blog

Hneykslanleg framganga lífeyrissjóðanna

blog

Vegna aðgerða lífeyrissjóðanna gegn öryrkjum leitaði Blaðið eftir viðbörgðum frá mér og birti í dag grein undir fyrirsögninni:

Skerðing örorkulífeyris:

Hneysklanlegt framferð og kolröng viðmiðun.

Þingmenn gagnrýna lífeyrissjóðina

Vilja að sjóðirnir endurskoði ákvörðun sína

Framganga lífeyrissjóðanna gagnvart öryrkjum er hneykslanleg og skólabókardæmi um það sem menn eiga ekki að gera að mati Helga Hjörvars, alþingismanns. Hann segir það ömurlegt að fátækasta fókið í landinu þurfi að standa í sífelldum málaferlum við ríki og eigin stéttarfélög. Lífeyrissjóðunum ber að endurskoða þær reiknireglur sem þeir nota til skerðingar á lífeyrisgreiðslum segir Ögmundur Jónasson, þingmaður.

Kolröng viðmiðun

„Lífeyrissjóðirnir hljóta að sjá að sér í þessu enda má þeim vera ljóst að þeir eru að vega að eigin undirstöðum,“ segir Helgi Hjörvar, alþingismaður. „Ef við erum ekki tryggð fyrir örorku í sameignarlífeyrissjóðum og þá hljótum við að spyrja hvort einhver ástæða sé til að starfrækja þá og hvort hver og einn eigi ekki að sinna sínum séreignasparnaði.“

Öryrkjabandalag Íslands undirbýr nú málsókn á hendur 14 lífeyrissjóðum í kjölfar ákvörðunar þeirra um að skerða og í sumum tilfellum fella niður lífeyrisgreiðslur til 2.500 öryrkja. Hefur bandalagið gagnrýnt lífeyrissjóðina fyrir að styðjast við neysluvísitölu í framreikningum á bótum en ekki lauanvísitölu. Þá krefst bandalagið þess að þeir falli frá ákvörðun sinni.

Sjóðirnir hafa hins vegar bent á að heildartekjur margra öryrkja hafi í raun hækkað eftir orkutap og því eigi þeir ekki legnur rétt á lífeyrisgreiðslum.

Helgi segir að með þessu séu sjóðirnir að svipta öryrkja einu voninni um að lyfta sér upp úr fátækt. Þá gagnrýnir hann ennfremur þær forsendur sem sjóðirnir styðjast við í sínum útreikningum. „Það er verið að taka kannski 20 þúsund króna greiðslu á mánuði af fólki sem hefur hverfandi tekjur með vægast sagt vafasömum reiknikúnstum þar sem greiðslur eru skertar á grundvelli kolrangrar vísitöluviðmiðunar.“

Þá bendir Helgi á að falli lífeyrissjóðirnir ekki frá ákvörðun sinni þurfi málið að koma til kasta Alþingis. „Það er ömurlegt að fátækasta fólkið í landinu þurfi að standa í sífelldum málaferlum. Ef ekki við ríkið þá við sín eigin stéttarfélög til að halda þeim litlu bótum sem það hefur. Falli sjóðirnir ekki frá ákvörðun sinni hlýtur Alþingi að þurfa fjalla um þessar skerðingar og skýra réttindi örorkulífeyrisþega í lífeyrissjóðskerfinu.“

Ber að endurskoða

Ögmundur Jónasson, alþingismaður, tekur undir orð Helga og segir óeðlilegt að framreikningur örorkubóta byggi á neysluvísitölu en ekki launavísitölu. „Lífeyrissjóðunum ber að endurskoða þær reiknireglur sem þeir styðjast við. Á undanförnum árum hafa almenn laun hækkað talsvert umfram neysuluvísitölu og það er því hætt við að öryrkjar dragist aftur úr launafólki.“

Þá segir Ögmundur mikilvægt að ríkið og lífeyrisjóðirnir hafi nánara samstarf sín á milli. „Allar breytingar á greiðslum Tryggingastofnunar eru iðulega ávísun á lífeyrissjóðina og öfug. Mér finnst því fráleitt annað en að ríkið og lífeyrissjóðirnir komi sér saman um að hafa miklu nánara samstarf sín á milli þannig að einn sé ekki að vísa á annan.“

Sáttmálinn styrkir stöðu fatlaðra

blog

Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi öryrkja

Sáttmálinn styrkir stöðu fatlaðra

MANNRÉTTINDASÁTTMÁLI Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi öryrkja mun styrkja réttarstöðu öryrkja hér á landi þó að Ísland þurfi ekki að breyta lögum eða reglum vegna gildistöku hans.

