Uncategorized

Umhverfisvænni ferðaþjónusta á Norðurlöndum

Uncategorized

Umhverfisvitund er óvíða í heiminum, meiri en hjá Norðurlandabúum. Mörg veltum því daglega fyrir okkur hvernig við getum minnkað álagið á náttúruna og unnið gegn loftslagsbreytingunum.  En þrátt fyrir þessa jákvæðu staðreynd höfum við enn mikið verk að vinna áður en samfélag okkar getur talist sjálfbært og það á sannarlega við um hina ört vaxandi ferðamannaþjónustu. Vegna þessa hafa  jafnaðarmenn í Norðurlandaráði lagt til að komið verði á fót sérstakri norrænni umhverfisvottun, til að auðvelda og efla  umhverfisvæn ferðalög um Norðurlöndin.

Einfaldar og skýrar merkingar er mikilvæg forsenda þess að neytendur geti með auðveldum hætti tekið umhverfisvænar ákvarðanir í erli dagsins. Það má ekki vera flókið og tímafrekt að velja þann kost sem hefur minnst áhrif á umhverfið og viðskiptavinirnir eiga ekki að þurfa að rannsaka sjálfir hvaða áhrif varan eða þjónustan hefur. Ábyrgðin í þessum efnum liggur ekki síst hjá okkur stjórnmálamönnum enda er það er okkar hlutverk að tryggja hagsmuni neytenda og auðvelda þeim hversdaginn.

Við jafnaðarmenn sjáum það einnig fyrir okkur, að græna hagkerfið skapi sífelt stærri hluta af framtíðarstörfum okkar og með sérstakri umhverfisvottun fyrir norræna ferðaþjónustu getum við tekið mikilvægt skref í þá átt að norræn ferðaþjónusta verði leiðandi í þessum efnum, í stað þess að dragast afturúr.

Norðurlandaráð hefur áður beitt sér fyrir norrænu umhverfismerki með góðum árangri, en norræna umhverfismerkið Svanurinn er í dag þekktasta umhverfismerkið í heiminum. Með auknum áhuga almennings á að nýta sér umhverfisvænar vörur og þjónustu sjáum við síðan hvernig vaxandi fjöldi fyrirtækja á sífelt fleiri sviðum viðskiptalífsins vilja nú bæta umgengni sína við náttúruna með því að óska eftir Svansmerkingu.

Jafnaðarmenn í Norðurlandaráði vilja koma á fót sambærilegu umhverfismerki fyrir ferðaþjónustuna. Með sama hætti og við getum í dag valið að kaupa Svansmerkt þvottaefni til að vernda umhverfið viljum við að í náinni framtíð getum við  sem ferðamenn valið áfangastað eða upplifun sem er umhverfisvænsti kosturinn. Tilraunaverkefni hafa sýnt, að þeir ferðaþjónustuaðilar sem vinna samhvæmt skýrum umhverfisstöðlum sem slíku merki myndu fylgja, geta með umtalsverðum hætti dregið úr neikvæðum áhrifum sínum á umhverfið.

Auk þess að auðvelda almenningi að ferðast með umhverfisvænum hætti, myndi merkið því stórauka umhverfisvitun hjá fyrirtækjunum sjálfum og stuðla að jákvæðri þróun ferðaþjónustunnar í átt til umhverfivænni starfshátta. Umhverfisvernd og sjálfbærni yrði sett skörinni hærra innann ferðaþjónustunnar og slíkt starf gæti skapað umhverfisvottuðum fyrirtækjum mikilvægt viðskiptaforskot.

Norræn umhverfisvottun fyrir áfangastaði og upplifanir ferðaþjónustunnar gæti enn fremur stuðlað að auknum ferðamannastraum til Norðurlandanna. Sameiginlegt umhverfismerki gæfi okkur t.d. kost á  að markaðssetja Norðurlöndin sem umhverfisvænasta svæðið í Evrópu. Með því að undirstrika áherslu Norðurlandanna á umhverfismálin gætum við því fjölgað heimsóknum ferðamanna og fjölgað störfunum, ekki síst á svæðum sem á undanförnum árum hafa þurft að þola fólksfækkun.

