem hann gagngert kynntist á netinu í því augnamiði. Telur ráðherrann þetta dæmi um þær nýju hættur sem mæta þurfi með áherslum hans um nýjar lögreglusveitir, -deildir og rannsóknarheimildir. Er þó vandséð hvernig þeir tilburðir allir ættu að koma í veg fyrir slík tilvik. Þessa sömu daga fann sérsveit ráðherrans sér það verðuga viðfangsefni að kljást við unglinga í Skeifunni eftir eltingarleiki sumarsins við hóp mótmælenda. Og þrátt fyrir þetta gleðilega verkefnaleysi boðar ráðherrann að enn þurfi að auka við sérsveitir, stofna greiningardeild, leyniþjónustu og auka rannsóknar-heimildir lögreglu allt í nafni öryggis.

 

Öll viljum við búa við öryggi, en lögregluríkið er ekki leiðin að því. Öryggi okkar höfum við best tryggt með því að stuðla að jöfnuði í landinu og með öflugu velferðarkerfi sem ásamt góðri almennri löggæslu hefur gert Ísland öruggt samfélag. Þær þjóðir sem nálgast hafa viðfangsefnið úr sömu átt og Björn Bjarnason hafa hinsvegar flestar ratað í ógöngur og eru Bandaríkin skýrasta dæmið um það. Hvergi eru sérsveitirnar öflugri, leyniþjónusturnar og greiningar-deildirnar fleiri og engin önnur þjóð hefur t.d. nálgast eiturlyfjavandann sem hreina styrjöld (war on drugs) jafnvel með vopnuðum aðgerðum í öðrum ríkjum. Og óvíða er glæpatíðnin meiri og öryggisleysið, og fangelsin þó yfirfull.

 

Í stað þess að feta þær ógöngur ættu verkefni okkar að vera að styrkja almenna löggæslu, taka á ofbeldi gegn konum og þróa úrræði til að rjúfa vítahring síbrota, einkum með markvissum úrræðum fyrir unga afbrotamenn. En á þessum hversdagslegu verkefnum sumum er óverulegur áhugi. Fangelsismálin í svo fullkomnum ólestri að sumir kalla það glæpamannaframleiðslu ríkisins sem 19. aldar dýflisan við Skólavörðustíg er táknrænt dæmi um. Og vegna þess dæmis sem ráðherrann vísar til var athyglisvert þegar fréttaskýringarþátturinn Kompás benti á að í verslunum væri átölulítið verið að selja börnum undir aldri raðlimlestinga- og fjöldamorðingjaleiki, enda yfirvöldin upptekin við háleitari viðfangsefni en hversdagslegan veruleika okkar Íslendinga.

 

Gleðileg brottför hersins hefur svo enn aukið á lögregluríkishugmynd-irnar í því öryggisleysi sem nú hefur heltekið dómsmálaráðherrann. Þó er brottförin staðfesting þess að aldrei í sögu lýðveldisins hefur verið eins friðvænlegt í þessum heimshluta og til hvers segullinn sé hér þarf ekki lengur að spyrja. Það kann auðvitað að leiða til þess að hin almenna lögregla þurfi greiningardeild til samskipta við öryggis-stofnanir í öðrum löndum og gott væri að fá lög um þá leyniþjónustustarfsemi sem fram fer hjá Ríkislögreglustjóra en að hér þurfi að auka njósnir um borgarana af þessu tilefni er algjörlega fráleitt. Það er einfaldlega ekkert tilefni til að hætta þannig rétti okkar til einkalífs.

 

Hryðjuverkaógnin hefur auðvitað kallað á endurmat í öryggismálum. En nú þegar fimm ár eru liðin frá árásinni á Bandaríkin er tímabært að gera upp við ranghugmyndirnar sem af þeim spruttu. Viðbrögð okkar við breyttum heimi eiga ekki að vera að reisa lögreglumúra utan um líf okkar með öryggislögreglum, sérsveitum, leyniþjónustum og rannsóknarheimildum. Þá er alið á óttanum og þannig sigra hryðjuverkamennirnir því þeir vilja skapa okkur öryggisleysið og gera lögregluríkið að hlutskipti okkar. Hugmyndafræði hernaðarhyggjunnar liggur til grundvallar þessum tillögum um öryggisstofnanir og eftirlit, það er sama hugmyndafræði sömu manna og varð til þess að við sendum vopnaða sveit til Afganistan og áttum aðild að innrásinni í Írak. Það hernám hugarfarsins dregur ekki úr hættu á hryðjuverkum heldur eykur hana. Stríð Bandaríkjamanna gegn hryðjuverkum hefur nefnilega ratað í svipaðar ógöngur og stríð þeirra gegn eiturlyfjum, það hellir olíu á eld og skerpir vítahring átaka í stað þess að stuðla að friði. Það er tímabært að hafna þeim tindátaleik en auka öryggi okkar þvert á móti með því að treysta aftur gömlu gildin um friðsama þjóð, frelsi einstaklingsins og réttinn til einkalífs.