Sáttmálinn styrkir stöðu fatlaðra - mynd
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Helgi Hjörvar

MANNRÉTTINDASÁTTMÁLI Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi öryrkja mun styrkja réttarstöðu öryrkja hér á landi þó að Ísland þurfi ekki að breyta lögum eða reglum vegna gildistöku hans. Þetta segir Helgi Hjörvar alþingismaður en hann var í sendinefnd Íslands sem tók þátt í samningaviðræðum um sáttmálann.

Um er að ræða fyrsta mannréttindasáttmála 21. aldarinnar og tekur hann til 650 milljóna öryrkja um allan heim.

Í samtali við Morgunblaðið benti Helgi á að í hagsmunabaráttu fatlaðra hér á landi, m.a. í einstaka málaferlum, hefðu þeir haft stuðning af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

Lagalega skuldbindandi

„Fram að þessu höfum við getað vísað í meginreglur Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra sem hafa verið leiðbeinandi en ekki skuldbindandi. Að tveimur eða þremur árum liðnum mun þessi sáttmáli hafa lagalega skuldbindingu fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og þar með eru vísanir í reglurnar sterkari en áður hefur verið. En langmesta réttarbótin er auðvitað fyrir íbúa þróunarlandanna því við Íslendingar erum að sjálfsögðu lánsamir að því leyti að við erum í hópi fremstu þjóða, hvað stöðu fatlaðra varðar,“ sagði hann.

Þá væru í sáttmálanum ákvæði um skýrslugjöf um stöðu mála í hverju landi og sérfræðingar færu yfir málin, gerðu athugasemdir og bentu á það sem betur mætti fara. „Við getum auðvitað fengið bæði gott aðhald og gagnlegar ábendingar í gegnum slíkt eftirlit eins og við höfum fengið í öðrum málaflokkum, svo sem varðandi stöðu barna og stöðu fangelsismála,“ bætti Helgi við.

Langur aðdragandi

Samþykkt sáttmálans hefur átt sér langan aðdraganda en að sögn Helga var það Bengt Lindqvist sem hafði frumkvæði að honum. Lindqvist var forystumaður í Sænska blindrafélaginu, þingmaður, um tíma félagsmálaráðherra Svía og umboðsmaður fatlaðra hjá SÞ. Árið 1994 hóf hann baráttu fyrir því að SÞ setti leiðbeinandi reglur um málefni fatlaðra með það takmark að þær yrðu að skuldbindandi sáttmála.

„Nú hillir undir að það takist. Það hefur verið mikið starf og flókið viðfangsefni að samræma skilning ólíkra þjóða og menningarheima á því hver staða fatlaðra á að vera,“ sagði Helgi. Hann telur sáttmálann ótrúlega framsækinn í því að tryggja fötluðum jafnrétti á við aðra og gangi í raun og veru lengra en hann hafði búist við. Það hafi líka komið honum á óvart að sáttmálinn var samþykktur samhljóða í nefndinni sem fjallaði um hann.

Sáttmálinn fer fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í október og hann öðlast gildi þegar 2/3 hlutar aðildarþjóða hafa staðfest hann.

Vissu ekki um greinargerðina

blog

GREINARGERÐ Gríms Björnssonar, jarðeðlisfræðings, um Kárahnjúkavirkjun hefur vakið töluverða athygli að undanförnu, sérstaklega þar sem komið hefur í ljós að hún var merkt sem trúnaðarskjal þegar fjallað var um virkjunina á Alþingi – og var ekki tekin fyrir í umræðunni. Grímur sendi orkumálastjóra skýrslu sína í febrúar árið 2002 en hún var ekki gerð opinber fyrr en í janúar 2003 þegar Orkustofnun sendi náttúruverndarsamtökum og fjölmiðlum upplýsingarnar.