Norræn umhverfisvottun fyrir ferðaþjónustana og stóraukin áhersla hennar á sjálfbærni skapar því fleiri störf, grænni störf og gerir hversdaginn fyrir ferðamenn og samfélagið í heild, umhverfisvænni og grænni.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. september sl.  Höfundar eru auk mín þau Per Rune Henriksen, Sjúrður Skaale, Ann-Kristine Johansson og Per Berthelsen en öll erum við fulltrúar í þingflokki Jafnaðarmanna í Norðurlandaráði.

Fleiri leiguíbúðir

Uncategorized

Það er gaman að sjá  áherslur nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar eru barnafjölskyldur, lýðræðisþróun og ekki síst húsnæðismál í forgangi. Meðal þess gleðilega eru áform nýja meirihlutans um byggingu þúsunda leiguíbúða og búseturéttaríbúða á næstu árum. Það er einfaldlega mjög brýnt að auka framboð á leiguíbúðum sem bjóðast á sanngjörnum kjörum til langs tíma og líka að fjölga valkostum okkar í húsnæðismálum. Búseturéttaríbúðir hafa reynst góður valkostur fyrir marga og sameina að ýmsu leyti kosti þess að eiga og leigja. Áform um fjölgun félagslegra íbúða eru einnig sérstaklega ánægjuleg enda biðlistar eftir slíkum íbúðum enn allt of langir. Ástandið í húsnæðismálum hefur ekki farið framhjá neinum og mikilvægt að stjórnmálamenn setji framfarir þar í forgang því húsnæðismálin skipta svo miklu fyrir velferð fólks.

Það er ekki bara skortur á leiguíbúðum sem hefur skapað leigjendum erfiða stöðu. Því miður ákváðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur á Alþingi í vor að sleppa því sérstaklega að leiðrétta lán á leiguíbúðum og búseturéttaríbúðum þannig að hækkanirnar á leigu og lánum hjá þessum hópum eru óleiðréttar meðan þeir sem eiga húsnæði hafa fengið loforð um leiðréttingu úr ríkissjóði. Við þetta bætist að ríkið hefur lengi veitt meiri peningum í vaxtabætur til þeirra sem kaupa en í húsaleigubætur til þeirra sem leigja. Á síðasta kjörtímabili kynntum við tillögur um að sameina vaxta- og húsaleigubætur þannig að þeir sem eiga húsnæði og leigja sitji við sama borð. Það er mikilvægt að sú breyting verði gerð nú í kjölfar skuldaaðgerða því það er einfaldlega ósanngjarnt að þeir sem leigja fái minni stuðning en hinir sem kaupa.

Heimilin í forgang

Fyrsta þingmál okkar í Samfylkingunni á Alþingi á þessu kjörtímabili var um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi. Erfið staða margra í húsnæðismálum kallaði á það en líka sú staðreynd að við þurfum að fjölga möguleikum fólks til að vera í öruggu húsnæði. Slæm reynsla af stökkbreytingu lána og því hvað mikil skuldsetning  íbúðarhúsnæðis er viðkvæm fyrir sveiflum á fasteignamarkaði, kaupmáttarbreytingum og vaxtahækkunum veldur því að mun fleiri vilja aðra valkosti í húsnæðismálum en 100% lán með tilheyrandi skuldsetningu.

Það er sameiginlegt framtíðarverkefni okkar allra að stuðla að uppbyggingu heilbrigðs og réttláts húsnæðiskerfis með fjölbreyttum valmöguleikum sem koma til móts við þarfir ólíkra hópa. Þau skref sem nýr meirihluti í Reykjavík stígur í samstarfssáttmála sínum eru í þá átt. Ríkisstjórnin hefur enn tækifæri til að koma með í þennan leiðangur og sýna í verki að hún setji heimilin í forgang eins og lofað var fyrir síðustu þingkosningar. Hvort heimilin á leigumarkaði eru með í þeim forgangi fáum við að sjá í fjárlagatillögum ríkisstjórnarinnar í haust.

 

Greinin birtist í DV 13. júní sl.

Vel heppnuðu vorþingi Norðurlandaráðs lokið

Uncategorized

Norðurlandaráð kom saman á Akureyri nú í byrjun vikunnar til árlegs vorþings. Þema þingsins að þessu sinni var sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Málefni Rússlands og Úkraínu voru einnig rædd sérstaklega og yfirlýsing þar sem höfuðáherslan var lögð á þjóðarétt, lýðræði og mannréttindi var samþykkt samhljóða. Yfirlýsinguna má lesa hér.

