Snautleg framtíðarsýn utanríkisráðherra

Uncategorized

Framganga utanríkisráðherra í Evrópumálunum verður æ undarlegri svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þegar skýrsla Hagfræðistofnunar um stöðu aðildarviðræðna Íslands við ESB kom loksins fram beið ráðherra ekki boðanna og lagði fram tillögu um að slíta viðræðunum. Það gerði hann áður en umræðum um skýrsluna lauk á Alþingi og án þess að umsagna eða álits nokkurs aðila hafi verið leitað.

Í gær bætti hann svo um betur þegar Evrópustefna ríkisstjórnarinnar var kynnt á sama tíma og þingmenn ræða hina misráðnu tillögu um slit á aðildarviðræðunum. Samkvæmt Evrópustefnunni verður áherslan lögð á EES-samninginn og á grundvelli hans á að sækja rétt okkar og reyna að hafa áhrif. Norðmenn kynntu fyrir rúmum tveimur árum mjög viðamikla skýrslu um kosti og galla EES samningsins. Meginniðurstaða þeirrar úttektar var sú að EES samningurinn fæli í sér meira framsal á fullveldi en innganga í Evrópusambandið og að Norðmenn hafi í gegnum samninginn engin áhrif á ákvarðanatökuferlið í Brussel. Þar að auki er einkennileg sú áhersla ríkisstjórnarinnar að ætla að byggja á samningi sem Ísland gerist brotlegt við á hverjum degi.

Við uppfyllum ekki grundvallarkröfur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þar eru mikilvægustu stoðirnar um frjálst flæði, m.a. frjálst flæði fjármagns milli landa. Þann þátt samningsins uppfyllum við einfaldlega ekki vegna þess að við höfum neyðst til þess í vandræðum okkar að setja hér lög um gjaldeyrishöft. Við eigum stöðu okkar innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið algerlega undir viðsemjanda okkar vegna þess að við erum brotleg við samninginn og aðeins vegna þess að það er litið fram hjá því um sinn að sá er veruleikinn höldum við enn þeim réttindum sem samningurinn felur í sér. Það að ætla að byggja hagsmuni Íslands á samningi sem við uppfyllum ekki, höfum ekki uppfyllt í rúmlega fimm ár og höfum engar trúverðugar áætlanir um að geta efnt í fyrirsjáanlegri framtíð er þess vegna býsna kindarleg stefna svo ekki sé meira sagt, fyrir utan hversu lítil sýn það er um stöðu Íslands til framtíðar að ætla að láta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið taka æ meiri völd af Íslandi, fullveldi okkar og sjálfstæði.