 

Eins og fram hefur komið hafði stjórn Landsvirkjunar ekki upplýsingar um greinargerðina þegar málið var til umfjöllunar á Alþingi og segir Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sem sat í stjórn Landsvirkjunar á þeim tíma, að stjórnarmeðlimum hafi ekki verið kunnugt um greinargerðina fyrr en í nóvember árið 2002.

 

Þá hafði Helgi spurnir af því að fundað hafði verið um greinargerðina hjá Landsvirkjun með fulltrúum Orkustofnunar. Í kjölfarið óskaði hann eftir upplýsingum um fundinn og þau gögn sem honum tengdust. „Ég fékk þau gögn í lok nóvember en engin fundargerð hafði verið færð á fundinum. Ég gerði grein fyrir því á næsta stjórnarfundi Landsvirkjunar í desember að ég hefði spurst fyrir um fundinn og gerði athugasemdir við að ekki hefði verið gerð fundargerð,“ segir Helgi en nokkrum vikum síðar var greinargerðin send fjölmiðlum og varð hún hluti af opinberri umfjöllun.

 

Helgi sem sat í stjórn Landsvirkjunar sem fulltrúi Reykjavíkurlistans, segir að til hans kasta hafi komið að taka afstöðu til raforkusamningsins við Alcoa en þar hafi hann greitt atkvæði gegn samningnum, m.a. vegna þess að um hafi verið að ræða of litla arðsemi miðað við áhættuna sem í verkinu er fólgin.

 

Gerði forystumönnum R-lista grein fyrir niðurstöðu sinni

 

Spurður um hvort hann hafi látið forystumenn R-listans skýrsluna í té segir Helgi svo ekki vera. „En ég gerði auðvitað grein fyrir því að það væri mín niðurstaða, eftir að hafa kynnt mér öll gögn málsins, bæði um arðsemi og um framkvæmdina sjálfa, að ekki væri rétt að ráðast í þessa framkvæmd. Sem fulltrúi borgarinnar í stjórn Landsvirkjunar greiddi ég því atkvæði gegn framkvæmdinni og þegar þar var komið voru upplýsingarnar þegar orðnar opinberar,“ segir Helgi Hjörvar.

Erindislaus Sjálfstæðisflokkur

blog

Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn stýrt Reykjavíkurborg um skeið eftir tólf ára samfellt áhrifaleysi í borgarmálum. Við þær aðstæður er nýr meirihluti oftast aðsópsmikill og kappsfullur að koma í framkvæmd þeim veigamiklu breytingum sem hann hefur svo lengi þráð. En það er ekki að sjá að hinn nýja meirihluta hafi langað til að gera neitt því hann hefur einfaldlega haldið áfram þá leið sem Reykjavíkurlistinn markaði.

 

Nýi meirihlutinn hefur að vísu týnt rusl í Breiðholtinu, skotið nokkra máva og horfið aftur til fortíðar með stofnun Leikskólaráðs, í algjörri andstöðu við hið góða starfsfólk leikskóla og að því er virðist til þess eins að fjölga bitlingum borgarfulltrúa. En þá er afrekaskráin líka upptalin.

 

Þetta dugleysi er ekki tilviljun. Það endurspeglar einfaldlega að hið samgróna bandalag afturhaldsaflanna í Framsóknar- og Sjálfstæðis-flokki hefur ekkert erindi lengur í íslenskum stjórnmálum, ekki einu sinni þar sem þeir um árabil hafa engu ráðið. Ennþá átakanlegra er þetta erindisleysi þó orðið eftir tólf ára valdasetu í landsstjórninni þar sem mörg ár eru liðin síðan einhverjum datt síðast í hug eitthvert framfaramál.

 

Varnarlaus Sjálfstæðisflokkur

 

Þetta dáðleysi sjáum við kannski best í varnarmálunum. Þar urðu stjórnarflokkarnir svo hræddir við breytingar að þeir ákváðu að leyna þjóðina því fyrir síðustu kosningar að herinn væri á förum. Samkvæmt yfirlýsingum þingflokksformanns Framsóknarflokksin var svo þetta ráðaleysi helsta ástæða þess að ríkisstjórnin lýsti yfir stuðningi við innrásarstríð í Írak, einhverja verstu ákvörðun sem tekin hefur verið í utanríkismálum í okkar nafni og þvert á sérstöðu okkar sem herlausrar friðsamrar þjóðar. Íraksmálið var dæmigert um mistök sem stefnulaus stjórnvöld gera þegar þau rekur undan veðri og vindum. Hlýtur að vera enn sárara þegar í ljós kemur að Bandaríkjamenn meta þann stuðning í engu og fara bara samt.