Ég skrifaði í aðdraganda þingsins grein ásamt Karin Åström, forseta Norðurlandaráðs, sem birtist í Fréttablaðinu:

Friður, jöfnuður og auðlindir

Akureyri verður vettvangur samráðs og pólitískrar umræðu 87 þingmanna þegar Norðurlandaráð kemur þar saman til vorþings á morgun. Á dagskrá þingsins eru bæði átakamál þar sem mismunandi áherslur stjórnmálaflokkanna koma skýrt fram en einnig samstöðumál, þar sem stjórnmálamenn allra flokka vinna saman að mikilvægum hagsmunamálum. Jafnaðarmenn munu taka virkan þátt í þinginu enda er þingflokkur jafnaðarmanna stærstur í Norðurlandaráði með 26 þingmenn frá öllum Norðurlöndunum.

Afdráttarlaus afstaða Norðurlandaráðs í deilunni um Krímskagann er gott dæmi um það hvernig Norðurlöndin geta á vettvangi rá

ðsins tekið sameiginlega afstöðu í alþjóðlegum álitamálum. Á þinginu er áríðandi að Norðurlandaráð árétti skýra afstöðu sína í deilunni og leggi með þeim hætti mikilvægt lóð sitt á vogarskál friðar í Evrópu.

Á þinginu munu jafnaðarmenn leggja ríka áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, bæði með tilliti til umgengni okkar við lífríkið en ekki síður samfélagsins sem auðlindirnar fóstrar. Við verðum að tryggja að auðlindirnar nýtist komandi kynslóðum ekki síður en okkur sem nú lifum og við verðum að tryggja að arði af sameiginlegum auðlindum verði réttlátlega skipt og hann nýtist til uppbyggingar og samfélagslegra verkefna. Um þessi grundvallarsjónarmið standa norrænir jafnaðarmenn saman hvort sem rætt er um fisk, námugröft, skógarhögg, orku eða aðrar auðlindir Norðurlandanna.

Á Akureyri munu jafnaðarmenn einnig halda áfram sameiginlegri baráttu sinni fyrir uppbyggingu og þróun norræna velferðarkerfisins en í stjórnartíð hægrimanna hefur víða verið að því sótt á undanförnum árum. Ekki síst á þetta við um réttindi og stöðu launþega gagnvart félagslegum undirboð

um og langtímaatvinnuleysi ungs fólks. Afleiðingin er aukin lagskipting vinnumarkaðarins og aukinn ójöfnuður. Þessari þróun vilja jafnaðarmenn snúa við, m.a. með sameiginlegum aðgerðum Norðurlandanna gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði, aðgerðum gegn atvinnuleysi ungs fólks og með því að styrkja stöðu stéttarfélaga.

Á þingi Norðurlandaráðs leggja jafnaðarmenn því áherslu á frið, jöfnuð, réttlæti og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda – hér eftir sem hingað til.

Verðtryggingarstjórn Sigmundar

Uncategorized

Senn fer fyrsta ári þessa kjörtímabils að ljúka. Það væri mikil synd að segja að ríkisstjórnin hafi nýtt þennan tíma vel til góðra verka. Í stað þess að einblína á það að efna hin stóru kosningaloforð sín er nú til umræðu í þinginu tillaga um slit aðildarviðræðna við Evrópusambandið sem gengur þvert gegn kosningaloforðum stjórnarflokkanna og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Betur færi á því að tími þingsins væri nýttur í að ræða frumvörp um afnám verðtryggingar. Ekkert bólar hins vegar á slíkum frumvörpum og virðist sem Framsóknarflokkurinn ætli ekki að efna þetta stærsta kosningaloforð sitt. Það eina sem gerst hefur í málinu er að nefnd skipuð þeirra eigin fólki komst að þeirri niðurstöðu að öll tormerki væru á því að afnema verðtrygginguna, það væri mjög flókið og eiginlega ómögulegt. Það lá svo sem í augum uppi að framsóknarmenn myndu aldrei leggja til afturvirkt afnám en þeir hafa ekki einu sinni lagt fram þingmál um að draga úr vægi verðtryggingar eða um afnám til framtíðar.

