Þingræða

Athugasemd á þingi: Upp komast svik um síðir

Þingræða

Virðulegur forseti. Upp komast svik um síðir. Umboðsmaður Alþingis var á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun og upplýsti um að fram kynnu að vera komin gögn sem færðu okkur heim sanninn um það með hvaða hætti staðið var að aðkomu þýsks banka að einkavæðingu íslensku bankanna. Þegar fjárlaganefnd þingsins rannsakaði þetta fyrir um tíu árum síðan voru það þær upplýsingar sem helst skorti til að hægt væri að afhjúpa það svindl og svínarí sem þar var á ferðinni.

Það er þess vegna grundvallaratriði og mikilvægasta mál fyrir þingið til að afgreiða nú, ný löggjöf um rannsóknarnefndir og að skipa í kjölfarið rannsóknarnefnd til að fara yfir hvaða hlutverk Hauck & Aufhäuser bankinn þýski gegndi við einkavæðinguna. Það er auðvitað of snemmt að fullyrða um hvaða upplýsingar það eru eða til hvers þær munu leiða okkur. En við höfum mörg haldið því fram að ástæða sé til að ætla að þessi þýski einkabanki hafi ekki verið raunverulegur kaupandi að hlut í Búnaðarbankanum heldur hafi hann verið leppur fyrir íslenska aðila og að þessi erlenda fjárfesting sem svo var kölluRð og notuð til að réttlæta að menn gengu að tilboði þessa hóps í bankann hafi ekkert verið erlend fjárfesting heldur íslenskir peningar og jafnvel bara fengnir að láni úr sömu ríkisbönkum og verið var að afhenda þeim aðilum. Það er grundvallaratriði að kostað verði kapps um að upplýsa eins fljótt og verða má allan almenning í landinu um hvernig þessu var háttað og að sá sem fer í þá rannsókn fái alla fjármuni og starfsmenn sem hann þarf til að þær (Forseti hringir.) upplýsingar megi liggja hér á borðum landsmanna sem allra fyrst því að þarna er kjarnann í samsærinu um einkavæðingu bankanna að finna.


Ræða í umræðum um störf þingsins 24. maí 2016

Umræður á þingi: Verða kosningar í haust?

Þingræða

Í tíma fyrir óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi 23. maí 2016 tók ég umræðu við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, um hvort ætlunin væri að efna fyrirheit um þingkosningar í haust. Tilefni fyrirspurnarinnar voru óvæntar yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins. Öll umræðan er hér en texti með mínu framlagi til hennar er hér að neðan:

Fyrri ræðan:

Virðulegur forseti. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa ítrekað gefið út um það yfirlýsingar að gengið verði til kosninga í haust. Síðari hluti októbermánaðar hefur þar verið nefndur, en nú spyr ég: Má treysta því að þær yfirlýsingar standi? Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að formaður Framsóknarflokksins, sem nýkominn er úr leyfi, gaf út opinberar yfirlýsingar um það í gær að ekki væri nauðsynlegt að ganga til kosninga í haust. Nú hafa þær yfirlýsingar bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra verið nokkuð afdráttarlausar. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að þetta kjörtímabil verði stytt um eitt þing og meðan formaður Framsóknarflokksins var í leyfi hefur hér verið afgreitt stærsta húsnæðismálið, sem var mál sem brann mjög á Framsóknarflokknum að þyrfti að ljúka. Í gær lukum við aflandskrónumálinu sem fjármálaráðherra hafði lagt ríka áherslu á.

Ég spyr þess vegna hvort við megum ekki treysta því að sú starfsáætlun sem lögð hefur verið og þau áform að efna til kosninga í haust standist. Það er mikilvægt fyrir starfið í þinginu en það er líka mikilvægt fyrir lýðræðislegt starf utan þingsins og undirbúning flokka, bæði sem eru á þingi og eru utan þings, um framboð og aðra slíka hluti og nauðsynlegt er að hæstv. fjármálaráðherra taki af öll tvímæli um hvaða fyrirætlanir eru uppi.

(meira…)

Þingræða: Hvers vegna þetta fálæti um málefni fatlaðra?

Þingræða

Virðulegur forseti. Fatlað fólk er ekki í forgangi hjá ríkisstjórninni. Hún hefur núna skilað forgangslista sínum og þar er hvorki að finna fullgildingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks né innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins um bann við mismunun. Eiga þau mál þó að vera til.

Tilskipun um bann við mismunun tók gildi í Evrópusambandinu árið 2000. Nú eru liðin 16 ár án þess að þau réttindi fatlaðs fólks hafi verið lögfest á Íslandi. 153 ríki veraldarinnar hafa fullgilt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem aftast standa í þessu efni. Við erum eitt af fjórum ríkjum í Evrópu sem ekki hafa tryggt réttindi fatlaðs fólks samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hverju sætir þetta fálæti? Hvers vegna eru málefni fatlaðs fólks ekki á forgangslista ríkisstjórnarinnar? Þau liggja fyrir, þau eru til, það þarf ekkert að gera nema koma með þau hingað inn og samþykkja þau. En við finnum forgangsmál um timbur og timburvörur, virðulegur forseti. Já, og við finnum evrópskar tilskipanir frá árinu 2013 þegar málefni atvinnulífsins eru annars vegar af því að þau eru í forgangi.

Ég skora á þingmenn úr öllum flokkum sem vilja vinna að réttindum fatlaðs fólks að mótmæla forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og gera það að kröfu úr öllum þingflokkum að sjálfsögð mannréttindi fatlaðs fólks, sem lögfest hafa verið um alla Evrópu og sem þrír fjórðu hlutar (Forseti hringir.) af öllum ríkjum veraldarinnar hafa þegar fullgilt, verði líka látin taka gildi á Íslandi.


Ræða flutt í umræðum um störf þingsins 29. apríl 2016.