 

Og nú er landið okkar loftvarnarlaust því þoturnar eru farnar. Og samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar átti þá varnarsamstarfinu við Bandaríkin að vera lokið. En sú yfirlýsing er fokin út í vindinn og enn er haldið áfram einhverjum viðræðum sem enginn veit að hverju eiga að stefna, nema kannski að biðja Bandaríkin að skilja nú eitthvað eftir eða halda áfram að borga eitthvað svolítið.

 

Eftir nokkrar vikur verður herinn farinn og enginn veit hvað Sjálfstæðis-flokkurinn hyggst fyrir í öryggismálum þjóðarinnar.

 

Agalaus Sjálfstæðisflokkur

 

Rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir því að halda í her sem er farinn  virðist erindi hans helst vera orðið einmitt það að halda í það sem farið er eða fara ber, eins og verðtryggingin, krónan og landbúnaðarkerfið eru góð dæmi um. Eftir að hafa setið lengi að völdum hefur hann snúist í vörn fyrir fortíðina og boðar ekki lengur nýjungar fyrir framtíðina.

 

Ein sterkasta birtingarmynd erindisleysis er agaleysið því þegar menn hafa setið of lengi að völdum glata þeir viljanum sem þarf til aðhalds. Efnahagsmálin vitna um agaleysið í gengissveiflunum, ofurvöxtunum og verðbólgunni. Ríkisendurskoðun og stjórnarþingmenn játa agaleysið í ríkisfjármálunum þessa dagana þar sem keyrt er framúr lögum um átta þúsund milljónir á ári hverju. Sú lausaganga í ríkissjóð hefur með öðru leitt til sjálfvirkrar þenslu ríkisútgjalda einmitt þegar aðhalds var þörf. Þegar draga þurfti úr neyslu jós Sjálfstæðisflokkurinn út skattalækkunum fyrir eigna- og hátekjufólk og þegar draga þurfti úr væntingum talaði hann um góðæri.

 

Það er löngu tímabært að binda endi á þetta erindis- og agaleysi og fela sterkri stjórn undir forystu jafnaðarmanna að endurheimta hér stöðugleika efnahagslega og félagslega. Sá nýi meirihluti í ríkisstjórn verður ólíkt starfsamari en íhaldsmeirihlutinn í borginni, enda blasa verkefnin við í daglegu lífi venjulegs fólks sem taka þarf á allt frá vöxtum að vöruverði.

Játningar í ríkisfjármálum

blog

LÍKT og á vakningarsamkomu hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar fallið fram síðustu vikur og játað mistök sín í ríkisfjármálum, aga og aðhaldsleysi og að hafa gripið allt of seint til aðgerða vegna þenslunnar. Hið síðasttalda kenndi fjármálaráðherra þó Hagstofunni því hún hafi ekki reiknað þensluna rétt! Blasti hún þó við hverjum manni og hirti ríkisstjórnin í engu um gagnrýni innlendra og erlendra greiningardeilda fremur en ábendingar okkar í stjórnarandstöðunni.

Þegar nú venjulegt fólk og fyrirtæki þurfa að þola hæstu vexti í heimi og verðbólgu margfalt hærri en jafnvel eigin markmið stjórnvalda þá er auðvitað gott að játningarnar liggi fyrir. Þær munu eflaust hjálpa kjósendum við að fella dóm í vor.

Árum saman hafa fjárlög verið notuð meira til áróðurs um góðæri en til fjárstýringar ríkisins og er munurinn á glansmynd frumvarpsins og niðurstöðu tugir milljarða og ýmis van- eða ofáætlað verulega á helming fjárlagaliða. Þetta virðingarleysi fyrir fjárlögum hefur leitt af sér lausagöngu í ríkissjóð og sjálfvirkan vöxt útgjalda meiri en nokkru sinni fyrr.