Döpur framtíðarsýn

Með fyrrnefndri tillögu um slit aðildarviðræðna fjarlægist eini raunhæfi möguleikinn á því að minnka fjármagnskostnað heimila í landinu. Framlagning tillögunnar lýsir miklu ábyrgðarleysi þar sem stjórnvöld hafa engan veginn getað bent á raunverulegan valkost við núverandi ástand. Framtíðarsýnin virðist því vera sú að Íslendingar búi áfram við krónuna með þeim okurvöxtum, verðbótum og verðtryggingu sem henni fylgja, enda eru framsóknarmenn hættir öllu tali um norska krónu og kanadadollar. Skýr skilaboð atvinnulífsins sem birtust nýlega á Viðskiptaþingi og Iðnþingi undirstrika ennfremur hversu einangruð ríkisstjórnin er orðin í málflutningi sínum í gjaldmiðilsmálum.

Þetta er einfalt

„Þetta er einfalt,“ sagði formaður Framsóknarflokksins fyrir kosningar og átti þar við afnám verðtryggingar og leiðréttingu húsnæðislána. Afnám verðtryggingar átti að framkvæma þannig að fólki með verðtryggð lán yrði gert kleift að skipta yfir í óverðtryggð lán á stöðugum vöxtum. Það átti að tryggja íslenskum heimilum eðlileg lánakjör og skipta áhættunni milli lánveitenda og lántakenda. Allt hljómar þetta vissulega einfalt og því vaknar upp sú spurning hvað tefji fyrir framlagningu þingmála þess efnis. Í huga formannsins var val kjósenda síðastliðið vor mjög skýrt, annað hvort yrði hér mynduð framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn. Það skyldi þó ekki vera að fólk hafi kosið síðari kostinn eftir allt saman? Í nærri hundrað ár höfum við reynt að skapa stöðugleika og lága vexti með íslensku krónunni. Það hefur aldrei tekist og er fullreynt. Öllum má vera ljóst að til að skapa stöðugleika og lága vexti fyrir fólk og fyrirtæki þurfum við gjörbreytta stefnu, ekki síst nú þegar við erum komin með gjaldeyrishöft sem kosta okkur 80 þúsund milljónir á ári. Með því að slíta aðildarviðræðum er Framsókn að koma í veg fyrir breytingar án þess að leggja fram neina aðra stefnu en þá sem felst í áframhaldandi óstöðugleika og okurvöxtum krónunnar. Í því felst ekki afnám verðtryggingar heldur en hún þvert á móti fest í sessi til framtíðar.

 

Greinin birtist í DV 14. mars sl.

Snautleg framtíðarsýn utanríkisráðherra

Uncategorized

Framganga utanríkisráðherra í Evrópumálunum verður æ undarlegri svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þegar skýrsla Hagfræðistofnunar um stöðu aðildarviðræðna Íslands við ESB kom loksins fram beið ráðherra ekki boðanna og lagði fram tillögu um að slíta viðræðunum. Það gerði hann áður en umræðum um skýrsluna lauk á Alþingi og án þess að umsagna eða álits nokkurs aðila hafi verið leitað.

Í gær bætti hann svo um betur þegar Evrópustefna ríkisstjórnarinnar var kynnt á sama tíma og þingmenn ræða hina misráðnu tillögu um slit á aðildarviðræðunum. Samkvæmt Evrópustefnunni verður áherslan lögð á EES-samninginn og á grundvelli hans á að sækja rétt okkar og reyna að hafa áhrif. Norðmenn kynntu fyrir rúmum tveimur árum mjög viðamikla skýrslu um kosti og galla EES samningsins. Meginniðurstaða þeirrar úttektar var sú að EES samningurinn fæli í sér meira framsal á fullveldi en innganga í Evrópusambandið og að Norðmenn hafi í gegnum samninginn engin áhrif á ákvarðanatökuferlið í Brussel. Þar að auki er einkennileg sú áhersla ríkisstjórnarinnar að ætla að byggja á samningi sem Ísland gerist brotlegt við á hverjum degi.

