Veiðigjöldin

Uncategorized

Önnur umræða um veiðigjaldafrumvarpið hófst loksins fyrir helgi. Það er löngu orðið tímabært að taka efnislega umræðu um málið og því læt ég ræðu mína úr þinginu fylgja hér:

Virðulegur forseti. Okkur Íslendingum eru gjafir gefnar. Þeirra stærst er trúlegast náttúruauðlindin sem fólgin er í fiskinum í sjónum umhverfis landið. Fyrir fámenna þjóð eins og okkur er hún svo gríðarleg, það lætur nærri að á hverjum einasta degi sé veitt úr þeirri auðlind sem nemur 10 kílóum fyrir hvert mannsbarn í landinu. Það er augljóslega miklu meira en við þurfum sjálf til matar. Hún leggur þann gríðarlega sterka grunn sem er undir íslensku efnahagslífi og tryggir okkur velferð umfram þær þjóðir sem ekki búa að slíkum auðlindum.

Einmitt þess vegna voru það hræðileg mistök að einkavæða þessa auðlind okkar og það hvernig að því var farið eru sennilega einhver stærstu pólitísku mistök sem gerð hafa verið síðustu áratugi á Íslandi. Kvótabraskið, sú auðlegð sem tekin var út úr greininni með því að skuldsetja hana, sá skyndigróði sem fór tilviljanakennt hingað og þangað og á endanum inn í Kauphöllina og varð trúlega forsmekkurinn að því braski og þeim óeðlilegu viðskiptaháttum sem enduðu með því að íslenska efnahagskerfið kollsigldi, voru mistök sem voru afdrifarík og það hefur verið mikilvægt verkefni að leiðrétta þau alla tíð síðan. Það hefur gengið vonum seinna, það hefur tekið hátt í þrjá áratugi að koma því almennilega á dagskrá hér, stundum vegna þess að ekki hefur verið nægilegur pólitískur vilji til að taka á brýnum úrlausnarefnum til úrbóta á kvótakerfinu — sem hefur raunar ýmsa kosti sem fiskveiðistjórnarkerfi — sem sannarlega hefur þurft að taka á, en stundum hefur það stafað af því að menn hafa leitast við að leysa úr mörgum stórum úrlausnarefnum í einu til úrbóta á þessu kerfi.

Þar á ég einkum við að menn hafa gert atrennur að því að leysa það augljósa vandamál sem er að almenningur á Íslandi nýtur ekki eðlilegs arðs af auðlind sinni og leysa fiskveiðistjórnarþátt málsins á sama tíma. Hvort þessara verkefna um sig er gríðarstórt og bæði eru afar mikilvæg. Til þessa hefur ekki tekist að reyna að leysa þau bæði í einu. Ég hef þess vegna verið þeirrar skoðunar um nokkurt skeið að rétt væri að skilja að þessi úrlausnarefni og fást við þau hvort í sínu lagi, meðal annars vegna þess að ég hef verið þeirrar sannfæringar að mikill meiri hluti íslensku þjóðarinnar, fólk í öllum stjórnmálaflokkum, væri í raun sammála um að það væri hverjum manni augljóst að almenningur nyti ekki eðlilegs arðs af auðlindinni, að sá einkaréttur sem ákveðnir aðilar njóti í aðgangi að auðlindinni skapi, ekki síst nú á allra síðustu árum, svo gríðarlega mikinn arð að það sé fullkomlega óeðlilegt annað en að fólkið í landinu, sem hefur þurft að axla verulega miklar byrðar í kjölfar hrunsins, mátt þola kaupmáttarrýrnun o.s.frv., fái að njóta góðs af þeim gríðarlega gróða sem er sem betur fer í þessari undirstöðuatvinnugrein.

Hitt er síðan flóknara úrlausnarefni og kannski ólíkt fleiri sjónarmiðum, það er hvernig best sé að haga fiskveiðistjórnarþætti málsins. Þess vegna beitti ég mér fyrir því þegar hér var lagt fram frumvarp í sjávarútvegsráðherratíð Jóns Bjarnasonar að þar var sett inn sérstakt bráðabirgðaákvæði, ég hygg að það hafi verið nr. 8, sem laut einmitt að því að skipa skyldi nefnd í því skyni að gera tillögur um með hvaða hætti skattleggja mætti umframhagnað í sjávarútvegi, auðlindarentuna. Og þó að það frumvarp yrði ekki að lögum varð það eigi að síður úr að skipuð var nefnd til að fara yfir það viðfangsefni. Ég sat í þeirri nefnd sem fulltrúi forsætisráðherra ásamt Indriða H. Þorlákssyni, fulltrúa þáverandi fjármálaráðherra sem nú er efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ásamt hagfræðingi úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