 

Þegar aðhalds var þörf dældi ríkisstjórnin fjármagni inn í hagkerfið, þegar aga var þörf þverbraut hún fjárlögin, þegar draga þurfti úr væntingum talaði hún um góðærið og þegar minnka þurfti neyslu og bruðl lækkaði hún skatta eigna- og hátekjufólks. Hún hefur skellt skollaeyrum við ábendingum okkar og annarra og látið Seðlabankann að mestu einan um árarnar í efnahagsstjórninni. Enda kalla þeir verðbólgu og vexti eins og nú geisa „mjúka lendingu“. Eftir tólf ára stjórnarsetu er fullseint að iðrast korteri fyrir kosningar. Það er einfaldlega komið nóg af þessari óstjórn.

Milljarðar á milljarða ofan

blog

Þessar vikurnar leik ég Mörð Árnason í morgunsjónvarpinu á fimmtudögum í fjarveru hins eina sanna og í gærmorgun ræddum við Pétur Blöndal m.a. um ofurlaun, réttinn til að mótmæla og agaleysið í ríkisfjármálunum. Eins og lesendur þessarar síðu þekkja höfum við ítrekað bent á heimildarlausar framúrkeyrslur ráðuneyta og stofnanna sem brjóta einfaldlega í bága við stjórnarskránna og góða venju í opinberum rekstri, enda þekkist svona háttalag ekki í löndunum í kringum okkur. Þetta agaleysi hefur líka leitt til þess að fjárlagagerðin er óvönduð og stofnanir taka ekki mark á heimildum sínum og fara ýmist framúr, eða nýta ekki heimildir til að ráðast í verkefni sem Alþingi hefur falið þeim.

Við sjáum líka pólitískar áherslur í því hvar er vanáætlað og hvar ofáætlað, því það eru velferðarmálin sem vanáætlað er í en menn hafa ekki undan að eyða heimildunum í verklegum framkvæmdum s.s. vegagerð.

Hvimleiðast er þó að sjá ár eftir ár sömu aðilana í framúrkeyrslum, því það sýnir virðingarleysi gagnvart skattpeningum almennings og að ráðherrarnir eru ekki að taka alvarlega stjórnskipunarlög og heimildir Alþingis. Það er óhjákvæmilegt að fjárlaganefndin grípi hér inní og leiðrétti tillögur ríkisstjórnar til fjárlaga mun meir en verið hefur og geri kröfu um að þeir ráðherrar sem ekki virða lögin axli ábyrgð. Öðruvísi mun þetta ráðslag bara versna og versna. Við fulltrúar Samfylkingar í fjárlaganefnd höfum farið fram á sérstakan aukafund í fjárlaganefnd vegna þessara mála og verður hann haldinn á mánudag. Ég fékk gerða samantekt um frávik frá heimildum sl. fimm ár og það má sjá hér. Þar sést svart á hvítu að þessi stjórn er búin að sitja allt of lengi.

Hljóðbækur á netinu

Sumarið hefur annars ýmist farið í byggingarframkvæmdir vegna ómegðarinnar eða ýmsa stefnumörkunarvinnu sem Ingibjörg Sólrún hefur haft forystu um í sumar. Í tíu daga fórum við svo með stelpurnar í íbúð foreldra minna á Vesterbrogötu í Kaupmannahöfn, en þaðan er jafn stutt að ganga í Dýragarðinn og Tívolí og það leiddist stelpunum okkar ekki. Þegar ég hef lausa stund hef ég mikla unun af því að hlusta á bækur og í sumar fékk ég stafrænt tæki, lítið stærra en greiðslukort sem hægt er að hlaða bókum inná af netinu og hlusta á. Þar fer hljóðbókum ört fjölgandi og t.d. geturðu farið á edda.is og náð í nýjustu bók Steinunnar Sigurðardóttur eða á audible.com og valið úr úrvali erlendra bóka. Ég hvet alla til að prófa hljóðbækur því þó við sem ekki sjáum til lestrar notum þær af nauðsyn þá geta sjáandi haft mikið yndi af að hlusta á góðar bækur í bílnum, baðinu, þvottahúsinu eða í göngutúrnum því þessi aðferð hentar uppteknu nútímafólki mjög vel bæði til þess að njóta bókmennta og eins sem athvarf úr önnum dagsins.