Við uppfyllum ekki grundvallarkröfur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þar eru mikilvægustu stoðirnar um frjálst flæði, m.a. frjálst flæði fjármagns milli landa. Þann þátt samningsins uppfyllum við einfaldlega ekki vegna þess að við höfum neyðst til þess í vandræðum okkar að setja hér lög um gjaldeyrishöft. Við eigum stöðu okkar innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið algerlega undir viðsemjanda okkar vegna þess að við erum brotleg við samninginn og aðeins vegna þess að það er litið fram hjá því um sinn að sá er veruleikinn höldum við enn þeim réttindum sem samningurinn felur í sér. Það að ætla að byggja hagsmuni Íslands á samningi sem við uppfyllum ekki, höfum ekki uppfyllt í rúmlega fimm ár og höfum engar trúverðugar áætlanir um að geta efnt í fyrirsjáanlegri framtíð er þess vegna býsna kindarleg stefna svo ekki sé meira sagt, fyrir utan hversu lítil sýn það er um stöðu Íslands til framtíðar að ætla að láta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið taka æ meiri völd af Íslandi, fullveldi okkar og sjálfstæði.

Gott fordæmi

Uncategorized

Reykjavíkurborg hefur sýnt gott fordæmi með því að afturkalla fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir. Þessi ákvörðun þýðir raunlækkun á gjöldum því meðan laun hækka standa gjöldin í stað. Það er ekki síst mikilvægt fyrir barnafjölskyldur í borginni því þjónustugjöld borgarinnar snúa mest að þeim.

Öðruvísi pólitík

Það sem er líka gott er að borgin þori að breyta því sem búið var að ákveða. Oft hafa stjórnmálamenn talið sér trú um að það megi ekki. Sá sem hætti við ákvörðun sýni veikleika og missi traust. Enn frekar ef hann væri með því að láta að kröfum minnihlutans. En í raun er þessu alveg öfugt farið. Sá sem hefur þor til að breyta ákvörðun sinni sýnir styrkleika og flest treystum við betur þeim sem hlusta á aðra.

Búmmerang Bjarna Ben

Þegar borgin ákvað að hætta við hafði formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson nýlega sagt um hækkanir borgarinnar að halda yrði hækkunum niðri til að eyðileggja ekki fyrir kjarasamningum. Bjarni átti greinilega ekki von á því að borgin tæki tillit til athugasemda foreldra og ASÍ því þegar nú borgin hefur fallið frá sínum hækkunum eru það hækkanir Bjarna sjálfs sem blasa við. Hækkanir, sem munu auka verðbólgu á nýju ári og þar með skuldir heimilanna. Og þegar hann er nú spurður hvort hann ætli ekki að fara eftir sinni eigin hvatningu, gera eins og borgin og hætta við hækkanir þá svarar hann: Nei, hækkanirnar standa.

Hækkar umfram vinstri stjórnina

Nú hafa allir flokkar hækkað gjöld, ekki síst árin eftir hrun þegar hallareksturinn var botnlaus. En það er auðvitað hægt að hækka gjöld svo mikið að tekjurnar hætti að skila sér og sannarlega hafa hækkanir lagst þungt á verðtryggðar skuldir fólks. Þess vegna var það okkar niðurstaða um síðustu áramót að nota bættan hag ríkisins til að hækka ekki bensín, olíu, útvarpsgjald, bifreiðagjöld,   o.fl. gjöld bæði vegna þess að þau væru komin að þolmörkum og vegna áhrifa á skuldir heimila. En Framsóknar og Sjálfstæðisflokkur láta það svo verða sitt fyrsta verk eftir lækkun veiðigjalda að hækka bensín og olíugjöld, útvarpsgjald, bifreiðagjöld, áfengi og tóbak, skólagjöld og leggja ný gjöld á sjúklinga. Og þó bæði borgin og verkalýðshreyfingin hvetji þá til að hverfa frá hækkunum þá ætla þeir samt að hækka.

Gamaldags pólitík

Þetta verður enn pínlegra af því að einmitt þessir flokkar hafa verið að segja fólki að hækkanir gjalda skili ekki auknum tekjum. Þeir geta þess vegna ekki trúað því að hækkanirnar séu nauðsynlegar fyrir tekjur ríkisins. Eða hvað? Og enn sorglegra verður þetta þegar haft er í huga að Sjálfstæðisflokkurinn og Bjarni Benediktsson fluttu sérstakt þingmál þegar staða ríkisins var miklu verri, ekki um að hætta við hækkanir á bensíni, heldur beinlínis að lækka það verulega. Hækkanirnar nú sýna að það var bara ómerkilegur áróður. Það er gott fyrir kjósendur í Reykjavík að muna í kosningabaráttunni í vor þegar ríkisstjórnarflokkarnir lofa þeim lækkunum gjalda, hverjir það eru sem í raun eru að hækka gjöld og hverjir ekki.