Það er fagnaðarefni að mínu viti að við höfum núna fengið inn í þingið, ólíkt því sem var í fyrra sinnið, tvö þingmál til að fást við, annars vegar það sem hér liggur fyrir og snýr að veiðigjaldinu og byggir að hluta til á vinnu þeirrar nefndar sem ég vísaði til áðan. Hins vegar er til meðhöndlunar í þinginu frumvarp til laga um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þetta eru tvö úrlausnarmál og ég held að það hafi verið farsælt að leggja þau fram sem tvö aðskilin mál vegna þess að þetta eru aðskilin viðfangsefni. Ég fullyrði að þrátt fyrir langar ræður í dag sé meira og minna samhljómur í þinginu um það mál sem er til umfjöllunar núna, þ.e. veiðigjaldamálið. Eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið á því í hv. atvinnuveganefnd þar sem gjaldið hefur verið lækkað um 6–7 milljarða kr. á ársgrundvelli, í það mesta kannski fyrir minn smekk, niður í 15 milljarða, séu þau sjónarmið sem uppi eru í þinginu í öllum aðalatriðum nokkuð samhljóða.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað um að þeir teldu eðlilegt að veiðigjöld næmu um 10–12 milljörðum kr. og hver er þá ágreiningurinn í þessu máli? Hann er ekki um það hvort það eigi að greiða veiðigjöld, nei, sá ágreiningur er ekki fyrir hendi. Hann er ekki um það hvort greiða eigi umtalsverð veiðigjöld, nei. Menn eru sammála um að miðað við þá gríðarlega sterku afkomu sem er í sjávarútveginum núna, nærfellt 80 milljarða framlegð á ári eða sem nemur hátt í einni millj. kr. á hvert heimili í landinu, sé sjálfsagt og eðlilegt að sjávarútvegurinn leggi ríkulega til til að létta byrðarnar í samfélaginu og koma í veg fyrir að fólkið í landinu þurfi að greiða meiri skatta en þegar er orðið, enda er nóg orðið. Það er í sjálfu sér ekki nýmæli að stjórnarandstaðan hafi hugmyndir um að gjaldið ætti kannski að vera eilítið lægra en stjórnarmeirihlutinn telur, það er ekki ágreiningur um nein grundvallaratriði. Menn eru sammála um grundvallaratriðin, það á að greiða umtalsvert veiðigjald og það er bara eðli lýðræðisins að stjórnarmeirihluti fái því framgengt að það sé ívið meira en minna sem tekið er í gjöld af einni atvinnugrein. Meðan þessi meiri hluti er í þinginu er eðlilegt að minni hlutinn hér láti stjórnarmeirihlutanum það eftir að leggja á gjöld meðan þau eru ekki út úr öllu korti eða setja atvinnuveginn á hausinn eða annað þess háttar. Og þegar ekki er meiri munur en hér um ræðir, 10–12 milljarðar á aðra höndina hjá stjórnarandstöðunni og um 15 milljarðar hjá stjórnarmeirihlutanum, er augljóslega um að ræða bitamun en ekki fjár. Þess vegna segi ég að það er í öllum aðalatriðum samhljómur í þinginu um meginatriðin í þessu máli, um veiðigjaldið.

Það er erfitt að tala um milljarða og það er flókið að tala um prósentur. Ég held þess vegna að við eigum að einfalda umræðuna og tala bara um kíló. Við vitum öll hvað kíló er, það hafa allir farið út í fiskbúð og keypt sér kíló af fiski. Hvað er þetta ógurlega veiðigjald sem sumir hafa með himinskautum farið um og lýst yfir að það muni setja sjávarútveginn á hausinn? Jú, það er fast veiðigjald annars vegar sem nemur tæpum 10 krónum fyrir hvert kíló sem veitt er, það er nú allt og sumt, nánar tiltekið 9,50 kr. Það er það gjald sem sjávarútvegurinn mun greiða óháð afkomu fyrir aðganginn að auðlindinni. Ég held að allir geti verið sammála um að enginn mun setja fyrir sig gjald upp á 9,50 kr. á hvert kíló sem sækja á í sjó. Það munu allir útgerðarmenn í landinu vera tilbúnir til þess að sækja sjó á þeim kjörum og það munu fleiri til vilja komast í þau forréttindi að hafa þann aðgang að auðlindinni fyrir 9,50 kr.