Sáttmáli í málefnum fatlaðra

Í rúman áratug hefur verið unnið ötullega að réttindabaráttu fatlaðra á vettvagni Sameinuðu þjóðanna. 1994 gerðist Bengt Lindkvist, sem ég kynntist í norrænu samstarfi blindra, umboðsmaður fatlaðra hjá SÞ og þá voru samþykktar meginreglur í málefnum fatlaðra sem þjóðir heims eiga að taka mið af. Bengt var þingmaður og ráðherra í Svíþjóð og í forystu sænsku blindrasamtakanna. Í framhaldi af þessari vinnu hefur síðan verið unnið að samningum um sáttmála í málefnum fatlaðra sem hefði þá sambærilegt gildi og aðrir sáttmálar og mun án efa tryggja fötluðum víða um lönd verulegar réttarbætur ef af verður. Mér gefst kostur á því að sækja það sem við vonumst til að verði síðasta samningalotan nú í lok mánaðarins og ætla að reyna að miðla upplýsingum um viðræðurnar hér á síðunni.

Afgerandi meirihluti vill uppsögn varnarsamningsins

blog

Í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslands, 17. júní, bað ég Gallup að kanna afstöðu þjóðarinnar til uppsagnar hins svokallaða „varnarsamnings“ við Bandaríkin. Mér hefur þótt lítill mannsbragur að framgöngu Geirs Haarde í viðræðum við Bandaríkin, fumkennt og fálmkennt allt og búið að kokgleypa stóru yfirlýsingarnar um uppsögn samningsins sem fyrirrennari hans Davíð Oddsson gaf út. Því lék mér forvitni á að vita hver afstaða þjóðarinnar væri í málinu og er skemmst frá því að segja að afgerandi meirihluti er fyrir uppsögn samningsins, en 53,8% eru frekar eða mjög hlynnt uppsögn, en aðeins 24,8% voru frekar eða mjög andvíg uppsögn eða ríflega tveir á móti einum. Þegar skoðaðir eru þeir sem eru mjög hlynntir eða mjög andvígir uppsögn eru skilin enn skarpari því þriðjungur svarenda er mjög hlynntur uppsögn meðan innan við tíundi hver er mjög andvígur. Þá vekur athygli að fleiri sjálfstæðismenn eru hlynntir uppsögn samningsins en andvígir, eða 41,5% meðan 37,8% eru andvíg. Eru þar með fleiri hlynntir uppsögn en andvígir í öllum flokkum þó sá munur sé trúlega innan skekkjumarka í Sjálfstæðisflokknum. Það var IMG Gallup sem framkvæmdi könnunina fyrir mig og var fjöldi svarenda 802, svörin voru greind eftir kyni, aldri, búsetu, fjölskyldutekjum, menntun og stjórnmálaskoðun. Til að skoða könnunina nánar geturðu smellt á hlekkinn hér að neðan. En meginniðurstöður voru þessar mjög hlynnt því að Íslendingar segi upp varnarsamningi við Bandaríkin voru 33,2%, frekar hlynnt voru 20,6%, hvorki né voru 21,3%, frekar andvíg voru 15,4% og mjög andvíg voru 9,4%.

Samfylkingin hefur kallað eftir því að virkjuð sé 7. grein samningsins sem setur í gang formlegt málamiðlunarferli sem lyktað getur með formlegri uppsögn samningsins. Það er auðvitað löngu tímabært að taka það skref enda ljóst að enginn áhugi er á því hjá þjóðinni að framlengja varnarsamningnum við Bandaríkin. Það er nauðsynlegt fyrir forsætisráðherra að vita þegar hann hittir fulltrúa bandaríska hersins hinn 7. júlí næstkomandi að þjóðin vill einfaldlega segja þessum samningi upp.