 

Pistillinn birtist í DV 18. nóvember

Sjúklingaskattalækkun

Uncategorized

Flestir ættu að geta tekið undir það markmið ríkisstjórnarinnar að ná fram hallalausum fjárlögum á næsta ári, enda verið stefnt að því frá hruni. Hins vegar eru ekki allir sammála um hvernig því markmiði skuli náð. Í kjölfar niðurskurðar og skattahækkana síðustu ára hefur nú loksins skapast svigrúm til sóknar og uppbyggingar á þeim sviðum samfélagsins sem látið hafa undan. Staðan er vissulega enn erfið, en þess vegna skiptir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar líka miklu máli.

Umræðan í þjóðfélaginu og fréttaflutningur undanfarið benda eindregið til þess að heilbrigðiskerfið verði að njóta sérstaks forgangs þegar kemur að því nota svigrúmið sem skapast hefur. Það varð einnig niðurstaða síðustu ríkisstjórnar, sem ákvað að hætta niðurskurði í heilbrigðiskerfinu fyrir einu og hálfu ári síðan og hefja uppbyggingarferlið. Slíku er því miður ekki fyrir að fara í fjárlagafrumvarpinu, heldur þvert á móti. Áfram er gerð hagræðingarkrafa á Landspítalann og hvergi sjást áætlanir um uppbyggingu nýs spítala.

Lækkun sjúklingaskatta

Ekki er látið staðar numið við niðurskurð. Að auki er kynntur til sögunnar nýr sjúklingaskattur og vonast til að veikustu einstaklingar þessa samfélags skili ríkissjóði um 200 milljónum króna á næsta ári. Fátt lýsir betur undarlegri forgangsröðun ríkisstjórnar, sem gaf kosningaloforð um stóraukin fjárframlög til heilbrigðismála.

Í kjölfar hrunsins var staðan þannig að ekki voru aðstæður til að minnka gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Nú þegar svigrúm skapast væri eðlilegra að horfa til þess að lækka sjúklingaskatta en að hækka þá.

Samræmd gjaldtaka

Mikil sóknarfæri eru jafnframt í því að samræma alla gjaldtöku á heilbrigðiskerfinu. Skref voru stigin í þau átt með nýjum lyfjalögum. Það verður að segjast eins og er að augljósir ágallar voru í framkvæmd þeirra laga, en markmið þeirra stenst um aukinn jöfnuð meðal sjúklinga. Ekki er nóg að líta eingöngu til lyfjakostnaðar, heldur verður að líta heildrænt til kostnaðar á lyfjum og annarri heilbrigðisþjónustu. Setja á markmið um að kostnaður sjúklinga fari aldrei yfir tiltekin mörk þannig að fólk í sambærilegri stöðu hafi sömu réttindi.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur boðist til að setjast niður í fjárlagavinnunni, þvert á flokka, og leita allra leiða til að byggja upp á Landspítalanum og létta álögum á sjúklingum. Þegar nú virðist hægt að lækka skatta á útgerðina, efnafólk, og tekjuskatt er eðlilegt að spyrja hvort sjúklingaskattalækkun sé ekki tímabær.

Pistillinn birtist í DV 9. október sl.

Stefnuræða forsætisráðherra

Uncategorized

Forsætisráðherra flutti í gær stefnuræðu sína við upphaf 143. löggjafarþings. Ég tók þátt í umræðunum og læt ræðu mína fylgja hér:

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. „Til hamingju Ísland“, gæti stefnuræða hæstv. forsætisráðherra heitið þetta árið eins og framlag annars fulltrúa sem við kusum hér um árið á öðru sviði þjóðlífsins. Um ræðuna má segja að það er ekkert nema gott og fallegt að hafa trú á landinu sínu en við Íslendingar þurfum að gæta þess að hrópa ekki Ísland best í heimi, því að við höfum svo nýlega lært að ofmetnaður er falli næst.

Þegar hæstv. forsætisráðherra segir það beinlínis ákjósanlegt að búa langt frá öðrum löndum með skýr landamæri, ein þjóð með sambærileg gildi, þá minnir alþjóðasinnaður jafnaðarmaður á að enginn maður er eyland, einhlítur sjálfum sér, að sérhver maður er brot af meginlandinu og hluti veraldarinnar. Einangrunarstefnan mun aldrei skila okkur Íslendingum öðru en höftum, fábreytni og fákeppni. En um það erum við forsætisráðherra sannarlega sammála að gríðarlegur árangur hefur náðst á síðustu árum þó að ég ætti ekki von á því að þurfa að segja um aukinn kaupmátt, atvinnusókn og hagvöxt: Hægan, hægan, hæstv. forsætisráðherra, við skiluðum ekki alveg svona góðu búi.