Hvað er það svo sem bætist við með sérstöku veiðigjaldi nú þegar árferði í sjávarútveginum er með eindæmum? Nú þegar tunnan af norðursjávarolíu er sem betur fer komin undir 100 dollara? Nú þegar yfir 100 þúsund tonn af makríl hafa synt inn í lögsöguna og orðið okkur gríðarlega mikill fengur? Nú þegar við sjáum fram á aflaaukningu í haust í þorski ef að líkum lætur, jafnvel 20 þúsund tonn? Nú þegar gengi íslensku krónunnar er í sögulegu lágmarki sem hefur gríðarleg áhrif á afkomu í sjávarútveginum? Jú, þá er til þess ætlast að greinin skili rétt liðlega 20 krónum í viðbót fyrir hvert kíló, (Gripið fram í.) kannski 22. (Gripið fram í.) 15 milljarðar, virðulegur þingmaður Einar K. Guðfinnsson, deilt með um 450 þorskígildistonnum mundi nema svo sem eins og 33 kr. samanlagt úr fasta veiðigjaldinu og hinu sérstaka. Látum það liggja á milli hluta, þó að það væru 40 kr.

Ef við auglýstum nú á sunnudaginn í Morgunblaðinu, sem ég veit að hv. þingmanni þykir vænt um, eftir aðilum sem væru tilbúnir til að sækja sjó upp á þau býtti að greiða 40 kr. fyrir hvert þorskkíló sem þeir draga að landi yrðu umsóknirnar margfalt fleiri en heimildirnar sem við gætum boðið þeim. Markaðurinn mundi verðleggja þetta miklu hærra. Fyrir þessar heimildir hafa menn greitt til eignar í aðdraganda hrunsins allt að 4.200 kr. Leiguverð hefur jafnvel hlaupið á hundruðum króna og verið algjörlega óhæfilegt. Ég gæti aldrei mælt með því að slík gjöld yrðu innheimt í ríkissjóð af þeim sem stunda sjóinn. Það verður auðvitað að gæta að því að í sjávarútvegi sé góð afkoma, mikill hagnaður og að þar sé aukin hagkvæmni með fjárfestingu o.s.frv. En þegar framlegðin er nærfellt 80 milljarðar eru 15 milljarðar í veiðigjöld alls ekki óhófleg. Það sér það hver maður í hendi sér að það mun enginn fúlsa við því við þær aðstæður sem nú eru í genginu, í aflabrögðum, í olíuverðinu, að fá að veiða fisk upp á þau býtti.

Þess vegna er auðvitað enginn raunverulegur ágreiningur um þetta efni í þinginu. Við heyrum hins vegar frá stjórnarandstöðunni að þetta gæti verið næstum því í lagi ef ekki yrðu gerðar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Hvað eru menn þá að segja? Þá eru menn að segja að í því kerfi sem við rekum í dag sé mikil hagkvæmni, þar sé mikill arður og það sé sjálfsagt og eðlilegt að greiddar séu verulegar fjárhæðir af þeim arði inn í sameiginlega sjóði landsmanna sem geta dugað okkur til að reka heilu spítalana, heilu skólastofnanirnar í samfélaginu og stutt við þróun og fjölgun starfa í samfélaginu, ekki veitir af, og fjölmörg önnur þörf verkefni. Þeir leggja áherslu á að til þess að það sé hægt sé gríðarlega mikilvægt að ekki sé dregið úr hagkvæmninni í greininni.

Því sjónarmiði deili ég með hv. þingmönnum. Ég held að þingið verði að ganga mjög varlega fram í þeim breytingum sem það gerir á fiskveiðistjórnarkerfinu einmitt til þess að draga ekki úr hagkvæmni þess, til þess að draga ekki úr arðinum í sjávarútveginum, til þess að þar sé nóg til skiptanna. Ef við stöndum rétt að málum er nóg til skiptanna fyrir alla. Sjómenn búa sem betur fer við miklu betri kjör en þeir gerðu um langt árabil. Útgerðarmenn hafa verið að græða á tá og fingri og almenningur getur sannarlega notið ríkulegra ávaxta af þessari undirstöðuatvinnugrein ef við stöndum vörð um arðsemina. Ég hvet hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar til að gera þá frekar ágreining um hitt þingmálið, um fiskveiðistjórnarmálið, og setja fram sjónarmið sín um með hvaða hætti megi tryggja sem best hagkvæmnina í fiskveiðistjórninni, en láta af þeirri uppgerðarandstöðu sem ég vil segja að sé við þetta mál.

Það er eðlilegt að hreyfa sjónarmiðum um að menn telji að veiðigjöld eigi að vera nokkrum milljörðum lægri, 10–12 milljarðar í stað 15, eins og þingmennirnir hafa haldið fram, en það er ekki neitt meginmál. Það er ekki mál til þess að halda þinginu í gíslingu eða stunda málþóf um í marga daga út af. Það er heldur ekki svo að þetta frumvarp, jafnvel í sinni fyrri gerð, hefði sett hér allt á hliðina. Það tók þó því miður ekki tillit til krókaaflamarkskerfisins, litla kerfisins sem kallað er, þar sem kaup og sala á aflaheimildum hófst ekki fyrir alvöru fyrr en eftir 2004. Það þýðir að mörg smærri fyrirtæki eru skuldsett af kvótakaupum og við verðum að horfast í augu við það, Íslendingar, að það tekur tíma að vinda ofan af því sem hefur verið að byggjast upp eftir einkavæðingu kvótakerfisins. Við verðum að horfast í augu við að ýmsir einstaklingar réðust í fjárfestingar nýverið og eru enn skuldsettir vegna þeirra. Það er þess vegna fagnaðarefni að atvinnuveganefndin hefur tryggt að tekið verður tillit til skulda sem menn hafa stofnað til á þessari öld vegna kvótakaupa og verður gjaldið aðlagað að því.