7. gr. Varnarsamningsins hljóðar svo:

Hvor ríkisstjórnin getur, hvenær sem er, að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstjórnarinnar, farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins, að það endurskoði, hvort lengur þurfi á að halda framangreindri aðstöðu, og geri tillögur til beggja ríkisstjórnanna um það, hvort samningur þessi skuli gilda áfram. Ef slík málaleitan um endurskoðun leiðir ekki til þess, að ríkisstjórnirnar verði ásáttar innan sex mánaða, frá því að málaleitunin var borin fram, getur hvor ríkisstjórnin, hvenær sem er eftir það, sagt samningnum upp, og skal hann þá falla úr gildi tólf mánuðum síðar. Hvenær sem atburðir þeir verða, sem 5. og 6. gr. Norður-Atlantshafssamningsins tekur til, skal aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, látin í té á sama hátt. Meðan aðstaðan er eigi notuð til hernaðarþarfa, mun Ísland annað hvort sjálft sjá um nauðsynlegt viðhald á mannvirkjum og útbúnaði eða heimila Bandaríkjunum að annast það

Skýrslan er hér

Léttum af leyndinni

blog

Það vekur athygli að aðalforstjóri Alcoa hefur kosið að fjalla opinberlega um orkuverð hjá Landsvirkjun í brasilískum fjölmiðlum. Þar er eftir honum haft að á Íslandi greiði hann ekki nema helming þess raforkuverðs sem hann er krafinn um í Brasilíu. Þessar yfirlýsingar koma á óvart þegar litið er til þess að trúnaður var um verðið í samningunum. Það er hinsvegar fagnaðarefni að sá trúnaður hafi verið rofinn af Alcoa, því það á auðvitað ekki að vera leyndarmál gagnvart Íslendingum hvert orkuverðið er í stærstu framkvæmd Íslands-sögunnar, þó aðrir minni samningar hafi til þessa verið taldir til viðskiptaleyndarmála.

 

Eftir að Alcoa hefur, að því er virðist, rofið trúnað um orkuverðið hlýtur Landsvirkjun að krefjast þess að það verði gert opinbert. Stjórnendur hennar koma auðvitað mjög illa út þegar alþjóðlegur viðskiptamógúll einsog aðalforstjóri Alcoa segir þá ná helmingi lægri orkuverðum en menn gera í suður Ameríku og geta varla setið undir því. Sem kunnugt er greiddi ég einn stjórnarmanna atkvæði gegn þessum samningum, en ég held að það sé nú orðið mikið hagsmunamál þeirra sem fyrir samningunum stóðu að þeir verði gerðir opinberir og hyggst ég þess vegna leggja það til á næsta stjórnarfundi Landsvirkjunar síðar í þessum mánuði.

 

Upplausn í ríkisstjórn

 

Ef hægt væri að finna til samúðar með Framsóknarflokknum hefði maður fundið ríkulega til hennar undanfarna daga. Eftir að hafa þjónað undir Sjálfstæðisflokkinn í nær tólf ár er flokkurinn að engu orðinn, eins og augljóst var að verða myndi og hent hefur alla þjónustuflokka Sjálfstæðisflokksins til þessa. Árum saman blekktu Framsóknarmenn sig með því að þeir næðu sér alltaf upp í kosningum en mættu í þessum sveitarstjórnarkosningum þeim kalda veruleika að það er ekki hægt að plata alla alltaf, þrátt fyrir allar auglýsingarnar.

 

Afsögn Halldórs sýnir okkur líka að þó menn efist stundum um lýðræðið okkar þá virkar það þó hægt fari. Þannig hlaupa menn ekki til og segja af sér þegar þeir gera grundvallarmistök eins og að gera okkur aðila að ólögmætum stríðsaðgerðum í Írak. En þeir sem þannig fara gegn vilja þjóðarinnar neyðast nú samt til að hætta „af sjálfsdáðum“ þó síðar sé.

 

Geir Haarde verður nú þriðji forsætisráðherrann á jafnmörgum árum og útlit fyrir að jafn oft verði skipt í ýmsum lykilráðuneytum. Slíkur hringlandaháttur er birtingarmynd á óstarfhæfri ríkisstjórn enda er hún ófær um að taka á öllum helstu málum, s.s. efnahagsmálum, varnarmálum og vandanum í velferðarkerfinu. Hreinlegast væri auðvitað að kjósa bara strax og freista þess að koma á festu til fjögurra ára í landsstjórninni, en vísast eru stjórnarflokkarnir of hræddir til þess að fara í kosningar.

Til varnar Davíð

blog

Álitshafar éta það nú upp hver eftir öðrum að fylgi Sjálfstæðisflokks hafi aukist mikið við að losna við Davíð Oddsson og sókn hans sé mikil inná miðjuna. Þetta er ljótur leikur þegar menn vita að seðlabankastjóri getur ekki varið hendur sínar og helsti talsmaður hans múlbundinn í Hæstarétti. Þessar túlkanir, sem bersýnilega eru að undirlagi Geirs Haarde og félaga, eru ekki aðeins ósanngjarnar gagnvart Davíð  heldur beinlínis rangar.