Við höfum ekki náð svona langt. Það er enn þá mikið verk að vinna. Við þurfum innspýtingar við. Við megum ekki við því að afþakka erlenda fjárfestingu. Við megum ekki við því að skapa óvissu um stóra þætti í efnahag okkar, fá lækkun á lánshæfismati okkar sem dregur úr líkum á nýjum fjárfestingum í landinu því að við þurfum innspýtingar við.

Virðulegur forseti. Sannarlega átti ég aldrei von á því að horfa á formann Framsóknarflokksins skera niður hægri vinstri hvert framkvæmda- og atvinnuskapandi verkefnið af öðru sem fráfarandi ríkisstjórn kom á. Eins og honum þyki að hún hafi verið allt of framkvæmdasinnuð og atvinnuskapandi. Nei, en það er tilefni til að vera bjartsýn. Eftir fjögur ár í þrotlausum skattahækkunum og niðurskurði er núllinu loksins náð. Svigrúm í ríkisfjármálum hefur fólkið í landinu skapað með fórnum sínum og nú er í fyrsta skipti kosta völ. Við gátum valið að halda veiðigjaldinu áfram og þá hefði engan niðurskurð þurft í velferðarþjónustu. Það sárgrætilega er að þegar við höfum náð þessum mikilvæga áfanga í ríkisfjármálunum er valið vitlaust.

Það er ekki bara hörð hægri pólitík. Það er líka vond efnahagspólitík. Einhvern tíma sagði formaður Framsóknarflokksins að maður sparaði sig ekki út úr kreppu, en Framsóknarflokkurinn verður að ráða sínum næturstað.

Hvað sem kann að líða deilum okkar í þinginu hvet ég þó til þess að við á Alþingi tökum saman höndum, þvert á flokka, og leiðréttum þau augljósu mistök sem ríkisstjórnin hefur gert í málefnum Landspítalans. Við skulum bara kalla það misskilning, við skulum ekki hafa uppi neinn umkenningaleik. Nú þegar svigrúm hefur loksins skapast í ríkisfjármálum skulum við saman setjast niður og leita tekna til að efla spítalann án þess að það leiði til halla á fjárlögum. Það er til þess ætlast, nú þegar svigrúm hefur skapast í ríkisfjármálum, að við lyftum saman Landspítalanum því að hann er dauðans alvara.

Ég bið líka um stuðning við þingmál sem hv. þm. Kristján Möller mun fara fyrir af okkar hálfu í Samfylkingunni um byggingu nýs Landspítala.

Virðulegur forseti. Það er sannast sagna algjörlega ófært að forsætisráðherra standi í veginum fyrir því að ráðist sé í þær skynsamlegu framkvæmdir sem geta aukið atvinnustigið, sem eru mikilvægt innlegg í að auka framkvæmdir, sem bæta starfsaðstöðu heilbrigðisstétta og aðstöðu sjúklinga og auka hagkvæmni í rekstri spítalans og framleiðni í landinu.

Ég bið um að hér fái skynsemin að ráða, að í þessum sal, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekkert samráð haft, átti stjórnarmeirihlutinn sig á því að það er samstarf og samvinna okkar hér sem er líklegust til að skila okkur árangri, auka eindrægni í samfélaginu og traust á Alþingi.

Leigjendur og kaupendur fái sömu bætur

Uncategorized

Fréttir segja okkur að nú sé enn verra að leigja sér íbúð en áður. Hefur það samt oftast verið dýrt, erfitt og óöruggt. Þetta ástand varð til þess að við í Samfylkingunni lögðum fram á Alþingi í síðustu viku  tillögur um aðgerðir fyrir leigjendur. Það vekur bjartsýni að margir flokkar vilja gera eitthvað í málum leigjenda.

