Það þarf að breyta kerfinu sem hrundi

Blaðagreinar

Í kjölfar hrunsins reis mjög hávær krafa í þjóðfélaginu um gagngerar breytingar á stjórnkerfinu. Það var sannarlega ætlun síðustu ríkisstjórnar að ráðast í slíkar breytingar. Um þúsund manns tóku þátt í þjóðfundi þar sem lýðræðisskipan landsins var rædd og í kjölfarið var kosið sérstakt stjórnlagaþing. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 undirstrikaðist skýr vilji þjóðarinnar til heildarendurskoðunar stjórnarskrárinnar. Þessum leiðangri tókst því miður ekki að ljúka. Vonandi nær sú stjórnarskrárnefnd sem nú er að störfum saman um tillögur að nauðsynlegum breytingum á stjórnarskránni og sérstaklega það sem þjóðaratkvæðagreiðslur varðar. Hvort sem það tekst eða ekki er ljóst að tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá þurfa að vera forgangsmál í næstu kosningum og verða að veruleika á nýju kjörtímabili.

Breytinga þörf

En það er ekki bara stjórnkerfinu sem þarf að breyta, heldur líka fjármálakerfinu. Á síðasta kjörtímabili fór orkan að mestu leyti í sjálfa rústabjörgunina og lítið tóm gafst til að ræða endurskipulagningu fjármálakerfisins. Sagan segir okkur að fjármálakreppur hafa skollið á með nokkuð reglulegu millibili og þannig hafa yfir tuttugu fjármálakreppur, misumfangsmiklar að vísu, orðið á Íslandi á síðustu 150 árum. Viðbrögð kerfisins í aðdraganda fjármálaáfalla eru alltaf þau sömu: This time it‘s different. Samt gerist þetta aftur og aftur. Ef við gerum ekki grundvallarbreytingar eru líkur á að við lendum í því sama aftur.

Við megum ekki afneita orsökum síðasta hruns.

Skipta um gjaldmiðil

Það er ljóst að til lengri tíma þarf af skipta um gjaldmiðil og taka upp evru. Áður en að því kemur þarf hins vegar að endurreisa fjármálakerfið. Augljóslega getum við ekki til frambúðar búið við mynt sem ekki er gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum en þangað til þurfum við að gera allt sem við getum til að bæta núverandi kerfi. Það er heldur ekki hægt að endurreisa hér kerfi þar sem almenningur þarf að búa við ónýtan gjaldmiðil og okurvexti en stórfyrirtæki gera upp í erlendum gjaldmiðlum og fjármagna sig erlendis á 1% vöxtum. Það þarf líka að ráðast í aðskilnað fjárfestingabankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi, koma á raunverulegri samkeppni á bankamarkaði og tryggja dreift eignarhald. Séríslenskar lausnir eins og verðtrygging neytendalána þurfa að heyra sögunni til. Við þurfum líka að breyta stýrivaxtapólitíkinni sem heldur uppi óhóflegum kostnaði fyrir atvinnulífið og laðar erlenda spákaupmenn á ný inn í Seðlabankann í vaxtamunarviðskipti. Með öðrum orðum, það má alls ekki endurreisa aftur það fjármálakerfi sem hér hrundi.

Kallar á aðgerðir

Breytingar í bankakerfinu munu kalla á aðgerðir í húsnæðismálum. Það er ekki nóg að vísa þeim sem ekki komast í gegnum greiðslumat eða vilja ekki taka hávaxtalán til langs tíma á leigumarkað. Við þurfum að endurreisa kerfi eins og verkamannabústaðakerfið var og gerði fólki kleift að eignast eigið húsnæði eða hluta í húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Þá þarf að efla úrræði eins og kaupleigu, búseturétt og húsnæðissamvinnufélög. Það er grundvallaratriði að þessar mikilvægu kerfisbreytingar nái fram að ganga á næsta kjörtímabili, því eins og staðan er nú er allt komið á fullt við að endurreisa það sem var og grátbrosleg fullkomnun yrði ef sömu bankarnir yrðu einkavæddir sömu hópunum aftur.

Greinin birtist í DV 5. febrúar sl.