 

Allir sem eitthvað þekkja til stjórnmála vita að þar er reikningsárið kjörtímabilið og þróun er borin saman frá einu kjörtímabili til annars. Í áreiðanlegri 6000 manna könnun Gallup í janúar mældist Sjálfstæðisflokkurinn með rúmlega 42% fylgi. Í sama mánuði 2002 mældist hann með sama fyli hjá sama könnunarfyrirtæki. VG og Framsókn mælast nú með tæplega 2-3% minna fylgi hvor en þá, en breyting Frjálslyndra er innan skekkjumarka, eða lækkun um 1%. Eina verulega breytingin er að fylgi Samfylkingar er nú 27% en var þá aðeins 20% og er þannig þriðjungi meira. Allir vita svo að sterk staða Samfylkingar í sveitarstjórnarmálum, glæsileg prókjör o.fl. mun auka fylgi hennar frameftir árinu með sama hætti og 2002.

Þegar fylgisbreytingar milli mánaða verða ímyndunarafli manna efni til dramatískra kenninga um ris og hnig í stjórnmálum er það yfirleitt til marks um að þeir hafi of lítið fyrir stafni hvunndags og leiðist fréttaleysið í littlum bæ.

Hættulegustu menn í heimi

blog

Saga mannkyns sýnir að hættulegustu menn sögunnar eru handhafar sannleikans. Þeir eru til á öllum öldum, í flestum trúarbrögðum, kynþáttum og stjórnmálahreyfingum. Þessir umboðsmenn sannleikans verða hættulegir þegar sjálfsupphafning þeirra nær því stigi að þá varðar ekki lengur um almennt siðferði og þeir taka án laga og réttar að dæma fólk og refsa í nafni sannleikans.

Eftir harmleikinn á Ísafirði virtist augljóst að margt það ágæta fólk sem á og vinnur fyrir DV myndi harma atburðinn, af augljósum ástæðum yfirfara og meta vinnubrögð í málinu og taka til endurskoðunar ritstjórnarstefnu blaðsins í ljósi atburðarins og viðbragða almennings.

Þess í stað kom Jónas Kristjánsson f.h. DV í Kastljós og sagði okkur að grundvallaratriðið væri SANNLEIKURINN; að munurinn á siðferði þeirra og okkar hinna væri að þeir byggðu sínar siðareglur á SANNLEIKANUM. Eftir að hafa sent aðstandendum hins látna samúðarkveðjur sagði ritstj. að þeir hefðu ekki orðið fyrir neinu. Það var eftir að hann  tilkynnti að í nafni sannleikans muni blaðið halda áfram réttarhaldi yfir hinum látna meðan líkið bíður kistulagningar. Óvenjuleg heift í garð hin látna en ritstj. neitaði þó að hafa fellt dóm yfir honum, um leið og hann fjallaði um þolendur gerða hans ítrekað án fyrirvara. Einkennilegust var þó sú afstaða ritstj. að þeir sem höfðu önnur sjónarmið en hann voru að kæfa og gera sakbitna pilta sem orðið höfðu fyrir hræðilegum glæp, þeir voru að innleiða tíma Steingríms Njálssonar, voru sósíalfasistar eða stjórnuðust af annarlegum hvötum.

Nú verður ritstj. að ráða sjálfsvirðingu sinni, en viðbrögð hans eru á ábyrgð eigenda og samstarfsmanna meðan hann er fulltrúi þeirra. Illt væri ef forherðing ritstj. gerði að engu ýmsa ágæta viðleitni samverkafólks hans og eigenda blaðsins. Þeir þættir í stefnu blaðsins um að gera ógæfu og einkamál almennra borgara að söluvöru og þó einkum hitt að taka sér dóms- og refsivald í glæpamálum þjónar ekki afkomu blaðsins, efni þess, starfsmönnum, hag eigendanna, lesendum, almennu siðferði né nokkrum öðrum hlut. Frá þeim stefnuþáttum sem engum eru til framdráttar hljóta menn að hverfa.