Sanngirnismál

Eitt það skrýtnasta í okkar íbúðamálum er að oft fá þeir meiri bætur frá kerfinu sem kaupa sér íbúð, en hinir sem leigja fá minna. Samt eru þeir sem kaupa oft með meiri peninga milli handa en hinir sem leigja. Réttlátara væri auðvitað að fólk fái jafn miklar bætur hvort sem það kaupir eða leigir og bætur miðist við laun og eignir hvers og eins. Við viljum að fólk fái sömu bætur, hvort sem það velur að kaupa eða leigja. Við lögðum það til á síðasta kjörtímabili og nú á þessu.

Það væri líka skrýtið í íbúðamálunum ef þeim sem borga af íbúðalánum verður hjálpað vegna verðbólgunnar í hruninu, en ekki þeim sem borga leigu. Mikið af hækkun húsaleigu er vegna verðbólgu í hruninu. Ef það á að lækka afborganir þeirra sem urðu fyrir verðbólguskotinu væri jafn rétt og sanngjarnt að leiðrétta líka húsaleigu þeirra sem urðu fyrir sama verðbólguskoti.

Öryggi fjölskyldunnar

Óöryggi þeirra sem leigja hefur oft á tíðum verið jafn mikill galli og há leiga.  Allt of algengt er að fólk hafi þurft að flytja aftur og aftur úr einni leiguíbúð í aðra. Ekki hefur það síst verið vont fyrir börnin sem hafa jafnvel þurft að skipta oft um skóla. Sterk leigufélög eins og hjá borginni, Öryrkjabandalaginu og nú síðast í gegnum Íbúðalánasjóð auka framboð af öruggum leiguíbúðum til lengri tíma. Þess vegna er rétt að fjölga slíkum félögum og efla þau sem fyrir eru.

Framboð og fjölbreytni

Með því að fjölga leiguíbúðum gerum við bæði að lækka leigu og fjölga öruggum langtíma leiguíbúðum. Við leggjum til átak þar sem bæði sveitarfélög og ríki veita styrki til þeirra sem vilja koma upp langtíma leiguíbúðum. Þá er gert ráð fyrir að ráðstafa lóðum í eigu ríkisins til leiguíbúða. Með því síðan að leigjendur fái sömu bætur og kaupendur íbúða verður staða leigjenda mun betri og jafnari en hún er nú.

Fleiri en áður vilja nú leigja íbúð en kaupa og eðlilegt að kerfið komi til móts við fólk með svipuðum hætti hvort sem það velur. Hér á landi hefur því miður verið minna af leiguíbúðum en í nágrannalöndunum og sérstaklega íbúðum sem ætlaðar eru til öruggrar langtímaleigu. Hrunið sýndi mörgum að það getur komið sér illa að eiga íbúð ef maður skuldar mikið í henni og sveiflur eru miklar eins og á Íslandi. Langtímaleiga getur verið fyrir marga jafn góður eða betri valkostur og íbúðakaup.

Þegar aukin réttindi leigjenda hafa verið tryggð eigum við í framhaldinu að huga að fleiri möguleikum eins og búseturéttaríbúðum, kaupleigu og öðrum leiðum sem aukið geta fjölbreytni og valkosti okkar í íbúðamálum.

 

Pistillinn birtist í DV 16. september sl.

Ég veit bara eitt…

Uncategorized

Bestu samfélög í heimi, velferðarsamfélög Norðurlandanna, voru mótuð
af sterkri hreyfingu jafnaðarmanna. Samstaða jafnaðarmanna er
lykillinn að slíku samfélagi. Við megum því ekki láta tvístra okkur
þegar öfl ójafnaðar sækja í sig veðrið. Fróðlegt er að fylgjast með
loforðum frambjóðenda um allt fyrir alla. Þau sýna okkur að endurreisnin
er langt komin og tækifærin framundan.

Það kom í minn hlut á Alþingi að fara fyrir lagasetningu á erlenda
kröfuhafa. Þær lagabreytingar hafa nú skapað Íslandi gríðarlega
sterka samningsstöðu sem meta má til hundruða milljarða króna.
Þessu þarf að fylgja fast eftir.

Um leið og ég þakka þann trúnað sem mér hefur verið sýndur vil ég
vekja athygli þína á því að samkvæmt könnun Capacent frá 19. apríl
vantar herslumun á að ég nái kjöri sem kjördæmakjörinn þingmaður
í Reykjavík suður.

Því bið ég um stuðning þinn við okkur í Samfylkingunni í kosningunum
á laugardag. Þitt atkvæði getur ráðið úrslitum – xS.

Gleðilegt sumar,

Helgi Hjörvar