Hvað varðar áhrif þessa á það að gera fyrirtæki ógreiðslufær eða að mikið tjón verði í viðskiptabönkunum vegna frumvarpsins hefur í fyrsta lagi farið fram fjárhagsleg endurskipulagning í bönkunum á fjölmörgum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Það þýðir að þau hafa verið núllstillt sem kallað er, þ.e. skuldir þeirra hafa verið lækkaðar í fjárhæð sem talið er að þau geti ráðið við við óbreyttar aðstæður, muni rétt merja það. Hvað þýðir það? Það þýðir að ef eitthvað breytist í þeim forsendum eru þau fyrirtæki ógjaldfær. Ef veiðigjaldið væri hækkað um 1 milljarð eða 2 milljarða eða upp í 10 eða 12, eins og minni hlutinn í þinginu hefur léð máls á, væru þessi fyrirtæki ógjaldfær af því að þau voru endurskipulögð miðað við miklu lægra veiðigjald.

Hvað gerist þá? Fara þessi fyrirtæki á hausinn? Í langfæstum tilfellum. Í langflestum tilfellum eru það hagsmunir lánardrottnanna að taka fyrirtækin aftur til fjárhagslegrar endurskipulagningar, færa skuldir þeirra niður og þar með yrðu áhrifin af frumvarpinu til þess að lækka skuldir sjávarútvegsins, sem er í sjálfu sér jákvætt fyrir sjávarútveginn. Það þýðir að kröfuhafarnir — auðvitað eru það að verulegu leyti erlendir aðilar — í viðskiptabankana þurfa að sætta sig við eitthvað minni endurheimtur. Þeir verða að sætta sig við að þeir geta ekki skuldsett íslenska sjávarútveginn jafngríðarlega og þeir höfðu áður ætlað, en ástæðan fyrir því er að þeir hafa skuldsett hann ótæpilega.

Þessar fjárhæðir eru ekki af neinum þeim stærðargráðum að þær ógni viðskiptabönkunum eða stöðugleika fjármálakerfisins. Við í efnahags- og viðskiptanefnd fengum gesti frá bönkunum til að fara yfir þetta með okkur á meðan frumvarpið var í sinni upprunalegu mynd. Þá var þegar ljóst að það mundi kalla á umtalsverða endurskipulagningu hjá fjölmörgum fyrirtækjum en mundi sannarlega ekki ríða bönkunum á slig, fjarri því. Og nú, eftir að gjaldið hefur verið lækkað verulega á milli umræðna, er ljóst að áhrifin verða enn þá minni.

Rætt hefur verið um hversu lengi við eigum að halda áfram inn í sumarið hér í þinginu. Það er einlæg sannfæring mín að við eigum að ljúka því máli sem hér er fyrir. (Gripið fram í.) Sú staðreynd að íslenskur almenningur hefur ekki fengið eðlilegt endurgjald af meginauðlind sinni og að gróðinn í greininni og stundum sóunin í meðferð þeirra auðæfa sem tekin hafa verið út úr greininni og hún skuldsett fyrir, hefur verið með þeim hætti að meðan við tökum ekki á því verður aldrei friður um starfsskilyrði sjávarútvegsins. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt og ég held að útvegsmenn um land allt séu sér vel meðvitaðir um mikilvægi þess að hér fáist sæmileg sátt um greinina. Sú sátt fæst með því að almenningur fái eðlilega hlutdeild í arðinum.

Það var að minnsta kosti reynsla mín af viðbrögðum Útvegsmannafélags Reykjavíkur við hinu fyrra frumvarpi að það var ekki það að ætlast væri til þess að þeir legðu meira í sameiginlega sjóði sem truflaði þá útvegsmenn. Það sem truflaði þá útvegsmenn var að ætlunin var að taka af þeim veiðiheimildir, að þá áttu einhverjir aðrir að veiða fiskinn sem þeir hafa veitt hingað til, það var þeirra hjartans mál. Það eru auðvitað gild sjónarmið og þau sjónarmið hljóta að koma til umræðu við umfjöllunina um fiskveiðistjórnarfrumvarpið. En ég hvet til þess að við ljúkum umræðu um þetta mál og tökum stærra málið á dagskrá og kappkostum að ganga þannig frá því að áfram verði tryggð eðlileg arðsemi og hagkvæmni í sjávarútvegi.